fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Bensínstöðvar tveggja tíma

Egill Helgason
Sunnudaginn 17. febrúar 2019 14:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég hef áður birt þessa mynd í einhverju samhengi. Hún er frá öðrum tíma. Líklega tekin kringum 1965. Virkar á mann eins og módernískur draumur – líkt og gömul framtíðarsýn.

Þetta hefur þótt afskaplega nútimalegt á sínum tíma. Frjálsleg konan, falleg bifreiðin, afgreiðslumaðurinn í snyrtilegum búningi – og svo hönnunin á bensínstöðinni, allt í hreinum og reglulegum formum.

Fegurðarskyn okkar hefur ekki endilega batnað – bensínstöðin sem þarna stendur nú er óskapnaður. Stór og fyrirferðarmikil og frek og í ósamræmi við nærliggjandi byggingar sem margar eru býsna merkar. Litirnir eru ljótir og vörumerkið púkalegt. Gamla bensínstöðin var látlaus og smekkleg – þessi æpir.

 

 

Til  skamms tíma var ágæt þjónusta á þessari bensínstöð, þá var það Shell við Birkimel og hafði verið lengi. Það voru liðlegir og hjálpsamir afgreiðslumenn á planinu. Einn var svo ágætur að fóru að birtast viðtöl við hann í blöðum. Í borgarhverfum er gott að hafa slíka máttarstólpa mannlífsins.

En svo breytti fyrirtækið um stefnu, sagði þeim öllum upp og breytti í sjálfsafgreiðslu. Ég var fastur viðskiptavinur þarna en hef ekki komið þangað síðan. Ég tel að sjálfsafgreiðsla sé ofmetin – trúi fremur á verkaskiptingu.

Hins vegar eru Olís og N1 ennþá með starfsmenn á plani. Þar er að finna mikla ágætismenn, eins og til dæmis afgreiðslumanninn á N1 stöðinni við Hringbraut sem á föstudagsmorguninn benti mér á að annað framdekkið hjá mér væri óeðlilega lint. Hann fór svo með mig og dældi lofti í dekkið – sem dugði til að ég kæmist á dekkjaverkstæði. Sparaði mér líklega að þurfa að standa einhvers staðar úti í skafli við umferðargötu með tjakk og skrúflykil – skiptandi um dekk i kuldanum. Ég var ágætur í því einu sinni, ég er ekki viss um að ég sé það lengur.

Það var satt að segja afbragðs þjónusta – sem engin sjálfsafgreiðsluvél getur veitt.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum
Fallinn strompur

Mest lesið

Ekki missa af