fbpx
Mánudagur 25.mars 2019
Eyjan

Lindarvatn hyggst sækja rétt sinn af „fullum þunga“ þrátt fyrir samkomulagið

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 19. febrúar 2019 09:07

Jóhannes Stefánsson og Kristín Huld Sigurðardóttir, ásamt styttunni af Skúla fógeta., sem verður væntanlega ekki færð fyrir neinn inngang að svo stöddu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lindarvatn ehf., sem hyggst reisa hótel á Landssímareitnum, hyggst sækja rétt sinn til að fá bætt það tjón sem fyrirtækið varð fyrir þegar Minjastofnun skyndifriðaði þann hluta reitsins sem Víkurkirkjugarður stóð á. Fréttablaðið greinir frá.

Í gær féll Minjastofnun frá friðlýsingartillögu sinni um stækkun friðlýsts svæðis við Landssímreitinn og getur hóteluppbyggingin því haldið áfram, þar sem Lindarvatn féllst á ýmis sjónarmið Minjastofnunar, til dæmis að færa inngang hótelsins og bæta við inngangi. Ef Minjastofnun hefði ekki tekið af skarið, hefði ákvörðunin hvílt á herðum Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra.

Þrátt fyrir hina sögulegu sátt, segist Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns, ætla að sækja rétt sinn vegna þess tjóns sem fyrirtækið hefur þegar orðið vegna friðunar Minjastofnunar:

„Með þessu samkomulagi er Lindarvatn ekki að afsala sér neinum rétti til bóta. Skyndifriðunin tafði framkvæmdir og það er næsta mál á dagskrá að skoða í hverju tjónið liggur. Það mun verða sótt af fullum þunga.“

Mikið hefur gengið á í málinu og Eyjan greindi frá því í síðustu viku að forstöðumaður Minjastofnunar hefði hótað að beita sér með þeim hætti, að styttan af Skúla fógeta yrði færð fyrir innganginn að hótelinu, yrði ekki fallist á sjónarmið Minjastofnunar um að hótelið léti færa innganginn.

Sjá nánarForstöðumaður Minjastofnunar hótaði að loka fyrir hótelinnganginn með styttunni af Skúla fógeta

 

 

Tilkynning Lindarvatns:

Minjastofnun dregur tillögu að friðlýsingu Landssímareits til baka Ákveðið hefur verið að Minjastofnun dragi til baka tillögu sína um að mennta- og menningarmálaráðherra friðlýsi hluta af Landssímareitnum þar sem fyrirhugað er að byggja hótel, veitinga- og kaffihús. Lindarvatn ehf., sem er eigandi fasteigna á reitnum, mun breyta uppdráttum þannig að inngangur sem fyrirhugaður var gegnt Víkurgarði verði færður norðar. Er það í samræmi við óskir Minjastofnunar Íslands. Af hálfu Lindarvatns er því fagnað að tillaga um friðlýsingu sé dregin til baka en með því er tryggt að fyrirhuguð byggingaráform raskist ekki á sama tíma og komið er til móts við sjónarmið þeirra sem vilja að sögu og menningu Víkurgarðs verði gert hærra undir höfði. Þá vonast Lindarvatn til þess að fyrirhuguð hugmyndasamkeppni um Víkurgarð verði til þess að gera hann aðlaðandi og vistlegan stað í hjarta Reykjavíkur, öllum borgarbúum og gestum þeirra til heilla. Félagið mun leitast við að eiga gott samstarf við Minjastofnun um framhald framkvæmda.

 

Tilkynning Minjastofnunar frá í gær:

Fallist á sjónarmið Minjastofnunar Íslands um verndun Víkurgarðs

Í ljósi þess að fallist hefur verið á sjónarmið Minjastofnunar Íslands og fyrir liggur yfirlýsing Lindarvatns, framkvæmdaaðila á Landssímareitnum í miðbæ Reykjavíkur, hefur stofnunin nú dregið til baka friðlýsingartillögu sína um stækkun friðlýsts svæðis í Víkurgarði.

Þar með nást þau markmið sem lagt var upp með í síðari friðlýsingartillögu Minjastofnunar Íslands en þau felast m.a. í því að Víkurgarður fái þann virðingarsess sem honum ber sem einn merkasti minjastaður þjóðarinnar, þar verði opið og frjálst almenningsrými þar sem saga garðsins fær notið sín og fyrirkomulag hans verði framvegis óháð starfsemi á nærliggjandi lóðum. Þannig er skilið á milli garðsins og hótelsins sem nú er í byggingu á Landssímareitnum.

Ekki hótelgarður 
Með yfirlýsingu sinni  ítreka forsvarsmenn Lindarvatns þann vilja sinn að menningarminjum á svæðinu verði sýnd virðing og sómi. Félagið lagði fram tillögu um að færa inngang sem fyrirhugaður var inn í garðinn og flytja hann norðar nær Aðalstræti. Nýjum inngangi verður einnig bætt við á suðvesturhorni byggingarinnar sem snýr út að Kirkjustræti enda samræmist slíkt deiliskipulagi. Með þessari lausn er tryggt að þegar friðlýst svæði Víkurgarðs verður ekki fyrir álagi vegna starfsemi hótelsins heldur verður gangandi umferð hótelgesta beint um innganga í Kirkjustræti, Aðalstræti og Thorvaldsensstræti við Austurvöll.

Friðlýsing Víkurgarðs
Mennta- og menningarmálaráðherra friðlýsti Víkurgarð hinn 8. janúar sl. en friðlýsingartillagan sem fallið var frá í dag sneri að stækkun þess svæðis um 8 metra til austurs. Svæðið allt er þó aldursfriðað samkvæmt lögum um menningarminjar frá árinu 2012. Þar má engu raska né breyta nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.

Virðing fyrir sögunni
Fátt er nú sem minnir á sögu þessa merka minjastaðar en áhugi á sögu hans hefur aukist mjög að undanförnu – auk menningarsögulegs gildis hefur svæðið einnig tilfinningalegt gildi fyrir fjölda Íslendinga. Í tengslum við byggingaframkvæmdir og þróun byggðar í miðbæ Reykjavíkur á undanförnum áratugum hefur verið þrengt mjög að garðinum. Undir hellulögðu yfirborði garðsins, sem margir kenna nú við Skúla fógeta, liggur rúmlega 1100 ára saga búsetu í Reykjavík. Ætla má að kirkja hafi risið þar fljótlega eftir kristnitöku en grafreitur við hana mun hafa verið notaður að lágmarki um 600 ára skeið. Síðasta kirkjan sem í garðinum stóð var rifin árið 1799. Víkurgarður þjónaði sem kirkjugarður Reykvíkinga fram til ársins 1838 er Hólavallagarður við Suðurgötu var tekinn í notkun. Eftir það var lítið grafið í garðinum en ætla má að jarðneskar leifar um 30 kynslóða Reykvíkinga hvíli þar.

Framtíðarsýn fyrir svæðið
Það er einhugur um það hjá Minjastofnun Íslands, Lindarvatni, Reykjavíkurborg og mennta- og menningarmálaráðuneyti að marka Víkurgarði meiri virðingarsess og í því skyni verður efnt til hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag hans og hvernig gera má sögulegt hlutverk garðsins sýnilegra fyrir borgarbúa og gesti. Stefnt er að því að auglýsa þá samkeppni nú á vordögum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Silja Bára nýr formaður Jafnréttisráðs

Silja Bára nýr formaður Jafnréttisráðs
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Viðræður hafnar á nýjan leik á milli WOW air og Icelandair – Öll sund að lokast hjá WOW air

Viðræður hafnar á nýjan leik á milli WOW air og Icelandair – Öll sund að lokast hjá WOW air
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir hörð átök innan Sjálfstæðisflokksins leiða til klofnunar: „Stór hópur flokksmanna mun ekki fyrirgefa“

Segir hörð átök innan Sjálfstæðisflokksins leiða til klofnunar: „Stór hópur flokksmanna mun ekki fyrirgefa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bændur forviða á sýklalyfjaónæmi í íslensku sauðfé:  „Eitthvað sem maður gerði ekki ráð fyrir“

Bændur forviða á sýklalyfjaónæmi í íslensku sauðfé:  „Eitthvað sem maður gerði ekki ráð fyrir“