fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Við færumst nær verkföllum – hvað stöðvast í þeim og hvernig verður baráttan háð?

Egill Helgason
Þriðjudaginn 19. febrúar 2019 17:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir fund verkalýðsforingja með ríkisstjórninni í dag virðist eins og verkföll liggi í loftinu. Viðtökur við tillögum stjórnarinnar eru ekki góðar – Vilhjálmur Birgisson beinlínis rauk af fundi. Það er ekki eftirbreytnivert satt að segja, lýsir ójafnvægi – sá sem rýkur út af fundi er varla vel stemmdur þegar hann kemur inn á hann. En þess er að gæta að samningaviðræður af þessu tagi eru alltaf visst sjónarspil.

En burtséð frá því – tillögurnar, t.d. í skattamálum, virðast ekki vera sú úrlausn sem verkalýðsforingjar ætluðu – það er búið að margtyggja möntruna um að deilurnar verði ekki leystar nema með „aðkomu stjórnvalda“.

Ríkisstjórnin hefur þannig haft nægan tíma til að móta hugmyndir sínar – en hitt er ljóst að í tillögum verkalýðshreyfingarinnar um skattamál er ýmislegt sem er mjög erfitt fyrir t.d. Sjálfstæðisflokkinn að fallast á.

Nú semsagt reynir í fyrsta sinn á ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur eftir setu í meira en fimmtán mánuði. Það hefur líka mikil áhrif að til valda í verkalýðsfélögum er komið miklu róttækara fólk en áður.

En svo vakna ýmsar spurningar. Hversu mikill verkfallsvilji er innan stéttarfélaganna? Innan Eflingar virðist hann vera allnokkur – en það er spurning með VR. Þar inni er fjöldi fólks sem hefur ágæt laun. Það getur verið mikil þolraun fyrir hina nýju verkalýðsforingja að leiða hreyfinguna í gegnum stór verkföll sem munu mæta mikilli andstöðu víða og baka þeim óvinsældir – Sólveig og Ragnar standa í raun og falla með þessu.

Svo er spurningin hvað stöðvast í stóru verkfalli þar sem t.d. Efling og VR leggja niður vinnu. Þetta eru gríðarlega stór félög, eru fær um að nánast lama mörg svið samfélagsins. Kannski yrðu skólar illa starfhæfir vegna þess að þeir eru ekki ræstir – sömuleiðis sjúkrahús? Það er spurning um matarverslanir, matvælaframleiðslu og matardreifingu. Samgöngur gætu stöðvast, flugvellir, hafnir, bensínafgreiðsla. Verkföll svo stórra félaga geta haft gríðarleg hliðaráhrif.

Þetta yrðu líka fyrstu stóru verkfallsátökin sem færu fram á tíma samfélagsmiðla. Baráttan yrði ekki síst háð þar. Það er spurning um ímyndir, sýnd og reynd. Í verkfalli geta komið upp ýmis atvik sem hafa áhrif á almenningsálitið og nú er enginn hemill á birtingu – það er hægt að setja allt beint inn á Facebook og Twitter. Fjölmiðlaumhverfið var annað, en „stóra verkfallið“ 1955 rifjast upp – það sem flestir muna úr því er þegar verkfallsmenn með Guðmund Jaka í fararbroddi voru að hella niður mjólk sem reynt var að koma með í bæinn. Þá varð til goðsagan um Gvend sem harða verkalýðsforingjann. Hann er dæmi um verkalýðsforingja sem náði einhvers konar hetjustöðu – en svo er líka möguleiki að verkfall verði fjarskalega óvinsælt og leiðtogar þess neyðist til að gefast upp snemma.

Vogun vinnur, vogun tapar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“