fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Segir Dag og meirihlutann ekkert leggja af mörkum í kjaradeilunni: „Það er athyglisvert viðhorf“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 6. mars 2019 09:49

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Staksteinahöfundur Morgunblaðsins í dag fjallar um kjarapakka Sjálfstæðisflokksins, sem lagður var fram á fundi  borgarstjórnar í gær og felldur, sem kom fáum á óvart. Staksteinahöfundur telur, líkt og Eyþór Arnalds, að meirihlutinn hefði getað lagt sitt af mörkum til lausnar kjaradeilunnar, með því að samþykkja tillögurnar:

„Borgarstjórn gafst í gær tækifæri til að samþykkja tillögu um að lækka skatta á borgarbúa en meirihlutanum leist ekki á tillögurnar og felldi þær. Sjálfstæðismenn í borgarstjórn lögðu fram tillögur um að lækka útsvar úr hæsta lögleyfða hámarki, 14,52% í 14,00%. Meirihluta Viðreisnar, Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna, auk að sjálfsögðu fulltrúa Sósíalista, þótti ástæða til að standa gegn þeirri tillögu enda hefði hún gagnast skattpíndum borgarbúum. Sjálfstæðismenn fluttu einnig tillögur um að minnka arðgreiðslur Orkuveitunnar og leyfa borgarbúum þess í stað að njóta lægri orkureiknings. Þá lögðu þeir til að byggingarréttargjöldum yrði stillt í hóf. Þetta var meðal þess sem sjálfstæðismenn lögðu fram í því skyni meðal annars að liðka fyrir kjaraviðræðum. Sagði oddviti flokksins, Eyþór Arnalds, í samtali við K100 í gær að með þessum tillögum og aðkomu ríkisins, auk þess sem atvinnulífið gæti lagt af mörkum við samningsborðið, væri kominn grundvöllur til að leysa kjaradeiluna. En þó að Reykjavíkurborg leggi á hæstu mögulega skatta, til dæmis mun hærri skatt á lágar tekjur en ríkið, þá telur meirihlutinn í borginni að hann eigi ekkert að leggja af mörkum. Það er athyglisvert viðhorf.“

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands, lýsti yfir stuðningi við tillögu um lækkun rekstrargjalda heimilanna og kaup ríkisins á Keldnalandinu og var orðið við beiðni Vigdísar Hauksdóttur, oddvita Miðflokksins, um að greiða atkvæði eftir einstaka liðum tillögunnar, sem var í fjórum liðum.

Hér má sjá nákvæman feril atkvæðagreiðslunnar samkvæmt tilkynningu Sjálfstæðisflokksins:

Tillaga merkt I um álagningarhlutfall útsvars er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Tillaga merkt II um lækkun arðgreiðsluáforma OR er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins. Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Tillaga merkt III um kaup og skipulagningu á Keldnalandinu er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins. Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Tillaga merkt IV um byggingarréttargjöld er felld með er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Skýtur skökku við

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, telur að Reykjavíkurborg geti vel liðkað fyrir yfirstandandi kjaraviðræðum.

„Nú standa yfir mjög erfiðar kjaradeilur á vinnumarkaði. Þess vegna tel ég það mikil vonbrigði að meirihlutinn sjái sér ekki fært að samþykkja tillöguna, sem lítur að lækkun launaskatts, lækkun gjalda á heimilin, hagkvæmu húsnæði og að endingu gjöldum sem borgin leggur á húsbyggjendur. Fyrrnefndar aðgerðir myndu skila miklu fyrir tugþúsundir borgarbúa.“

Eyþór segir einnig að afgreiðsla meirihlutans á tillögunni um kaup á Keldnalandinu án skilyrða  skjóti skökku við.

„Því til stuðnings má benda á að forsvarsmenn verkalýðsfélaganna hafa sagt að ekki verði skrifað undir kjarasamninga nema fyrir liggi skuldbindandi samkomulag um að bæta aðstæður fólks á húsnæðismarkaði. Þannig þykir okkur rétt að Reykjavíkurborg mæti þessari kröfu um að semja við ríkið um Keldnalandið án skilyrða um aðrar fjárveitingar ríkisins.“

Eyþór bendir á að húsnæðisverð í Reykjavík hafi hækkað um 100% á síðustu átta árum.

„Sú hækkun er engin tilviljun enda hefur stefna meirihlutans í húsnæðismálum beðið skipbrot. Þannig er afstaða verkalýðsfélaganna í húsnæðismálum heldur engin tilviljun. Átakshópur stjórnvalda í húsnæðismálum hefur jafnframt bent á þessa staðreynd. Borgin ætti því með réttu að hefjist tafarlaust handa við skipulagningu Keldnalandsins fyrir hagstætt húsnæði, sem sárlega vantar í borginni.“

Munar um minna

Eyþór bendir einnig á þá staðreynd að launaskattur í Reykjavík sé í lögleyfðu hámarki.

„Það að lækka launaskattinn eða útsvarið niður í 14% myndi skila fjölskyldu með tvo fyrirvinnandi á meðallaunum árlega um 84 þúsund krónum aukalega í vasa heimilisins. Það þýðir að fjölskyldan þyrfti að vinna aukalega fyrir andvirði 139 þúsund kr. til þess að fá jafn miklar tekjur eftir skatta og lífeyrisgreiðslur. Lækkun rekstrargjalda heimilanna um u.þ.b. 36 þúsund kr. á heimili í borginni að jafnaði á ársgrundvelli, þýðir að fjölskyldan þyrfti að vinna aukalega fyrir andvirði 60 þúsund kr. til þess að fá jafn miklar tekjur eftir skatta og lífeyrisgreiðslur.” segir Eyþór og bætir við:  „Samanlagt myndu þessar tvær aðgerðir jafngilda því að fjölskylda með tvær fyrirvinnur á meðallaunum fái u.þ.b. 200 þúsund krónur í viðbótarlaunagreiðslur á ársgrundvelli. Þannig auka þær ráðstöfunartekjur þessara heimila samanlagt um 120.000 kr. eftir skatta. Það munar um minna.“

 

Tillögur Sjálfstæðisflokksins voru eftirfarandi:

I. Borgarstjórn samþykkir að álagningarhlutfall útsvars fyrir tekjuárið 2019 verði 14,00% frá og með 1. maí nk. en útsvarið er nú í lögbundnu hámarki eða í 14,52%.

II. Borgarstjórn samþykkir að lækka rekstrargjöld heimilanna sem nemi tölunni 36 þúsund kórnum á heimili í borginni að jafnaði á ársgrundvelli. Það verði gert með lækkun arðgreiðsluáforma Orkuveitu Reykjavíkur. Fjármálaskrifstofu og stjórn Orkuveitunnar verði falin nánari útfærsla á lækkun rekstrargjalda heimilanna. Stefnt er að því að lækkunin taki gildi 1. maí nk.

III. Borgarstjórn samþykkir að semja við ríkið um kaup á Keldnalandinu án skilyrða um aðrar fjárveitingar ríkisins. Borgin hefjist tafarlaust handa við skipulagningu Keldnalandsins fyrir stofnanir, fyrirtæki og heimili . Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að leiða skipulagsvinnuna. Enn fremur verði lögð sérstök áhersla á að skipuleggja lóðir fyrir hagstætt húsnæði, sem sárlega vantar í borginni. Jafnframt verði fallið frá sérstökum innviðagjöldum enda álitamál hvort slík gjöld standist. Aðgerðin í heild sinni verði liður í innleggi borgarinnar í kjaraviðræður.

IV. Borgarstjórn samþykkir að stilla byggingarréttargjöldum í borgarlandinu í hóf með því að tryggja nægt framboð fjölbreyttra lóða.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem yfirgaf sjálfan sig
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki