fbpx
Mánudagur 25.mars 2019
Eyjan

Styðja og fagna baráttuvilja og staðfestu verkalýðshreyfingarinnar

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 19. febrúar 2019 18:00

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hagsmunasamtök heimilanna styðja og fagna baráttuvilja og staðfestu verkalýðshreyfingarinnar og treysta því að ný forysta hennar standi fast við kröfuna um afnám verðtryggingar á lánum heimilanna,“ segir í opnu bréfi til verkalýðsforystunnar frá samtökunum.

Þingflokkar Samfylkingarinnar og Pírata lýstu fyrr í dag yfir stuðningi við launafólk og skattatillögur ASÍ, en Hagsmunasamtök heimilanna segja brýnasta hagsmunamálið vera að afnema okurvexti og verðtrygginguna:

„Hagsmunasamtökin hafa frá stofnun sinni haldið því fram að brýnasta hagsmunamál heimilanna sé afnám okurvaxta og verðtryggingar á lánum heimilanna. Það er því sérstakt ánægjuefni að það skuli vera eitt helsta baráttumál verkalýðshreyfingarinnar í dag. Það eitt og sér er til marks um betri tíma. Þegar Hagsmunasamtökin voru stofnuð fyrir 10 árum var ekki nóg með að enginn væri að tala um böl verðtryggingarinnar, heldur lagðist verkalýðshreyfingin beinlínis gegn því að við henni væri hróflað og lengi vel voru Hagsmunasamtökin ein á báti í þessari baráttu. Sem betur fer hefur andstaðan við verðtrygginguna aukist jafnt og þétt á undanförnum árum sem sýnir sig m.a. í því að um 90% félagsmanna Eflingar vilja nú afnám verðtryggingar lána heimilanna.“

Hagsmunasamtökin benda m.a. á úttektir Ólafs Margeirssonar hagfræðings um skaðsemi verðtryggingarinnar og minna á rannsókn sem Jacky Mallett, prófessor við Háskólann í Reykjavík, gerði árið 2013. Þar fjallar hún um verðbólguspíralinn sem myndast vegna áhrifa verðtryggingarinnar á lánum heimilanna.

Bréf Hagsmunasamtaka heimilanna:

EFTA dómstóllin staðfestir brot stjórvalda

Í baráttu sinni gegn verðtryggingunni hafa Hagsmunasamtökin leitað réttlætis fyrir dómstólum og staðið í málarekstri vegna hennar svo árum skiptir. Við ramman reip hefur verið að draga og „kerfið“ hefur varið sjálft sig með kjafti og klóm. Árið 2014 náðist þó sá merki áfangi að EFTA dómstóllinn staðfesti að gróflega hefði verið brotið á neytendum varðandi lögbundna upplýsingagjöf við veitingu verðtryggðra lána.

Skaði heimilanna vegna þessarar vanrækslu ríkisins er gríðarlegur og hann var ástæðulaus. Stjórnvöld hefðu átt að sjá til þess að réttindi neytenda væru virt og að fjármálafyrirtæki færu að lögum.

Hagsmunasamtökin hafa því enn og aftur lagt í erfiðan og dýran málarekstur vegna verðtryggðra neytendalána gegn íslenska ríkinu og fór málflutningur fram í héraði þann 30. janúar sl.

Í þetta sinn snýst deilan fyrir dómstólum ekki um HVORT brotið hafi verið á neytendum, heldur einvörðungu HVER sé ábyrgur. EFTA dómstóllinn er þegar búin að staðfesta að brotin hafi átt sér stað.

Þetta mál er sennilega stærsta skaðabótamál Íslandssögunnar (sjá fréttatilkynningu samtakanna) og sýnir skýrt fram á þann skaða sem íslenskur almenningur hefur borið á sínum herðum vegna verðtryggingar neytendalána, á meðan lánveitendur hafa makað krókinn.

Vonandi mun niðurstaða málsins verða sterkt vopn í baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir bættum hag heimilanna því ekki er vanþörf á. Stuðningur ykkar í þessu máli væri okkur mikils virði.

Hagsmunasamtökin vilja ítreka stuðning sinn og efla verkalýðsforystuna í þeirra afstöðu sinni, að ekki verði rætt um fleiri “plástra” eða viljayfirlýsingar um “að vinna skuli að” afnámi verðtryggingar. Það er komið nóg!

Afnám verðtryggingar er besta kjarabótin sem heimilin geta fengið.

Rannsóknarskýrsla heimilanna

Það er ánægjulegt að sjá kröfuna um samfélagsbanka vera jafn háværa og raun ber vitni. Hagsmunasamtökin hafa barist fyrir stofnun samfélagsbanka svo til frá stofnun þeirra og hafa núna á síðustu vikum varað sterklega við sölu bankanna (Sjá fréttatilkynningu samtakanna: Aðvörun til fjárfesta) fyrr en búið sé að gera upp málin við heimili landsins.

Samkvæmt nýjustu tölum hafa bankarnir hagnast um 630 milljarða frá hruni. Þessir 630 milljarðar eru að stærstum hluta komnir beint frá heimilum landsins og stór hluti þeirra vegna ólöglegra lána og/eða ólöglegra aðgerða bankanna.

Heimilin hafa hreinlega verið blóðguð og slægð fyrir hagnað bankanna. Raunveruleg staða bankanna verður ekki ljós fyrr en gerð hefur verið rannsókn á þeirri meðferð sem heimilin hlutu af hendi banka og stjórnvalda eftir hrun.

Hagsmunasamtökin vilja því beina því til verkalýðshreyfingarinnar að styðja kröfu þeirra um að gerð verði Rannsóknarskýrsla heimilanna um aðgerðir stjórnvalda eftir hrun.

Við sem þjóð verðum að koma í veg fyrir að næst þegar fjármálafyrirtæki eða aðrir fjársterkir aðilar lendi í vandræðum, af hvaða orsökum sem það er, sé hægt að hengja bakara fyrir smið og fórna heimilunum fyrir fjármálafyrirtækin.

Varlega áætlað liggja 15.000 heimili í valnum, 45.000 einstaklingar, 15% þjóðarinnar.

Að auki hafa verið gerð 117.000 árangurlaus fjárnám á þessum 10 árum. Þetta er “gamla gjaldþrotið” sem bankarnir geta viðhaldið svo árum skiptir. Þetta fólk er alls staðar á svörtum listum og oft hefur þeirra eini kostur verið að flýja land. Fjöldi einstaklinga á bakvið þessa tölu liggur ekki fyrir, en 117.000 árangurslaus fjárnám í þjóðfélagi sem telur um 340.000 að börnum meðtöldum, segir sína sögu, og hún gæti ekki verið ljótari.

Þessir einstaklingar og fjölskyldur þessara 15.000 heimila eru hin þöglu fórnarlömb hrunsins, þau eiga rétt á svörum og uppreist æru.

Nýtt þjóðfélag verður ekki reist á fúafeni! Við þurfum að hreinsa það til að geta byggt upp heilbrigt samfélag fyrir okkur og börnin okkar. Til þess þurfum við Rannsóknarskýrslu heimilanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Silja Bára nýr formaður Jafnréttisráðs

Silja Bára nýr formaður Jafnréttisráðs
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Viðræður hafnar á nýjan leik á milli WOW air og Icelandair – Öll sund að lokast hjá WOW air

Viðræður hafnar á nýjan leik á milli WOW air og Icelandair – Öll sund að lokast hjá WOW air
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir hörð átök innan Sjálfstæðisflokksins leiða til klofnunar: „Stór hópur flokksmanna mun ekki fyrirgefa“

Segir hörð átök innan Sjálfstæðisflokksins leiða til klofnunar: „Stór hópur flokksmanna mun ekki fyrirgefa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bændur forviða á sýklalyfjaónæmi í íslensku sauðfé:  „Eitthvað sem maður gerði ekki ráð fyrir“

Bændur forviða á sýklalyfjaónæmi í íslensku sauðfé:  „Eitthvað sem maður gerði ekki ráð fyrir“