fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Sæluríkið Stavanger – af hverju eru Norðmenn svona heppnir?

Egill Helgason
Mánudaginn 4. mars 2019 22:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar ég var strákur átti ég skyldfólk í Stavanger, semsé fólk af norsku bergi brotið. Á þeim tíma var litið niður á Stavanger í Noregi – þar þótti búa afar púkalegt fólk sem talaði skrítna mállýsku.

Þetta var fyrir olíu. Nú sitja Íslendingar og horfa á sjónvarpsþætti sem snúast um Stavanger og olíuævintýrið norska. Stavanger af öllum stöðum varð höfuðmiðstöð þess.

Ef það er eitthvað fólk sem Íslendingar öfunda núorðið þá eru það Norðmenn. Þeir eiga svo ótrúlega mikla peninga og olíusjóðurinn þeirra er svo stór.

Þetta er mikil breyting frá því sem áður var. Hér eitt sinn voru Íslendingar vissir um að Norðmenn væru sérstaklega lummulegir – Íslendingar tóku reyndar ekki eftir því að sjálfir voru þeir frekar púkó.

Hugmyndin um Norðmenn var um fólk sem vaknaði afar snemma á morgnana, væri sífellt á skíðum, graðgaði í sig hrökkbrauði með óætum geitaosti, færi mjög snemma í háttinn – hefði engan húmor, kynni ekki að skemmta sér, enda væri Osló stærsta sveitaþorp í heimi.

Þetta hefur breyst dálítið. Og eins og ég segi finnst okkur Norðmenn ekki eiga skilið allt ríkidæmið og velmegunina. Allir Norðmenn eru margmilljónerar vegna olíunnar. Af hverju eru þeir svona heppnir? Íslendingar telja sig ekki vera sérlega heppna – hugsanlega ber það vott um aðeins brenglaða sjálfsmynd (við búum í friðsælasta landi í heimi)..

Sjónvarpsþættirnir um Stavanger heita Sæluríki eða Lykkeland.  Þetta er reyndar ekki eins sjónvarpsefnið sem nú er í umferð og fjallar um olíugróðann. Gamaþáttaröð sem heitir einfaldlega Olíusjóðurinn var frumsýnd fyrir nokkru. Hún segir frá því hvað er ótrúlega erfitt verkefni að koma svona miklum peningum í lóg.

Þættirnir ganga líka út á að Norðmenn hafa sett á laggirnar siðferðisráð sem skoðar hvernig hinum ótrúlegu fjárhæðum sem koma í olíusjóðinn er varið – þessi stærsti fjárfestingarsjóður í heimi má ekki setja peninga í hvað sem er og grínið í þáttunum snýst mikið kringum það.

En svo er auðvitað hægt að segja að þetta sé allt meira og minna ósiðlegt hjá Nojurunum – hvernig þeir halda áfram að dæla upp olíu eins og enginn sé morgundagurinn, opna sífellt nýjar olíulindir meðan við Íslendingar eigum engar og notum okkar hreinu orku. Ekki það, við myndum auðvitað pumpa upp olíu ef við kæmust í það.

 

 

En í alvöru. Af hverju tókst Norðmönnum þetta svona vel. Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði, reifar það aðeins í greinarstúfi á Facebook:

„Smá upprifjun um það hvernig Norðmenn héldu á sínum málum þegar þeir stóðu frammi fyrir því að finna ævintýraleg auðævi í túnfætinum. Rétt er að hafa í huga að hvorki Bretar né Danir voru jafn forsjálir í sinni meðhöndlun á þeim auðæfum sem fundin voru innan lögsögunnar. Danir fóru nokkurskonar Sægreifaleið og veittu einum aðila mikil réttindi. Bretum undir stjórn Heath lá mikið á að nota olíuna til að takast á við skammtímavandamál. Þó upphaflega hafi verið lögð áhersla á þátttöku skoskra og enskra fyrirtækja í uppbyggingunni fór svo að Texasbúar stjórnuðu öllu og komu meira að segja með stígvélin á verkamennina frá Texas!

Olíuævintýri Norðmanna hófst á sjöunda áratug síðustu aldar. Norskir hagfræðingar og áhrifamenn innan norskrar stjórnsýslu gerðu sér strax grein fyrir þeim hættum sem geta fylgt hraðri uppbyggingu olíuiðnaðar. Þeim tókst smám saman að sannfæra mjög stóran hluta stjórnmálalífsins um að þessar hættur væru raunverulegar og þess eðlis að takast yrði á við þær. Niðurstaðan varð að vinna viðamikla greiningarvinnu. Aðgerðir sem gripið var til fólust m.a. í að Stórþingið samþykkti einróma olíuboðorðin 10 (sjá Appendix A í http://folk.uio.no/sholden/publikasjoner/EP-13.pdf) í júní 1972. Olíuboðorðin kveða fyrst og fremst á um að þróun olíuvinnslunnar skuli gerð á grundvelli hagsmuna norsku þjóðarinnar; að leit, þróun og vinnsla skuli í höfuðatriðum vera í höndum norskra fyrirtækja; að gas sem komi upp með olíu sé nýtt en ekki brennt og að sérstakrar aðgátar skuli gætt við leit og vinnslu norðan 62arrar breiddargráðu vegna þess að lífríki og félagslegar aðstæður eru mjög viðkvæmar á þeim slóðum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“