fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Össur: „Mætti ætla að innviðir flokks með sögu VG myndu ekki þola að verja stöðu sem þessa“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 12. mars 2019 16:10

Össur Skarphéðinsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Samfylkingarinnar, kryfur hitamál dagsins á Facebook síðu sinni í dag, úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu og þrásetu Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra. Ber pistillinn nafnið VG og prinsippin.

Segir Össur að Landsréttur sé í uppnámi og málið sé alvarlegt:

„Landsréttur er í algjöru uppnámi og frestar nú dómum í bili. Ástæðan er niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu sem segir að með skipan dómara í landsrétt hafi dómsmálaráðherra “augljóslega hunsað” reglur. Dómstóllinn segir það geta leitt til vantrausts á dómskerfið sem vitaskuld heggur að rótum réttarríkisins. Niðurstaðan er því grafalvarleg fyrir Ísland.

Alvarleikinn speglast í viðbrögðum grandvars og varfærins formanns Dómarafélagsins, Ingibjargar Þorsteinsdóttur. Hún segir að niðurstaðan sé “áfall” fyrir Ísland. Áfallið kom kannski ekki á óvart. Tvisvar áður hafði Hæstiréttur Íslands komist að þeirri niðurstöðu að við meðferð málsins hafi dómsmálaráðherrann brotið stjórnsýslureglur.“

Allsstaðar nema á Íslandi

Össur segir að í flestum öðrum löndum myndi slík niðurstaða leiða til afsagnar ráðherra:

„Ísland er hins vegar ekki einsog önnur lönd. Gamla ráðherraræðið er aftur komið til vegs. Dómsmálaráðherra er þar að auki “fighter” dauðans, með gamaldags hugmyndir um völd ráðherra, og að eðlisfari þannig nagli að hún segir aldrei af sér nema fyrst rigni eldi og brennisteini – úr bæði Valhöll og Stjórnarráðinu.“

Össur lýsir framhaldinu líkt og hann sér það fyrir sér:

„Sjálfstæðisflokkurinn frá grasrót og upp í eyru mun standa með henni fram í rauðan dauðann. Framsókn mun síga út á hliðarlínur og finna laufblöð til að fela sig undir. Eina spurningin sem skiptir máli fyrir afleiðingar dómsins á stjórnmál Íslands er þessi: Hvernig munu Katrín Jakobsdóttir og VG bregðast við þessari stöðu?

Katrín sagði sjálf þegar hún lagði upp sem forsætisráðherra að hún myndi beita sér fyrir nýsköpun í stjórnmálum. Í dag er hún að upplifa ranghverfuna af sínum eigin orðum. Ætli hún að lifa af á hún þann vænstan að hörfa inn í samtryggingu liðins tíma, þar sem samstarfsflokkar í ríkisstjórn láta allt yfir sig ganga til að halda völdum. Nægir að benda til málsvarnar Svavars Gestssonar, gamals byltingarsinna, sem ver með kjafti og klóm hér á facebook allt sem úrskeiðis fer hjá VG. Þó mætti ætla að innviðir flokks með sögu VG myndu ekki þola að verja stöðu sem þessa.“

Hvað sem það kostar

Össur telur að VG sé tilbúið til að fórna öllu fyrir ríkisstjórnarsamstarfið, baklandið sé hvort sem er löngu farið:

„Róttæka baklandið tók hins vegar til fótanna þegar Katrín og VG ákváðu að mynda ríkisstjórn til hægri og gamla baklandið er löngu farið. Kalt mat er að forysta VG sé löngu búin að gera upp við sig að hún er reiðubúinn að láta VG kosta til hverju sem þarf svo ríkisstjórnin lifi kjörtímabilið – og Katrín fjögur ár sem forsætisráðherra. Það, ásamt forsetadæmi Steingríms, voru drifkraftarnir á bak við ákvörðun VG um að mynda hægri-miðju stjórn og hafna stjórn til vinstri.“

Beiskur kaleikur og vantraust

„Dýrkeypt verður þó líklega fyrir arftaka hins prinsipfasta Sósíalistaflokks Íslands að ganga nú öðru sinni undir höggið til að verja Sigríði Andersen og Sjálfstæðisflokkinn gagnvart vantrausti. Í þetta sinn verður það þeim mun erfiðara þar sem í dag stendur VG andspænis mjög harðorðri gagnrýni Mannréttindadómstóls Evrópu á ráðherrann. Þann beiska kaleik verður þó VG að drekka í botn ef ríkisstjórnin á að lifa.

Í þessari stöðu er óhjákvæmilegt að vantraust komi fram ef eitthvað blóð er eftir í stjórnarandstöðunni – sem oft má þó efast um. Út úr vantraustinu mun VG koma þrútið af lamstri veðra, með slitna brynju og sundrað sverð og líklega töluverð syndagjöld. Ríkisstjórnin mun samt lifa. Katrín mun dingla áfram sem forsætisráðherra. – Úr því sem komið er skiptir ekkert annað máli í huga VG.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“