fbpx
Mánudagur 25.mars 2019
Eyjan

Sósíalistaforsíða The Economist og bakgrunnur hennar í sovéskri framúrstefnulist

Egill Helgason
Fimmtudaginn 21. febrúar 2019 14:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tímaritið The Economist er frægt fyrir mjög snjallar forsíður. Hér er sú nýjasta, vísað er í grein sem fjallar um sósíalisma meðal árþúsundakynslóðarinnar. Við ræddum þetta efni aðeins í síðasta þætti af Silfrinu. Sósíalisma vex fiskur um hrygg meðal ungs fólks – Economist líst mátulega á blikuna.

En það er önnur saga. Forsíðan er byggð á mjög frægri mynd sem má sjá hér að neðan. Hún er frá fyrstu árum rússnesku byltingarinnar. Höfundur hennar var myndlistarmaðurinn og hönnuðurinn Alexander Rodtsjenkó. Hann var einn upphafsmaður framúrstefnukenndrar liststefnu sem nefndist konstrúktívismi – hún var mjög áhrifarík, grunnhugmyndin var að listin skyldi þjóna samfélaginu.

Þetta var á tímanum meðan alls kyns listræn tilraunastarfsemi var leyfð í Sovétríkjunum. Margt af því sem þá var gert hafði mikil áhrif út fyrir Sovétríkin og út fyrir raðir kommúnista. Enn skynjar maður hvað ýmis verk Rodtsjenkós hafa verið djörf og nútímaleg. En svo komst Stalín til valda, smekkur hans á listum var fjarska íhaldssamur, gert var ráð fyrir að alþýðan væri það líka, ekki mátti stuða hana – sósíalrealismi tók völdin sem ríkjandi liststefna og mátti helst ekki breyta út af henni að viðlagðri útskúfun, fangavist eða dauða.

Konan á myndinni er söguleg persóna. Hún hét Lilya Brik og var áberandi í hópi framúrstefnulistamanna og -skálda á tíma byltingarinnar. Hún er samt frægust fyrir að hafa verið „músa“ skáldsins Vladimirs Majakovskís. Hann lagði á hana mikla ást og orti til hennar fjölda kvæða. Majakovskí fyrirfór sér 1930 en var samt hafinn á stall sem helsta skáld byltingarinnar.  Það að fremja sjálfsmorð var auðvitað mikill glæpur í paradís verkamannanna – hvers vegna ættu menn að vilja forða sér þaðan af sjálfsdáðum? En Majakovskí sem hafði ort eldleg byltingarkvæði var of sterkt tákn til að senda hann í ónáð.

Þetta voru brjálaðir tímar. Síðar kom í ljós að Lilya Brik hafði um tíma verið í þjónustu leynilögreglunnar NKVD, síðar KGB – hún umgekkst fullt af frægum listamönnum, en hinir lúsiðnu vaktmenn ógnarstjórnarinnar fengu sínar skýrslur um þá.

Við sjálfsmorðið lét Majakovskí eftir sig kvæði sem er svohljóðandi í þýðingu Geirs Kristjánssonar. Í því er angurværð, depurð, fegurð –  þetta er geðslegri kveðskapur en hinn ofsafengni byltingarflaumur sem oft vall upp úr Majakovskí. Þetta er úr tímaritinu Birtingi frá 1962.

Hér er svo mynd af Lilyu Brik, eiginmanni hennar Osip og Majakovskí. Orðrómur var um að þau lifðu í því sem kallast ménage à trois og ögruðu þannig borgaralegu velsæmi. Á fyrstu árum Sovétríkjanna boðuðu reyndar ýmsir byltingarmenn frjálsræði í ástum en á tíma stalínismans þróaðist afskaplega smáborgaralegt og púrítanskt viðhorf til samskipta kynjanna. Frjálsir andar eins og Lilya Brik urðu tímaskekkja, en hún lifði þó af og lenti ekki í gúlaginu. Hún dó ekki fyrr en 1978.

Við erum reyndar komin býsna langt inn í nafnaregistur kommúnismans. Systir Lilyu Brik hét Elsa og varð síðar franska skáldkonan Elsa Triolet. Þær systur voru af gyðingaættum, faðir þeirra var vel efnum búin og þær fengu menntun í tungumálum og tónlist. Þóttu gáfaðar, heillandi og fagrar. Sátu fyrir á verkum myndlistarmanna eins og Matisse og Chagall. Elsa flutti til Frakklands, var reyndar um tíma á Tahiti, skrifaði skáldsögur og ljóð og fékk fyrst kvenna hin virtu Goncourt-verðlaun árið 1944.

Eiginmaður hennar var frægur kommúnisti, rithöfundurinn Louis Aragon, hann var einn helsti andlegi leiðtogi franskra kommúnista um áratugaskeið, í fremstu línu menntamanna sem voru hallir undir Sovétríkin, og gaf út áhrifamikið tímarit sem kallaðist Les Lettres françaises. Undir lokin var hann þó farinn að bila í trúnni og birti skrif eftir andkommúnista eins og Alexander Solzhenitsyn og Milan Kundera. Kona hans, Elsa, vissi náttúrlega nokkuð vel hvernig lífið gekk í rauninni fyrir sig í Sovétríkjunum. 

Við útför franska skáldsins og kommúnistans Pauls Éluard 1952. Þarna má sjá Elsu Triolet í pels með svartan hatt og fyrir aftan hana er Louis Aragon, eiginmaður hennar. Í ljósum frakka með trefil er svo sjálfur Pablo Picasso. Hann var alla tíð stuðningsmaður kommúnista og þeir hömpuðu honum,  en það er viss þversögn að þeir gátu alls ekki fellt sig við myndlist hans. Hún var gjörsamlega andstæð hugmyndum stalínismans um hlutverk og gildi listarinnar.

Það var ekki fyrr en 1956, á tíma Krútsjefs, að haldin var stór sýning á verkum Picassos í Sovétríkjunum. Þá var reyndar mikið rætt um að það væru mistök – slík list myndi bara æsa upp ungdóminn. Samt var Picasso höfundur myndarinnar af friðardúfunni sem var eitt vinsælasta tákn kommúnista á árunum eftir stríð.

Aragon lenti í vandræðum við dauða Stalíns þegar hann birti í minningarskyni í tímariti sínu mynd af leiðtoganum fallna eftir Picasso, mitt á milli lofgreinanna. Þetta þótti hin mesta óvirðing og hann þurfti að biðjast afsökunar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Silja Bára nýr formaður Jafnréttisráðs

Silja Bára nýr formaður Jafnréttisráðs
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Viðræður hafnar á nýjan leik á milli WOW air og Icelandair – Öll sund að lokast hjá WOW air

Viðræður hafnar á nýjan leik á milli WOW air og Icelandair – Öll sund að lokast hjá WOW air
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir hörð átök innan Sjálfstæðisflokksins leiða til klofnunar: „Stór hópur flokksmanna mun ekki fyrirgefa“

Segir hörð átök innan Sjálfstæðisflokksins leiða til klofnunar: „Stór hópur flokksmanna mun ekki fyrirgefa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bændur forviða á sýklalyfjaónæmi í íslensku sauðfé:  „Eitthvað sem maður gerði ekki ráð fyrir“

Bændur forviða á sýklalyfjaónæmi í íslensku sauðfé:  „Eitthvað sem maður gerði ekki ráð fyrir“