fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Engin loðna

Egill Helgason
Þriðjudaginn 26. febrúar 2019 00:44

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir margt löngu starfaði ég sem fréttamaður í sjónvarpi. Ég tók eftir því fyrstu dagana á fréttastofunni í sjónvarpshúsinu á Laugavegi 176 að þar voru hillur með spólum – spólurnar sem voru notaðar í þá daga voru mjög stórar.

Þarna voru tvær hillur með spólum þar sem stóð „þorskur“. Ein hilla þar sem stóð“ loðna“. Og svo ufsi, ýsa og karfi.

Reglan var að vart væri sendur út fréttatími nema væru svona þrjár fréttir um sjávarútveg í honum. Um aflabrögð, afurðaverð, endurnýjun flotans og svo framvegis. Þá voru þessar spólur teknar fram og notaðar til að myndskreyta fréttirnar. Þetta var í daglegu tali kallað „slorið“, maður fór í „slorfréttirnar“.

Nú vildi svo til að sjávarútvegsfréttamaður sjónvarpsins á þeim tíma fór í frí. Einhvern veginn æxlaðist það þannig, fyrir hreina tilviljun, að ég var farinn að leysa hann af. Var kominn með upp undir þrjár sjávarútvegsfréttir í fréttatímana. Sat með körlum á Fiskiþingi. Halldór Ásgrímsson, sem þá var sjávarútvegsráðherra, var farinn að viðurkenna tilvist mína innan greinarinnar.

En þegar ég byrjaði þekkti ég ekki muninn á aflamarki og sóknarmarki.

Mitterrand Frakklandsforseti kom í heimsókn. Ég talaði frönsku. Mér var uppálagt að fara á blaðamannafund með honum og spyrja spurningar – náttúrlega snerist hún um sjávarútveg. Mitterrand hváði, vissi ekkert hvað ég var að fara – ég nánast sökk ofan í gólfið á Hótel Sögu þar sem fundurinn var haldinn.

Salurinn var fullur af erlendum blaðamönnum sem fylgdu forsetanum vegna þess að stríð var að hefjast við Persaflóa. Þeir höfðu margs að spyrja.

Það eru breyttir tímar. Fréttir af aflabrögðum sjást ekki mikið í fjölmiðlum lengur. Það er helst að Gissur Sigurðsson á Bylgjunni hringi rúntinn á sjávarplássin til að spyrja frétta. Hér er öðruvísi samfélag en þá var og við horfum í aðrar áttir. Um tíma vorum við ofsalega upptekin af bönkum og fjársýslu – ég man eftir miklum aflabresti á árunum fyrir hrun sem fæstir tóku eftir vegna bankagróðans. Nú síðustu árin hafa ferðamenn verið aðalmálið og gjarnan um þá rætt eins og síldina í gamla daga.

En einstöku sinnum birtast þó sjávarútvegsfréttir, eitthvað smá. Eins og til dæmis þessi – um að loðna finnist bara alls ekki og leit að henni hafi verið hætt. Það er faktískt dálítið alvarlegt mál. Heill fiskistofn horfinn – og fræðingar segjast ekki vita hvað veldur. Og fjárhagstjónið ansi mikið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“