fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

„Þetta fólk…“

Egill Helgason
Þriðjudaginn 12. mars 2019 22:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við, á okkar fyrsta farrými í veröldinni, eigum að passa okkur á yfirlætinu. Við erum með vegabréf sem geta opnað fyrir okkur öll landamærahlið – við höfum nánast fullkomið ferðafrelsi, getum sest upp í flugvélar án nokkurrar fyrirstöðu.

Við lifum í velmegun og öryggi og það verður að segjast alveg eins og er – líf okkar er almennt frekar tíðindalítið. Umkvörtunarefni okkar gjarnan smá.

Ólafur Ísleifsson skrifar um hælisleitendendur, vopnaða pappaspjöldum, sem urðu fyrir ansi harðneskjulegri lögregluaðgerð á Austurvelli:

„Senda þetta fólk úr landi med det samme.“

Ólafur líkir þessu svo við þegar hann fór í nám til Bretlands þegar hann var ungur maður og var svo liðlegur að hann vandi sig „að siðum og venjum í gistilandinu“.

Það er spurning hverju Ólafur þurfti að fórna til – á Bretlandi drekka þeir mikinn bjór og borða frekar vondan mat.

Við skulum svo ímynda okkur hvað hælisleitandi sem hefur komist til Íslands hefur þurft að ganga í gegnum. Sennilega er hann frá stríðshrjáðu landi eins og Afganistan eða Írak. Eða þá frá einhverju landi í Afríku þar sem ríkir almenn fátækt, atvinnuleysi, örbirgð, stríðsátök.

Viðkomandi er líklega vegabréfslaus – hafi hann vegabréf veitir það honum hvort eð er ekki rétt til að fara yfir landamæri. Alls staðar eru lokuð hlið. Hann gæti hafa tekið sér ferð yfir eyðimerkur, fjallgarða, á ótraustum báti yfir haf, um fjandsamleg svæði.

Hann gæti hafa lent í klónum á bófaflokkum og byssumönnum, föntum sem nýta sér neyð flóttamanna. Hann gæti hafa þurft að borga aleiguna til óprúttinna aðila sem sjá um að smygla fólki.

Það er erfitt að ímynda sér aðbúnaðinn á slíkum ferðalögum – en hann er býsna ólíkur því að sitja í nútímalegri farþegaþotu milli Keflavíkur og Lundúna og halla sér aftur í sætinu með drykk í hönd, horfandi á sjónvarpsskjá.

Kannski veitum við viðkomandi ekki hæli. Kannski er engin pólitísk samstaða um slíkt. Viðhorfin gagnvart flóttamönnum á Vesturlöndum hafa orðið býsna neikvæð hin síðari ár. Hinn mikli flóttamannastraumur vegna Sýrlandsstríðsins 2015 olli miklu pólitísku uppnámi.

En við skulum ekki tala niður til „þessa fólks“, ekki setja okkur á háan hest gagnvart því.

Við vitum ekkert um það – og viljum kannski minnst vita. En með því að komast alla þessa leið hefur það hugsanlega sýnt meiri dugnað, hugrekki og manndóm en við sem lifum þægindalífinu hér í velmegunarsamfélaginu gerum á heilli mannsævi.

Og svo getum við kannski hræsnað svolítið með því að ræða um hvað þeir hafi verið ansi góðir Íslendingarnir sem fluttu til Vesturheims á sínum tíma – að það hafi kannski verið duglegasta fólkið sem fór, það er viðkvæði sem maður heyrir býsna oft.

Þetta fólk sem á sínum tíma var á flótta undan óréttlæti og örbirgð en átti draum um betra líf.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“