fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

„Það versta úr efnahagsstefnu ESB“

Egill Helgason
Mánudaginn 18. mars 2019 20:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisstjórnin hefur er farin að grípa til hagræðingar- og sparnaðaraðgerða sem miða við yfirvofandi kólnun í hagkerfinu og þá væntanlega minni tekjur ríkissjóðs. Nú hefur verið tilkynnt um þriggja milljarða eða um tíu prósenta skerðingu í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Samband sveitarfélaga mótmælir harðlega en þetta byggir á fjármálaáætlun, talsmenn ríkisstjórnarinnar segja að sé knappur tími fyrir hana, hún gildir í fimm ár og á að leggja hana fram síðar í mars –  og verður síðan til meðferðar í þinginu fram eftir vori.

Líklegt er að þetta sé bara forsmekkurinn að því sem koma skal, að víða annars staðar komi upp niðurskurðarkröfur. Það er í anda fjármálareglunnar svokölluðu sem varð að lögum í upphafi árs 2016, í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Helsti hvatamaður að henni var þó Bjarni Benediktsson, sem þá var fjármálaráðherra líkt og nú. Hún hjómar svo samkvæmt vef stjórnarráðsins:

„Skilyrði fjármálastefnu og fjármálaáætlun svokallaðar fjármálareglur fela í sér í fyrsta lagi að heildarjöfnuður ríkis og sveitarfélaga yfir hvert fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu. Í öðru lagi að heildarskuldir hins opinbera, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, séu lægri en nemur 30% af vergri landsframleiðslu. Í þriðja lagi gera lögin kröfu um markvissa lækkun skulda á meðan skuldir eru yfir 30% viðmiðinu.“

Nú upplifum við það í fyrsta sinn að fjármálareglunni verður beitt í samfélagi þar sem er samdráttur  – að minnsta kosti miðað við það sem hefur verið um nokkuð langt skeið. Gagnrýnendur fjármálareglunnar bentu á það á sínum tíma að þetta takmarkaði möguleika stjórnvalda til að vinna má móti samdrætti og niðursveiflum, semsagt gegn því að beita ríkisfjármálum til að örva hagkerfi. Eftir kreppuna 2008 voru Evrópuríki mikið gagnrýnd fyrir að gera þetta ekki, fara frekar leið niðurskurðar, en Bandaríkjunum var hinu opinbera beitt meira í því skyni að örva hagkerfið og blása í það lífi á ný. Enda risu Bandaríkin mun fyrr úr kreppunni, sem þó hófst vestanhafs, en ríki Evrópu.

Friðrik Jónsson sem margt hefur skrifað um efnahagsmál og bloggaði um tíma hér á Eyjunni skrifar um þetta á Facebook:

„Nú fer að koma í ljós að við sem vöruðum við skilyrðum 7. greinar nýrra laga um opinber fjármál frá 2015 höfðum rétt fyrir okkur. Þau verða til þess að gengið verður hart fram í niðurskurði um leið og grunur leikur á hugsanlegum samdrætti í efnahagslífinu. Það verður svo til þess að tryggja að það verður samdráttur, og að sá samdráttur verður meiri og illviðráðanlegri en hann þarf að vera. Krafan um að „heildarjöfnuður yfir fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu“ tekur upp það allra, allra versta úr efnahagsstefnu ESB – stefna sem frekar enn nokkuð annað hefur ýtt undir ójöfnuð, misskiptingu, óánægju og þar með m.a. uppgang öfgaafla. Þessu til viðbótar er skilyrði sömu greinar um að „…heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, séu lægri en nemur 30% af vergri landsframleiðslu“ alveg jafn galin og til þess fallinn að valda óþarfa vandræðum, sérstaklega þar sem engin greinarmunur er gerður á innlendum (krónu-) og erlendum (gjaldeyris-) skuldum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn