fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Forstjóri Icelandair: Engar forsendur fyrir lággjaldaflugfélagi á Íslandi

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 12. mars 2019 10:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, vildi ekki neita því að WOW air hefði leitað til sín á dögunum, um aðkomu þess að kaupum á félaginu en WOW air reynir nú að semja við bandaríska fjárfestingarsjóðinn Indigo Partners. Var staða WOW sögð afar slæm, en bandaríska félagið hyggst auka fjárfestingu sína í WOW um 15 milljónir dollara, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Bogi var til viðtals í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun og neitaði því hvorki né játti, að Skúli Mogensen hefði leitað til sín:

„Það voru einhverjar sögur um það, en ég tjái mig ekki um það mál,“

sagði Bogi, en Icelandair dró sig frá kaupviðræðum við WOW síðla árs í fyrra, eftir að hafa fengið aðgang að bókhaldi félagsins.

Aðspurður hvaða áhrif mögulegt gjaldþrot WOW air hefði á Icelandair sagði Bogi að félagið væri að vaxa og hefði svigrúm til að bæta enn frekar í, ef aðstæður kölluðu eftir því.

Lággjaldastarfssemi ekki málið

Hann tók þó fram að það gengi ekki til lengri tíma að fljúga hingað með farþega sem hefðu keypt sæti langt undir kostnaðarverði, líkt og gert hefði verið og sagði að samkeppnin væri ekki sjálfbær, með augljósum afleiðingum þar sem kröfuhafar þyrftu að taka á sig verulegt högg og átti þar við WOW air.

Sagði Bogi að sökum smæðar sinnar væru ekki forsendur fyrir íslensk flugfélög að skapa sér sérstöðu með því að bjóða upp á lægstu verðin, þau ættu þess í stað að huga að betri þjónustu og upplifun farþega.

Opinber aðstoð ótæk

Boga fannst það ótækt að opinberir aðilar væru að hlaupa undir bagga fyrir WOW og fjármagna ósjálfbæran rekstur, hann sagði slíkt bjóða upp á skekkta samkeppnisstöðu í flugi, sem hefði einnig áhrif á Icelandair og sagan sýndi að hefði ávallt slæm áhrif á þjóðarhag.

Þess má geta að Icelandair Group hefur tekið um tíu milljarða króna lán gegn veði í tíu farþegaþotum sínum samkvæmt tilkynningu félagsins í gær. Ekki er tekið fram hvaða lánastofnun veitti lánið, að öðru leyti en að hún sé íslensk. Heimildir Morgunblaðsins herma að um sé að ræða Landsbankann, en hann er einmitt í eigu ríkisins.

Bogi sagði að ekki væri um að ræða fjárþörf félagsins, aðeins væri verið að endurfjármagna lán. Ekki væri verið að auka skuldastöðu, eða lausafjárstöðu. Aðeins væri verið að styrkja stöðuna, sem hefði verið sterk fyrir.

Bjartsýnn á framhaldið

Bogi taldi horfurnar í ferðamannastraumnum til Íslands bjartar til lengri tíma litið, en að næstu mánuðir og jafnvel ár gætu verið sársaukafull. Nefndi hann að hagræðing innan ferðaþjónustunnar væri óumflýjanleg, þar sem einingar myndu stækka. Þá minntist hann á að stefnumótun í ferðaþjónustunni væri nauðsynleg, nokkuð sem hefðu átt að gerast fyrir löngu. Sagðist hann bjartsýnn á að deilur á vinnumarkaði myndu leysast.

Aðspurður hvort hann fyndi til ábyrgðar Icelandair í því umróti sem nú væri á vinnumarkaði, þar sem yfirmenn félagsins teldust hálaunafólk, sagði Bogi að stjórnendurnir bæru ábyrgð á rekstri síns fyrirtækis, sem væri mjög mikilvægt í þjóðhagslegu samhengi:

„Við getum ekki verið að gera einhverja hluti sem er úr takti við það sem gengur og gerist í umhverfi okkar, það er okkar stefna að vinna innan þess ramma sem hér er í gangi á Íslandi og okkar samkeppnislöndum, og að okkar mati erum við algerlega innan þess. Laun forstjóra eða stjórnenda eru alls ekki há í samhengi við eitt né neitt…“

En þau eru ansi há í samanburði við þetta fólk sem er nú að berjast fyrir bættum kjörum…“

skaut spyrillinn að.

„Jú að sjálfsögðu, laun forstjóra eru alltaf miklu hærri en laun annarra starfsmanna og þannig er bara rekstur fyrirtækja,“

svaraði Bogi þá.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“