fbpx
Laugardagur 17.ágúst 2019  |
Eyjan

Jón Steinar veltir upp nýjum fleti á dómi MDE: „Grafalvarleg gamanmál“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 14. mars 2019 14:00

Jón Steinar Gunnlaugsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi Hæstaréttardómari, skrifar um úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu sem leitt hefur til afsagnar dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen. Jón Steinar bendir á að dómarar Hæstaréttar árið 2018 hafi fæstir verið metnir af matsnefnd, heldur handvaldir af vinum og kunningjum:

„Nú fer íslenskt réttarkerfi á hliðina vegna undarlegs dóms frá MDE um að dómari hafi verið skipaður að Landsdómi í andstöðu við lög. Sá dómari hafði verið metinn hæfur af matsnefnd um dómaraefni, eins og reyndar þrír aðrir dómarar, sem Alþingi skipaði en voru ekki meðal hinna 15 efstu í mati nefndarinnar. Á árinu 2018 kallaði Hæstiréttur inn í næstum öll mál sem dæmd voru á því ári, lögfræðinga sem fæstir höfðu verið metnir hæfir til setu í réttinum. Voru þeir yfirleitt valdir úr hópi vina og kunningja sitjandi hæstaréttardómara. Aðilar þessara mála máttu una því að mál þeirra væru dæmd af þessum ómetanlegu kunningjum dómaranna. Ætli þetta hafi verið í lagi?“

Þá veltir Jón Steinar því fyrir sér hvað gerðist ef dómar sem þar féllu yrðu kærðir:

„Hvernig væri að einhver þeirra málsaðila, sem mátti þola dóm Hæstaréttar þar sem slíkir dómarar sátu í dómi, kærði nú málsmeðferð Hæstaréttar til MDE? Þá yrði nú gaman!“

Árás á fullveldið

Jón Steinar hefur sagt dóm MDE vera árás á fullveldi Íslands, það hljóti allir að sammælast um, hvar í liði sem þeir eru, og rekur hann Landsréttarmálið stuttlega:

„Lýsa má aðild hinna íslensku valdastofnana nokkurn veginn svona:

  1. Dómsmálaráðherra lagði tillögu sína um skipun dómaranna 15 fyrir Alþingi svo sem ráðherranum bar. Deilt er um hvort ráðherrann hafi sinnt rannsóknarskyldu þegar hann gerði tillögu sína.
  2. Alþingi samþykkti tillögu ráðherra um skipun dómaranna. Deilt er um hvort heimilt hafi verið að greiða atkvæði um tillöguna í einu lagi eða hvort bera þurfti hana upp þannig að atkvæði yrðu greidd um hvern umsækjendanna um sig.
  3. Forseti Íslands staðfesti skipun dómaranna 15.
  4. Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu að annmarkar sem verið hefðu á skipunarferlinum hefðu ekki þær afleiðingar að skipun þeirra fjögurra dómara, sem ráðherra gerði tillögu um en ekki höfðu verið á lista matsnefndar, teldist ógild (dómur 24. maí 2018 í máli nr. 10/2018). Þeir sætu í embættum sínum þar til þeim yrði vikið úr þeim með dómi, eins og stjórnarskráin kveður á um.

Þar með var þessum ágreiningi lokið.“

MDE kemur til sögunnar

„Þá stígur Mannréttindadómstóll Evrópu inn á sviðið. Meirihluti hans telur að dómararnir fjórir hafi ekki verið löglega skipaðir. Í því felist mannréttindabrot á manni sem sakaður hafði verið um refsivert brot og dæmdur fyrir það, m.a. af einum hinna fjögurra dómara, með dómi sem Hæstiréttur síðan hafði staðfest. MDE taldi ekki að þetta hefði leitt til þess að málsmeðferðin gegn manninum hefði að efni til verið ófullnægjandi, þ.e. að hann hefði ekki notið þeirra réttinda sem honum bar við málsmeðferðina. Samt hefði verið brotinn á honum réttur vegna annmarka á skipun eins dómaranna.“

Umbúðalaus árás

„Íslendingar þurfa að skilja að hér er á ferðinni umbúðalaus árás á fullveldi Íslands. Svo sem að framan er lýst hafa þær stofnanir hér innanlands sem um ræðir komist að niðurstöðu um að dómarinn sé réttilega skipaður í embætti með þeim hætti að honum verði ekki komið úr því nema með dómi. Þær hafa líka komist að þeirri niðurstöðu, sem MDE reyndar véfengir ekki, að maðurinn hafi hlotið réttláta málsmeðferð. Hvað er dómurinn þá að vilja? Hvað kemur honum við skipun dómarans sem allar íslenskar valdastofnanir hafa staðfest að sé gild? Ástæða er til að skora á þátttakendur í málskrúði daganna að sitja nú á sér og taka höndum saman um að hrinda þessari aðför sem Ísland hefur nú sætt frá erlendri stofnun sem blygðunarlaust sækir sér vald sem hún fer alls ekki með. Þeir ættu að sýna stærð með því að sameinast til varnar fyrir fullveldi landsins í stað þess að hjakka í fari síður merkilegra deilna innanlands.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Gleðigangan er í dag
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Svört skýrsla ASÍ: Brotastarfsemi og jaðarsetning á íslenskum vinnumarkaði að aukast

Svört skýrsla ASÍ: Brotastarfsemi og jaðarsetning á íslenskum vinnumarkaði að aukast
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Guðfinna les yfir Guðmundi: „Nú er mér alvara“ – Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

Guðfinna les yfir Guðmundi: „Nú er mér alvara“ – Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ragnar Þór orðlaus: Bankastjórinn fær 312 þúsund á mánuði í 40 ár

Ragnar Þór orðlaus: Bankastjórinn fær 312 þúsund á mánuði í 40 ár
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Dýrt lambakjöt og Hagsmunagæslustofa bænda

Dýrt lambakjöt og Hagsmunagæslustofa bænda