fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Spænski rannsóknarrétturinn endurvakinn í borgarstjórn? Dagur og Lóa kalla borgarfulltrúa á teppið og rétta yfir þeim

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 11. mars 2019 11:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fulltrúar minnihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur segja að meirihlutinn sé að reyna að endurvekja spænska rannsóknarréttinn. Tilefnið er tillaga þess efnis að borgarfulltrúar sem starfsmenn borgarinnar kvarta undan verði kallaðir fyrir sérstaka nefnd en í henni munu sitja borgarstjóri, Dagur B. Eggertssson, og formaður borgarráðs, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Tillagan var lögð fram á síðasta fundi Borgarráðs en afgreiðslu hennar var frestað til næsta fundar.

Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúi Miðflokksins, birtir meðfylgjandi mynd á Facebook-síðu sinni og skrifaði eftirfarandi pistil um málið fyrir helgi:

„Dagskrárliður nr.39 á fundi Borgarráðs í gær var stórmerkilegur:

Borgarstjóri lagði fram tillögu sína um að setja á laggirnar sérstakan rannsóknarrétt sem beita skal gegn kjörnum borgarfulltrúum.

Verði tillagan samþykkt öðlast téður rannsóknarréttur rétt til að boða undirritaðan, Vigdísi Hauks eða hvern þann borgarfulltrúa sem henta þykir inn til yfirheyrslu.

Allt sem til þarf er að einhverjum innan borgarkerfisins líki ekki eitthvað í fari viðkomandi borgarfulltrúa eða störfum hans.

Rannsóknarréttinn skulu skipa:
Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson og formaður borgarráðs, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Þau munu jafnframt sjá um yfirheyrslur, skýrslugerð vegna þeirra og tilheyrandi.

Nú skyldi einhver halda að þetta sé grín, en svo er ekki…..

Verði tillagan samþykkt, er ljóst að öflugt þöggunarvopn hefur verið skapað.

Hvað næst???

Baldur Borgþórsson
Varaborgarfulltrúi Miðflokksins

Hér er svo bókun okkar vegna málsins, en frestast með málinu:

Nú á að skipa sérstakan rannsóknarrétt í ráðhúsinu á pólitískum grunni. 
Skulu dómarar réttarins vera pólitískt kjörnir fulltrúar sem fara með embætti borgarstjóra og formanns borgarráðs. 
Tillöguflytjandi virðist ekki skilja vinnuréttarsamband kjörinna fulltrúa við Reykjavíkurborg. Borgarstjóri er ekki yfirmaður kjörinna fulltrúa, það eru kjósendur í Reykjavík.

Að setja upp sérstakt kvörtunarborð fyrir starfsfólk Reykjavíkur vegna kjörinna fulltrúa er fordæmalaust. Kjörnir fulltrúar sem í minnihluta eru hverju sinni hafa sárasjaldan samskipti við starfsfólk borgarinnar. Öðru máli gegnir um embættismenn sem sitja fundi ráða og þurfa að svara fyrir erfið mál meirihlutans. 
Það er skylda kjörinna fulltrúa að gagnrýna málflutning þeirra á fundum sem því miður eru allir lokaðir almenningi.

Vegna framkomu og orðræðu á fundum varð varaborgarfulltrúi Miðflokksins að leggja fram tillögu um að allir lokaðir fundir yrðu teknir upp svo sönnunargögn væru til, svo hægt væri að bera af sér sakir. 

Tillagan var felld af meirihlutanum.

Rannsóknarréttartillagan er ekki borin uppi af tilvísunum í lög eða reglugerðir og því algjörlega marklaus. Hún er einungis aum tilraun til að þagga niður í gagnrýnum röddum kjörinna fulltrúa, 
sem eru að vinna þá skyldu sína að benda á og útskýra alla þá áfellisdóma sem á borginni hafa dunið undanfarin misseri af eftirlitstofnunum ríkisins.“

Sýnir algjöra firringu meirihlutans

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi minnihlutans, segir tillöguna sýna firringu meirihlutans. Hún skrifaði þennan pistil:

„Þessi tillaga sýnir algjöra firringu þeirra sem fara með völdin í Reykjavík og hvorki skynja né skilja óánægju borgarbúa – sem sýnir sig í algjöru hruni á trausti í garð borgarstjórnarinnar. Hér leggur borgarstjóri til að búinn sé til farvegur þar sem hann og formanni borgarráðs (oddvita Viðreisnar) verði falið vald – sem engin lagastoð er fyrir – til að geta kallað kjörna fulltrúa – t.d. pólitíska andstæðinga – á teppið og setja þeim einhver mörk. Þetta er svo geggjuð hugmynd, að það nær engri átt. Enginn stjórnmálamaður með snefil af sómatilfinningu eða skilning á lýðræði gæti unað slíku fyrirkomulagi – alveg óháð því hvort hægt verður að troða þessari tillögu niður um kokið á öðrum borgarfulltrúum meirihlutans. Píratar, Viðreisn, Samfylking og Vinstri græn eru orðin vön ýmsu í þessum efnum og munu eflaust klappa með og skilja síðan ekkert í að traustið sé að hverfa.“

Segir tillöguna ekki eiga neina stoð í lögum

Vigdís ræddi málið í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun. Segir hún tillöguna ekki eiga sé neina lagastoð. Vigdís sagði enn fremur:

„Það er algjör firring að borgarráð og borgarstjóri geti kallað til sín kjörna fulltrúa og lesið yfir þeim því þau eru ekki yfirmenn kjörinna fulltrúa, það eru kjósendur í Reykjavík. Þetta er svo rosalegt rugl og ég veit ekki hvaðan þetta er komið. Ef einhver kvartar yfir borgarstjóra eða formanni borgarráðs, ætla þau þá að sitja í sínum eigin rannsóknarrétti?“

Vigdís segir málið runnið undan skrifum og kvörtunum þess efnis að fulltrúar minnihlutans hefðu verið vondir við starfsmenn borgarinnar:

„Það er verið að gagnrýna okkur í minnihlutanum fyrir að við séum vond og séum að ráðast á starfsfólkið og þá endar þetta í þessu. En við erum ekki að veitast að neinum starfsmanni borgarinnar, við erum að fylgja eftir skýrslum og álitum eftirlitsstofnana ríkisins og í svona litlu samfélagi vita allir um hvern verið er að ræða.“

„Þetta á sér enga stoð í lögum og pólitískir andstæðingar geta ekki stofnað til réttarhalda yfir öðrum pólitískum anstæðingum þegar hentar. Svona átti sér stað á miðöldum. Þegar við erum að benda á spillinguna og lögbrotin í borginni, eyðingu tölvupósta og svo framvegis þá er bara gripið til þessa ráðs til þess að þagga niður í okkur. Verði þessi tilllaga samþykkt er þá ekki eðlilegt að við gerum tilllögu um að fulltrúar minnihlustan sitji í öðrum rétti sem réttar þá yfir fulltrúum meirihlutans – getur ekki líka verið kvartað yfir þeim?“

 Á samskipti við fáa starfsmenn borgarinnar

„Það er sagt að 70 starfsmenn hafi kvartað yfir okkur í minnihlutanum. Ég hef ekki einu sinni snert á svo mörgum starfsmönnum eða embættismönnum borgarinnar. Þeir einu sem ég á samskipti við eru embættismenn sem sitja borgarráðsfundi, dyraverðir í ráðhúsinu og tæknimenn á borgarstjórnarfundum. Punktur. Þannig að þetta eru svo miklar dylgjur. Þetta er látið líta út eins og við séum að hlaupa inn á skrifstofur að taka starfsfólk borgarinnar í gegn.“

Vigdís sagði það hins vegar alveg rétt að það væri mjög slæmt ástand í ráðhúsinu og hefði verið það í langan tíma. Þar hafi verið kvartað yfir gríðarlegu einelti árum saman, löngu áður en núverandi minnihluti settist í borgarstjórn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“