fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Hittumst á horninu hjá Ellingsen – fyrsti rúllustiginn

Egill Helgason
Sunnudaginn 10. mars 2019 18:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég var að vinna með hópi sjónvarpsfólks niðri í bæ fyrir ekki löngu. Var að segja þeim til vegar og þá datt út úr mér að við skyldum fara „að horninu hjá Ellingsen“.

Fljótt uppgötvaði ég sjálfur hvað þetta var algjörlega út í hött – Ellingsen hefur ekki verið á horninu sem ég átti við, í Pósthússtræti og Hafnarstræti, síðan á áttunda áratug síðustu aldar.

Þarna fannst mér ég vera orðinn gamall karl. Frá 1979 hefur þar verið veitingastaðurinn Hornið.

Á ljósmyndinni hér að ofan má sjá umrætt horn. Þjóðminjasafnið birti hana á vef sínum, hún er eftir mann sem nefndist Peter Goss, og er tekin 1968. Ellingsen er þarna austanmegin en vestanmegin er hús Eimskiptafélagsins og þar á jarðhæðinni skóbúð Hvannbergsbræðra, ég man að manni þótti hún býsna glæsileg.

Í bakgrunni er svo höfnin eins og hún var – þetta er fyrir tíma gámavæðingar og Sundahafnar. Þá fóru vöruflutningar fram um höfnina sem var niður í bæ, þar lögðu fossar Eimskipafélagsins að, þar voru ennþá vöruskemmur, þar voru kranar og þar unnu hafnarverkamennirnir sem voru kjarninn í verkamannafélaginu Dagsbrún. Það rann síðar inn í Eflingu – sem nú stendur í verkfallsátökum.

Í Eimskipafélagshúsinu var líka rakarastofa – hún var þekkt fyrir að þangað fóru ýmsir mektarmenn, Halldór Laxness lét til dæmis snyrta á sér hárið þarna um árabil. Halldór var ætið mjög snyrtilegur til fara.

Þetta er, eins og sjá má, á tímanum þegar lögregluþjónar voru oft og einatt að stjórna umferð í bænum.

Þær eru frá svipuðum slóðum kvikmyndirnar hérna neðst á síðunni, teknar í Miðbænunum í Reykjavík og við höfnina veturinn 1961 til 1962. Ég finn ekki hver er höfundur þeirra, Snorri Marteinsson setti þær á vefinn, en þarna má sjá umferð bíla í Austurstræti – sumir bílarnir eru amerískir aðrir sovéskir. Bifreiðaeign á þessum árum fór ekki bara eftir efnum heldur gat pólitík líka verið með í spilinu.

Þvínæst eru  myndir frá uppskipun við höfnina,  það sést í gamla kolakranann og verkamenn eru við vinnu. Þarna er Lækjartorg með strætisvögnum í hríðaveðri, sýnist manni, og svo eru bílar og fólk á ferð á Laugaveginum, manni sýnist að það sé framan við verslun Guðsteins Eyjólfssonar sem er með upplýsta glugga.

Loks er svo myndskeið þar sem ekið er frá Hlemmtorgi og niður Laugaveg framhjá Kjörgarði sem hefur þá verið nýbyggður, Kjörgarður opnaði fyrir jólin 1959 og þótti þá vera afar glæsilegt verslunarhús, þeir höfðu forgöngu um byggingu þess athafnamennirnir Sveinn Valfells og Kristján Friðriksson í Últimu. Þetta átti að vera magasín í erlendum stíl, í húsinu voru 15 verslanir þegar það opnaði, síðar fjölgaði þeim í 25.

Þarna var húsgagnaverslun, herrafataverslun, skóbúð, sportvöru- og veiðarfæraverslun – búð með ungbarnafatnað, nærföt fyrir konur og saumavöruverslun. Arkitektinn var Halldór H. Jónsson, sá hinn sami og teiknaði Hótel Sögu – sá hinn sami og var mikill áhrifamaður í viðskiptalífi og var um tíma kallaður „stjórnarformaður Íslands“.

Sumpart er neyslusamfélagið Ísland að verða til þarna – það var farið að aflétta höftum sem höfðu verið lengi í gildi og skömmtun sem fylgdi þeim á ýmsum sviðum.

En það sem þótti merkilegast í Kjörgarði var rúllustiginn, hinn fyrsti sem var tekinn í notkun á Íslandi. Fólk kom langar leiðir til að prófa rúllustigann og erfitt var að slíta börnin þaðan, þau fóru upp og niður í sífellu, eigendunum til nokkurs ama. Þetta þótti mikið tækniundur, var reyndar kallaður „rafmagnsstigi“ fyrst.

 

Hér eru svo kvikmyndirnar sem eru nefndar að ofan. Reykjavík í vetrarveðri í upphafi sjöunda áratugarins. Þetta eru í raun mjög merkilegar myndir – merkileg heimild. Það er næstum eins og þetta sé tekið óvart. Og svo má gá að smáatriðum – eins og til dæmis hversu margir eru í Gefjunarúlpum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“