fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

VG þarf að spenna beltin

Egill Helgason
Miðvikudaginn 20. febrúar 2019 23:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hinn herskái verkfallstónn sem nú heyrist setur flokk Vinstri grænna í vanda. Nú reynir loks á Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra. Henni gæti jafnvel verið vandi á höndum að stöðva fólksflótta úr flokknum. Það er mikið til í því sem Þorsteinn Víglundsson segir – þetta er dálítið spurning um væntingastjórnun. Verkalýðsforkólfar, og ekki síst Drífa Snædal, forseti ASÍ, hafa lengi talað nánast óáreittir um að lausn kjaradeilna sé í höndum ríkisins. Og um leið hafa byggst upp væntingar um að ríkisstjórnin muni skila gríðarmiklu í formi skattalækkana og aukinna bóta – jú, og skattahækkana á þá sem eru flokkaðir sem hálaunafólk.

En það sem kemur svo virkar ósköp lítið og rýrt miðað við hvernig hefur verið talað. Var líka einhver að búast við því að Sjálfstæðisflokkurinn færi að setja skatta á hálaunafólk?

Vinstri græn gætu komist í afleita stöðu út af þessu. Bæði Samfylkingin og Píratar stilla sér upp til vinstri við VG og taka undir nánast hverja einustu kröfu sem kemur frá verkalýðshreyfingunni. Sósíalistaflokkurinn guðar svo á gluggann, ára hans er hrein af öllum málamiðlunum, en í stjórnir verkalýðsfélaga eru komnir harðir vinstri sósíalistar – tónninn í þeim er á köflum eins og þá langi beinlínis í átök.

Á eftir Eflingu, VR og Starfsgreinasambandinu bíða svo kjarasamningar við önnur verkalýðsfélög, þar á meðal félög opinberra starfsmanna. Á þessu ári losna alls 173 kjarasamningar, þar af 152 31. mars næstkomandi.

Talsmenn ríkisstjórnarinnar segja að ekki verði boðið betur. Svigrúmið sé 14 milljarðar. Nú beinist öll athyglin að ríkisstjórninni fremur en Samtökum atvinnulífsins þar sem eru hinir eiginlegu viðsemjendur. Maður getur auðvitað velt því fyrir sér hvort ríkisstjórnin hafi eitthvað meira uppi í erminni ef í harðbakkann slær, eitthvað útspil?

Kröfurnar eru hins vegar miklar og margvíslegar, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, talaði meira að segja um skort á aðgerðum gegn verðtryggingu í útvarpsviðtali í morgun. Þorsteinn Víglundsson, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri SA, benti á að ólöglegt sé að beina kjaradeilum fyrst og fremst að ríkisstjórn og Alþingi – jú, vissulega stendur það í 17. grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur, en ólíklegt er að nokkur taki raunverulegt mark á því.

Formenn bæði Eflingar og VR hafa fengið umboð til að slíta kjaraviðræðum og hefja undirbúning verkfallsaðgerða. Í áðurnefndu viðtali talaði Ragnar Þór Ingólfsson um staðbundin verkföll – það sem heitir öðru nafni skæruverkföll. Þá eru semsagt ekki allir félagar VR að fara í verkfall, heldur verða einungis ákveðnir vinnustaðir lokaðir eða ákveðnar starfsgreinar stöðvaðar. Hefðbundið úrræði atvinnurekenda gegn slíku eru verkbönn – það getur orðið mikill darraðardans ef menn boða verkföll og verkbönn á víxl.

En hvað varðar VG-ara þá verða þeir að spenna beltin og hafa þau spennt fram á vor. Samstarfið í ríkisstjórninni virðist með ágætum, en ef baklandið brestur er varla hægt að halda lengi áfram í ríkisstjórn.

Það er eiginlega óþægilegt hvað öll þessi samskipti er ómstríð og fjandsamleg. Menn geta nagað sig í handabökin vegna hinna hræðilega ótaktísku launahækkana til handa ráðherra, þingmanna og ekki síst embættismana – að ekki sé talað um launaskrið forstjóranna. Eins og tónninn er finnst manni varla að hægt sé að eiga neitt samtal. Kannski var SALEK ekki slæm hugmynd – en menn þurfa að velta því fyrir sér hverjir stútuðu því samkomulagi?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins