fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Nýja Landsbankahúsið álíka gáfuleg hugmynd og DVD-verksmiðja: „Hvaða fólk eiga nýju höfuðstöðvarnar að hýsa?“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 13. mars 2019 09:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nokkuð hefur verið rætt og ritað um nýjar höfuðstöðvar Landsbankans sem eiga að rísa við Austurhöfn og munu kosta um níu milljarða króna. Hafa ýmsir gagnrýnt kostnaðinn, aðrir arkitektúrinn og enn aðrir staðsetninguna, sem er sennilega dýrasta lóð landsins. Þá setja sumir spurningamerki við að banki í ríkiseigu standi í slíku „snobbi,“ og aðrir benda á að til séu mannvirki á höfuðborgarsvæðinu nú þegar sem gætu hýst starfsemi Landsbankans. Hefur til dæmis Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, boðið Landsbankanum að koma í Kópavoginn, þar sem nægt pláss sé á Glaðheimasvæðinu rétt hjá Smáralind.

Tæknin fækkar fólki

Ólöf Skaftadóttir, ritstjóri Fréttablaðsins, skrifar leiðara í dag um hvern þetta risamannvirki eigi eiginlega að hýsa. Hún nefnir hvernig tæknin hefur gerbreytt ýmsum iðnaði og starfsgreinum:

„Tæknin hefur hrist upp í rótgrónum atvinnuvegum. AirBnb selur meira gistirými en nokkur annar í heiminum en á ekki eina einustu íbúð og ekki hótel heldur. Fyrirtæki á borð við Uber og Lyft hafa gerbreytt starfsumhverfi leigubílstjóra. Bankar taka stakkaskiptum.Yfirmenn og eigendur banka standa frammi fyrir því að þurfa að laga sig að breyttum veruleika – þeir geta tekið forystu, leitt breytingar, elt þróunina sem þegar er hafin eða hægt og rólega lagt upp laupana. Samkeppnin fer æ harðnandi og sífellt fleiri taka þátt í henni. Tæknirisar á borð við Apple hafa boðað byltingu í bankaþjónustu í allra nánustu framtíð og bankar, sem eingöngu starfa á netinu, hafa þegar verið stofnaðir víða. Meira að segja flóknustu fjármálagerningar, svo sem stórar skuldabréfaútgáfur, geta nú farið meira og minna fram gegnum tölvur. Þar sem áður þurfti tugi sérfræðinga, þarf nú aðeins örfáa.“

Ólöf minnist á kostaboð Kviku banka í vikunni, er hann bauð sparnaðarreikninga með 4% vöxtum, sem er hærra en býðst hjá öðrum bönkum. Segir hún ástæðuna vera þá að þjónustan fari eingöngu fram á netinu og yfirbyggingin sé því lítil sem engin, engin útibú né þjónustufulltrúar og aðeins taki örfáar mínútur að stofna slíkan reikning.

Álíka gáfulegt og DVD-verksmiðja

Þá setur Ólöf þessa nýaldarbankaþjónustu í samhengi við glerhöll Landsbankans, sem nota bene á að verða um 16.500 fermetrar:

„Á meðan fréttir af nýrri fjármálaþjónustu Kviku berast, heyrast fréttir af framkvæmdum sem hafnar eru við nýjar höfuðstöðvar Landsbankans, banka í ríkiseigu, á einni dýrustu lóð í borginni. Áætlaður kostnaður við höfuðstöðvarnar nemur níu milljörðum króna. Hugmyndir um nýju höfuðstöðvarnar fyrir neðan Arnarhól eru ekki nýjar. Sumarið 2008, skömmu fyrir hrun, var blásið til hugmyndasamkeppni um byggingu þeirra. Skömmu eftir hrun voru úrslitin svo tilkynnt, en þá þótti ljóst að vinningstillagan yrði ekki að veruleika – að minnsta kosti ekki um sinn. Nú, rúmum tíu árum síðar, hefur engum sem hefur með málið að gera dottið í hug að hætta við framkvæmdirnar. Þrátt fyrir að hugmyndin sé ámóta framsýn og að ætla sér að reisa 9 milljarða króna DVD-verksmiðju árið 2019.“

Ólöf spyr hvern höfuðstöðvarnar eigi eiginlega að hýsa, þegar þróunin er með þeim hætti sem verið hefur:

„Nýju höfuðstöðvarnar skulu þannig rísa við hlið Hörpu við Austurhöfn í nafni hagræðingar. Þar ætlar bankinn að reisa 16.500 fermetra byggingu undir sína hefðbundnu starfsemi. Fyrir þetta greiða neytendur, fólkið í landinu, vitaskuld að lokum. Okkar séríslenska króna er nefnilega ekki eina ástæða hás vaxtastigs og mikils bankakostnaðar í landinu. Alkunna er, að bankakerfið á Íslandi er of umsvifamikið. Fyrirséð er að fækkun verði í stétt bankamanna. Tækninýjungarnar bjóða hagræðingunni heim. Þá er bara spurningin: Hvaða fólk eiga nýju höfuðstöðvarnar að hýsa?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“