fbpx
Laugardagur 17.ágúst 2019  |
Eyjan

Var Sigríði í raun vísað úr ríkisstjórninni af pólitískri nauðsyn? Hver verður dómsmálaráðherra?

Egill Helgason
Miðvikudaginn 13. mars 2019 17:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðastliðinn sólarhring hefur litið út fyrir að Sigríður Á. Andersen ætlaði ekki að fara úr ríkisstjórninni vegna úrskurðar Mannréttindadómstólsins. Hún tók upp ákafa málsvörn fyrir sjálfa sig og Birgir Ármannsson þingflokksformaður – sem oft er sendur á vettvang til að kæfa elda – tók líka til varna fyrir hana. Aðrir í þingflokknum þögðu reyndar.

Svo kemur Katrín Jakobsdóttir heim frá New York. Ræðir við Bjarna Benediktsson og þvínæstfólk sitt í VG. Síðan berst undarlega orðuð tilkynning um að Sigríður dragi sig í hlé sem ráðherra

Það var eins og fjölmiðlamenn yrðu ringlaðir við þetta orðalag – var þetta þá ekki afsögn heldur bara frí þangað til öldurnar lægir? Minna má á að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem þá var forsætisráðherra, tók um tíma við dómsmálunum af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þegar lekamálið stóð sem hæst. Þá var það kynnt sem tímabundin ráðstöfun.

En nei – Sigríður er ekki lengur dómsmálaráðherra, einhver annar tekur við embættinu. Eða er það ekki niðurstaðan sem var knúin fram í dag?

En líkt og áður segir, þangað til fyrr í dag var Sigríður ekkert á förum. Er þá máski hægt að segja að hún hafi verið rekin úr ríkisstjórninni? Að Katrín Jakobsdóttir hafi gert Bjarna Benediktssyni grein fyrir að stjórnarsamstarfið væri í uppnámi ef Sigríður léti sig ekki hverfa úr ráðherrastóli?

Og Bjarni hafi skilið að það er pólitísk nauðsyn – alveg burtséð frá því hvað honum og flokki hans finnst um úrskurð Mannréttindadómstólsins. Maður heyrir að Bjarni og fleiri malda í móinn vegna hans.

Þá er spurt – hver verður nýr dómsmálaráðherra? Til greina koma væntanlega, og nota bene, allir eftirtaldir eru með próf í lögfræði. Það er býsna mikil hefð fyrir því að lögfræðingur úr Sjálfstæðisflokknum fái þetta embætti.

Brynjar Níelsson – hann er býsna umdeildur og þess utan hafa vandræðin kringum Landsrétt meðal annars snúist um eiginkonu hans.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir – hún er ritari flokksins, kannski finnst einhverjum hún vera of ung og reynslulítil, en hún hefur verið á þingi síðan 2016 og er formaður einnar mikilvægustu nefndar þingsins, utanríkismálanefndar.

Birgir Ármannsson – hann hefur verið á þingi síðan 2003, hefur mikla reynslu, en hefur komist hæst með því að verða þingflokksformaður. Birgir er aldrei í fremstu röð, en hann hefur reynst flokknum trúr og tryggur liðsmaður.

Unnur Brá Konráðsdóttir – kynjastaðan í Sjálfstæðisflokknum er eiginlega þannig að konu þarf í ráðherraliðið. Unnur Brá var um tíma forseti Alþingis, hún hefur mikla reynslu af þingi, en hún datt út í síðustu kosningum. Þannig yrði hún utanþingsráðherra – sem er svosem ekki óþekkt, Ólöf Nordal var í þeirri stöðu um tíma.

Enn einn möguleiki er að skipa ekki nýjan ráðherra, að minnsta kosti ekki að sinni, heldur láta einhvern sitjandi ráðherra gegna embættinu. Á árum áður tíðkaðist ekki endilega að sérstakur ráðherra væri fyrir dómsmálin. Bjarni Benediktsson gæti meira að segja tekið þetta að sér sjálfur – meðfram því að vera fjármálaráðherra.

Raunar hefur saga dómsmálaráðuneytisins undanfarin tíu ár verið býsna sviptingasöm.. Eftir hrun var Ragna Árnadóttir kölluð til utan úr bæ til að vera dómsmálaráðherra um hríð,  þvínæst tók Ögmundur Jónasson við. Þá voru gerðar skipulagsbreytingar, dómsmálaráðuneytinu og samgönguráðuneytinu var steypt saman og úr varð innanríkisráðuneytið – Ögmundur bar þá titilinn innanríkisráðherra.

Hanna Birna Kristjánsdóttir varð innanríkisráðherra eftir kosningarnar 2013, en í lok árs 2014 þurfti hún að segja af sér vegna hneykslismála. Eins og áður segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson starfi dómsmálaráðherrans um tíma á þessu skeiði – það var vegna vandræða Hönnu Birnu.

Ólöf Nordal tók við sem innanríkisráðherra í desember 2014 og sat fram í byrjun árs 2017, andaðist skömmu eftir að hún lét af embætti.

Þá var brugðið á það ráð að skipta innanríkisráðuneytinu aftur – og Sigríður Á. Andersen varð dómsmálaráðherra. Hún gegndi embættinu þangað til í dag, bæði í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar 2016-2017 og svo í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Gleðigangan er í dag
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Svört skýrsla ASÍ: Brotastarfsemi og jaðarsetning á íslenskum vinnumarkaði að aukast

Svört skýrsla ASÍ: Brotastarfsemi og jaðarsetning á íslenskum vinnumarkaði að aukast
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Guðfinna les yfir Guðmundi: „Nú er mér alvara“ – Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

Guðfinna les yfir Guðmundi: „Nú er mér alvara“ – Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ragnar Þór orðlaus: Bankastjórinn fær 312 þúsund á mánuði í 40 ár

Ragnar Þór orðlaus: Bankastjórinn fær 312 þúsund á mánuði í 40 ár
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Dýrt lambakjöt og Hagsmunagæslustofa bænda

Dýrt lambakjöt og Hagsmunagæslustofa bænda