fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Tekjuafkoman jákvæð um 30,7 milljarða króna

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 15. mars 2019 09:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Áætlað er að tekjuafkoma hins opinbera hafi verið jákvæð um 30,7 milljarða króna árið 2018, eða sem nemur 1,1% af landsframleiðslu. Til samanburðar var afkoman jákvæð um 13,9 milljarða króna árið 2017. Bætt afkoma skýrist m.a. af lægri vaxta- og tilfærsluútgjöldum en taka verður tillit til þess að árið 2017 var í reikningum sveitarfélaga gjaldfærsla fjármangstilfærslu til Brúar lífeyrissjóðs upp á 32,0 milljarða króna.

Fjármál hins opinbera
Milljarðar króna á verðlagi hvers árs 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 1
Heildartekjur hins opinbera 740,8 795,7 907,0 931,0 1.418,3 1.146,5 1.198,7
Heildarútgjöld hins opinbera 807,2 830,5 908,5 949,1 1.108,7 1.132,6 1.167,9
Tekjuafkoma hins opinbera -66,5 -34,8 -1,5 -18,2 309,6 13,9 30,7
Hlutfall af VLF %
Heildartekjur hins opinbera 40,2 40,6 43,7 40,7 56,7 43,8 42,8
Heildarútgjöld hins opinbera 43,8 42,4 43,8 41,5 44,3 43,3 41,7
Tekjuafkoma hins opinbera -3,6 -1,8 -0,1 -0,8 12,4 0,5 1,1
Tekjuafkoma ríkissjóðs -3,2 -1,7 0,8 -0,3 12,1 1,7 1,3
Tekjuafkoma sveitarfélaga -0,5 -0,4 -0,8 -0,6 0,1 -1,3 -0,3
Tekjuafkoma almannatrygginga 0,0 0,3 -0,1 0,0 0,3 0,1 0,1
Bráðabirgðatölur

Tekjur hins opinbera 42,8% af VLF
Tekjur hins opinbera námu um 1.198,7 milljörðum árið 2018, eða sem nemur 42,8% af áætlaðri landsframleiðslu ársins. Til samanburðar mældust tekjur hins opinbera 1.146,5 milljarðar árið 2017, eða sem nemur 43,8% af landsframleiðslu þess árs. Á verðlagi hvers árs jukust tekjur hins opinbera um 52,2 milljarða á árinu 2018, borið saman við fyrra ár eða um 4,6%.

Heildartekjur ríkissjóðs jukust um 3,8% árið 2018 samanborið við fyrra ár og námu alls 882,7 milljörðum króna. Tekjur sveitarfélaga jukust nokkuð meira eða um 6,7% og námu alls 354,3 milljörðum króna. Heildartekjur almannatrygginga jukust mest eða um 9,3% og námu alls 245,4 milljörðum króna á árinu 2018.

Skattar á tekjur og hagnað jukust um 6,4% árið 2018
Skattar á tekjur og hagnað er stærsti tekjuliður hins opinbera og skilaði 42,8% af heildartekjum hins opinbera á árinu 2018. Alls námu tekjur hins opinbera af tekjusköttum 513,4 milljörðum á árinu 2018 og jukust um 6,4% frá fyrra ári. Sem hlutfall af landsframleiðslu námu skattar af tekjum og hagnaði 18,3% árið 2018. Tekjur hins opinbera af sköttum á vöru og þjónustu jukust nokkru minna á árinu 2018 borið saman við fyrra ár eða um 2,7%. Skattar á vöru og þjónustu námu 28% af heildartekjum árið 2018, eða 12% af landsframleiðslu ársins.

Útgjöld hins opinbera jukust um 3,1% árið 2018
Útgjöld hins opinbera eru áætluð 1.167,9 milljarðar króna árið 2018 og jukust um 3,1% milli ára. Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs hafi aukist um 5,1%, útgjöld almannatrygginga um 9,3% en að útgjöld sveitarfélaga hafi dregist saman um 0,9% frá fyrra ári. Hafa ber í huga að á árinu 2017 var gjaldfærð fjármagnstilfærsla sveitarfélaga til Brúar lífeyrissjóðs upp á 32 milljarða króna. Að frádreginni þeirri fjármagnstilfærslu er áætlað að heildarútgjöld sveitarfélaga hafi aukist um 8,6% á árinu 2018 samanborið við fyrra ár.

Samneysluútgjöld hins opinbera, þ.e. launaútgjöld, kaup á vöru og þjónustu og afskriftir að frádreginni sölu á vöru og þjónustu, námu 660,5 milljörðum króna, eða 23,6% af landsframleiðslu árið 2018. Er það aukning um 7,7% milli ára. Launakostnaðurinn vegur þyngst og er áætlað að hann hafi aukist um 8,7% frá árinu 2017. Fjárfestingarútgjöld hins opinbera jukust um 21,3% árið 2018, en hlutfall þeirra af landsframleiðslu hefur farið hækkandi undanfarin ár og mældist 3,8% á síðasta ári. Mikill vöxtur í fjárfestingu hins opinbera skýrist meðal annars af afhendingu Hvalfjarðarganga frá einkahlutafélaginu Speli til ríkisins. Er eignin skráð sem fjárfesting hjá ríkinu en á móti fjárfestingarútgjöldum tekjufærist fjármagnstilfærsla í rekstri ríkisins þannig að afhendingin hefur ekki áhrif á afkomuna. Bráðabirgðatölur benda til þess að félagslegar tilfærslur til heimila hafi aukist um 9% á árinu 2018 og nemi 6,5% af landsframleiðslu borið saman við 6,3% árið áður. Áætlað er að vaxtagjöld hins opinbera árið 2018 hafi lækkað um 14,7% samanborið við árið 2017, en sem hlutfall af landsframleiðslu námu vaxtagjöldin 3,1% samanborið við 3,9% árið 2017.

Útgjöld til heilbrigðis- og menntamála
Einn stærsti málaflokkurinn í opinberum rekstri eru heilbrigðismálin og árið 2018 er áætlað að 17,0% útgjalda hins opinbera hafi runnið til þeirra. Áætlað er að heilbrigðisútgjöld hins opinbera hafi numið 198,8 milljörðum króna, eða 7,1% af landsframleiðslu árið 2018, sem er nær óbreytt hlutfall frá fyrra ári.

Útgjöld hins opinbera til fræðslumála eru áætluð 187,4 milljarðar króna á árinu 2018, eða 6,7% af landsframleiðslu. Tæplega helmingur útgjalda hins opinbera til fræðslumála rann til grunnskólastigsins, eða sem nemur 3,2% af landsframleiðslu. Til háskólastigsins runnu 19,8% af fræðsluútgjöldum hins opinbera, eða 1,3% af landsframleiðslu. Framhaldsskólastigið tók til sín 16,5% útgjaldanna og 10,3% fóru til leikskólastigsins. Í heildina námu útgjöld til fræðslumála 16,0% af heildarútgjöldum hins opinbera.

Heildarskuldir hins opinbera námu 68,2% af landsframleiðslu í lok árs 2018
Peningalegar eignir hins opinbera námu samkvæmt áætlun 1.413 milljörðum króna í árslok 2018, eða sem nemur 50,4% af landsframleiðslu. Heildarskuldir hins opinbera námu samkvæmt áætlun 1.913 milljörðum króna í árslok 2018, eða 68,2% af landsframleiðslu samanborið við 75,3% í lok árs 2017. Er þetta sjöunda árið í röð þar sem skuldir hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu fara lækkandi en þær hafa ekki mælst lægri á þann mælikvarða í áratug.

Í árslok 2018 er áætlað að erlendar lántökur hafi numið 4,5% af landsframleiðslu en hlutfall erlenda skulda hefur farið hratt lækkandi undanfarin ár. Innlendar lántökur sem hlutfall af landsframleiðslu hafa einnig farið lækkandi og námu 8,0% af landsframleiðslu í árslok 2018. Eignir og skuldir eru áætlaðar út frá greiðslutölum árið 2018 og geta niðurstöður breyst þegar endanlegt uppgjör liggur fyrir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“