fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Hannes reiður og kallar Jakob kranablaðamann: Kallaður styrkjasnillingur í bók Helga Magnússonar

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 6. mars 2019 15:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni prófessor er lítið skemmt yfir gamansögu um sig í bók Helga Magnússonar, Lífið í lit – Helgi Magnússon lítur um öxl, sem greint er frá í frétt á Vísir.is. Björn Jón Bragason skráði sögu Helga athafnamanns en eftirfarandi frásögn er þar að finna um meinta snilli Hannesar við að afla sér styrkja:

Mikið var sótt að Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins um að styðja við alls konar verkefni og starfsemi enda eru samtökin fjársterk. Við lögðum þó þunga áherslu á að styðja ekki annað en það sem við töldum að væri til þess fallið að efla atvinnulífið með einum eða öðrum hætti. Að sjálfsögðu kom ekki til greina að styðja stjórnmálaflokka, stjórnmálamenn eða framboð. Aðildarsamtök SA voru ekki sammála um afstöðu til ESB og evru, þó svo að Samtök iðnaðarins hefðu þar skýra stefnu. Ég tel fullvíst að sjávarútvegurinn hafi stutt við Heimsýn, félag Evrópuandstæðinga (alla vega gerðu Bændasamtökin það og þar hafði Heimsýn aðstöðu um tíma). Samtök iðnaðarins studdu Já, Ísland sem aðhylltist samstarf við Evrópusambandið. SA styrkti hvorug samtökin.

Einum manni tókst þó að leika á okkur og sýndi með því „snilli“ sína. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor, kom til fundar við okkur Orra Hauksson, framkvæmdastjóra SI, og kynnti fyrir okkur verkefni sem hann nefndi „Græna hagkerfið“. Það snerist um að gera stutta kvikmynd um umhverfisvæna atvinnustarfsemi á Íslandi. Í fljótu bragði virtist þetta hafa yfir sér jákvæðan svip fyrir atvinnulífið þannig að við Orri féllumst á að SI styddi þessa framkvæmd um eina milljón króna.

Nokkrum dögum síðar sat ég fund í framkvæmdastjórn SA. Þá segir Vilhjálmur Egilsson okkur frá því að hann hafi fallist á að styðja verkefni Hannesar Hólmsteins um eina milljón króna. Ég hrökk þá við og sagði að hann hefði fengið eina milljón frá Samtökum iðnaðarins og ég hefði haldið að það væri nægilegt. Þá hrópaði Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ: „Andskotinn, hann kom líka við hjá okkur og náði milljón af LÍÚ með sleipri sölumennsku!“

Ég hef engar spurnir haft af þessari fyrirhuguðu kvikmynd.

Hannes kallar söguna „tilefnislaus brigsl“

Hannes deilir frétt Vísis og skrifar um hana eftirfarandi stöðufærslu

„Mér er hulin ráðgáta, hvers vegna höfundur bókarinnar, Björn Jón Bragason, og blaðamaðurinn, sem hér hamrar á tölvu, Jakob Bjarnar Gretarsson, leituðu ekki til mín, áður en þeir birtu tilefnislaus brigsl Helga Magnússonar. Ég hef margt annað við minn tíma að gera en hlaupa á eftir þvættingi, en ætla samt að svara þessu. Jakob Bjarnar stundar kranablaðamennsku: tekur hrátt upp fullyrðingar í stað þess að sannreyna þær.“

Blaðamaður Vísis, Jakob Bjarnar, svarar þessum ávirðingum og bendir Hannesi á að hingað til hafi það ekki verið kallað kranablaðamennska að segja frá því sem stendur í bók:

Ég er ekki að fullyrða eitt né neitt sem blaðamaður né taka nokkra afstöðu. Ég er einfaldlega að segja lesendum Vísis af því hvað stendur í téðri bók. Punktur. Það hefur ekki hingað til verið flokkað sem kranablaðamennska. Og reyndar held ég að þú vitir ekki hvað kranablaðamennska er, eins og Jónas skilgreindi hana. Og jafnvel spurning hvort það hugtak sé ekki dautt með netinu.

Ekki fær þetta Hannes til að skipta um skoðun á vinnubrögðunum og hann svarar:

Þetta svar þitt er fáránlegt, Jakob Bjarnar Gretarsson. Þú endurtekur í fréttinni athugasemdalaust og raunar heldur glaðhlakkalega brigsl þeirra Helga Magnússonar og Björns Jóns Bragasonar. Þú skrúfar frá krana þeirra. Þú stundar þannig kranablaðamennsku. Hvers vegna gastu ekki einu sinni sent mér skeyti á Facebook og spurt mig, hvort eitthvað væri hæft í þessu? Þessi frásögn er fullkominn hugarburður mannsins. Málið er allt öðru vísu vaxið, eins og ég mun gera nánari grein fyrir, þar sem og þegar mér hentar.

Jakob segir þá: „Þú ert fyrstur til að flokka frásögn af því sem fram kemur í bók sem kranablaðamennsku.“

Höfundar bókarinnar, Helgi Magnússon og Björn Jón Bragason, hafa ekki blandað sér í umræðurnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Birgir í klemmu

Orðið á götunni: Birgir í klemmu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“