fbpx
Laugardagur 17.ágúst 2019  |
Eyjan

Dómsmálaráðherrann

Egill Helgason
Fimmtudaginn 14. mars 2019 17:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líklega læðist að einhverjum sá grunur að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sé sett í dómsmálaráðuneytið til að halda stólnum heitum fyrir Sigríði Á. Andersen. Hún gæti þá komið aftur inn í ríkisstjórnina í fyllingu tímans þegar búið verður að leysa flækjurnar í kringum Landsrétt.

En svo má líka vera að þetta sé einungis tímabundið á þann hátt að Bjarni Benediktsson þurfi lengri tíma til að leysa úr nýjum ráðherrakapal?

Þórdís hefur verið ágætlega farsæl í því sem kallast að vera ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra – og nú bætist dómsmálaráðherra við. Þaðer langur titill. Þórdís kemur vel fyrir og er býsna skelegg. Hópur innan Sjálfstæðisflokksins hefur sótt að henni vegna þriðja orkupakkans – hún hefur ekki látið þá eiga neitt inni hjá sér.

Því verður varla trúað að hún myndi láta hafa sig í að valda starfið fyrir Sigríði.

Maður heyrir undan því kvartað að lítið sé gert úr dómsmálaráðuneytinu með því að fá það í hendurnar á ráðherra sem gegnir öðru ráðherraembætti. En við getum skoðað söguna. Það er ekkert sérlega mikil hefð fyrir því að hér sé sérstakur dómsmálaráðherra sem er ekki í öðru embætti á sama tíma.

Eftir hrun var Ragna Árnadóttir kölluð til utan úr bæ til að vera dómsmálaráðherra stutta hríð,  þvínæst tók Ögmundur Jónasson við, en hann var þá líka samgönguráðherra. Þvínæst voru gerðar skipulagsbreytingar, vinstri flokkarnir vildu fækka ráðherrum og styrkja stjórnsýsluna: Dómsmálaráðuneytinu og samgönguráðuneytinu var steypt saman og úr varð innanríkisráðuneytið – Ögmundur bar þá titilinn innanríkisráðherra.

Hanna Birna Kristjánsdóttir varð innanríkisráðherra eftir kosningarnar 2013.  Svo tók Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um tíma við verkefnum dómsmálaráðuneytisins – það var vegna vandræða Hönnu Birnu. Hún þurfti svo að segja af sér vegna lekamálsins í árslok 2014.

Ólöf Nordal tók við sem innanríkisráðherra í desember 2014 og sat fram í byrjun árs 2017, andaðist skömmu eftir að hún lét af embætti.

Þá var brugðið á það ráð að skipta innanríkisráðuneytinu upp, tilhneigingin var að taka sem mest til baka af þvi sem stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafði gert. Sigríður Á. Andersen varð dómsmálaráðherra þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar tók við. Sú stjórn féll vegna mála sem tengdust Sigríði, en hún þraukaði og hélt áfram sem dómsmálaráðherra í ríkisstjórninni með VG og Framsókn.

Hér á árum áður var undir hælinn lagt hvort væri sérstakur dómsmálaráðherra (þá var það reyndar kallað dóms- og kirkjumálaráðherra). Á fyrri hluta stjórnartíðar Davíðs Oddssonar, bæði í ríkisstjórn með Alþýðuflokki og síðar Framsóknarflokki, var Þorsteinn Pálsson hvort tveggja sjávarútvegs- og dómsmálaráðherra. En svo fór ráðherrum fjölgandi og Sólveig Pétursdóttir og seinna Björn Bjarnason urðu dómsmálaráðherrar. Björn Bjarnason hélt embættinu í líka tveimur skammlífum ríkisstjórnum Geirs Haarde, fyrst með Framsókn, svo með Samfylkingu.

En fyrir þennan tíma voru sérstakir dómsmálaráðherrar nokkuð fágætir. Óli Þ. Guðbjartsson úr Borgaraflokknum var dómsmálaráðherra frá 1989 til 1991 – það var fjögurra flokka ríkisstjórn undir forystu Steingríms Hermannssonar og þurfti að koma mörgum í ráðherrasæti. Þar áður var það Friðjón Þórðarson sem var dómsmálaráðherra á árunum 1980-1983, í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen.

Annars var venjan yfirleitt sú að dómsmálaráðuneytið fylgdi öðrum ráðherraembættum sem voru þá oft talin veigameiri – eða útheimta meiri tíma og viðveru – og svo var það með fáum undantekningum um áratuga skeið. Lögspekingarnir og forsætisráðherrarnir Bjarni Benediktsson og Ólafur Jóhannesson voru til dæmis báðir dómsmálaráðherrar oftar en einu sinni með meðfram því að þeir voru í öðrum ráðuneytum.

Frægasti dómsmálaráðherra Íslandssögunnar er hins vegar einn sá fyrsti, en það var Jónas Jónsson frá Hriflu. Hann fór reyndar líka með menntamálin og skipti sér óhikað af öðrum málaflokkum. En aðaltitill hans var dómsmálaráðherra – því aldrei var Jónasi hleypt í forsætisráðuneytið þótt ríkisstjórnarinnar 1927 til 1932 sé helst minnst fyrir veru hans í henni.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Gleðigangan er í dag
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Svört skýrsla ASÍ: Brotastarfsemi og jaðarsetning á íslenskum vinnumarkaði að aukast

Svört skýrsla ASÍ: Brotastarfsemi og jaðarsetning á íslenskum vinnumarkaði að aukast
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Guðfinna les yfir Guðmundi: „Nú er mér alvara“ – Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

Guðfinna les yfir Guðmundi: „Nú er mér alvara“ – Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ragnar Þór orðlaus: Bankastjórinn fær 312 þúsund á mánuði í 40 ár

Ragnar Þór orðlaus: Bankastjórinn fær 312 þúsund á mánuði í 40 ár
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Dýrt lambakjöt og Hagsmunagæslustofa bænda

Dýrt lambakjöt og Hagsmunagæslustofa bænda