fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Aron Leví stefnir á framtíð í stjórnmálum – Bragginn ekki fyrsta verkefnið sem fer fram úr áætlun

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 16. febrúar 2019 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar varaborgarfulltrúinn Aron Leví Beck var átján ára breyttist heimsmynd hans. Hann fór í faðernispróf og komst að því að maðurinn sem hann taldi vera föður sinn var það ekki. Á einu bretti eignaðist hann nýjan föður og sex hálfsystkini sem hann kynntist í jarðarför ömmu sinnar sem hann aldrei þekkti. DV ræddi við Aron um æskuna með ADHD, hið flókna fjölskyldumynstur, ástina og pólitíkina.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Framtíð í stjórnmálum

Aron er formaður Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík og var kjörinn varaborgarfulltrúi í sveitarstjórnarkosningunum í fyrravor. Hann segir að áhuginn á stjórnmálum hafi kviknað á háskólaárunum og út frá bygginga- og skipulagsfræðunum.

„Ég hef alltaf borið jafnaðarmennskuna fyrir brjósti en varð ekki yfirlýstur jafnaðarmaður fyrr en seint. Ég trúi því að saman byggjum við gott samfélag og að allir eigi að fá sömu tækifærin. Umburðarlyndi gagnvart öllum skiptir mig miklu máli.“

Aron er í fullu starfi sem byggingafræðingur hjá arkitektastofu en auk þess starfar hann í ráðum og nefndum hjá borginni. Innan borgarkerfisins hefur hann aðallega fengist við skipulagsmál og menningarmál. Einnig aðgengismál fatlaðra.

Stefnir þú á að gera stjórnmálin að langtímastarfi?

„Ekki spurning,“ segir Aron án þess að hika. „Að sama skapi hef ég ástríðu fyrir því sem ég er að gera í vinnunni líka og er því ekkert að drífa mig. Það er draumurinn að gera stjórnmálin að fullu starfi en ég hef ástríðu fyrir minni faggrein svo ég nýt þess að geta tvinnað þetta saman núna.“

Skipulagsmálin brenna hvað heitast á Aroni en einnig almenningssamgöngur.

Þetta eru mjög mikil hitamál þessa dagana og meirihlutinn verið gagnrýndur harkalega. Til dæmis vegna braggamálsins og útilistaverksins Pálmatré.

„Þetta getur tekið á. En að sama skapi hef ég mikla trú á þeim málum sem ég stend fyrir. Maður er aldrei sammála öllum ákvörðunum sem teknar eru, en stóra myndin er mjög skýr. Það er mikil samstaða í meirihlutanum og almennt lítið af stórum ágreiningsmálum.“

Hefur almannafé verið notað á skynsamlegan hátt?

„Já, en mál eru oft blásin upp. Til dæmis hvað varðar braggann, því fer fjarri að hann sé fyrsta verkefnið sem fer fram úr áætlun á Íslandi. Mér finnst oft að minnihlutinn, sem hefur hvað hæst, hafi engan áhuga á borgarmálunum sjálfum. Þau hugsi aðeins um að sprengja meirihlutann upp og komast sjálf að. Í stað þess að koma málefnalega fram og ræða saman. Þetta getur verið lýjandi og tafið verkefni.“

Reykjavík hefur verið að byggjast mjög hratt upp eins og við sjáum hér í miðborginni. Er þetta að gerast of hratt?

„Nei, ég tel ekki svo vera. Breytingin núna er að við erum að byggja inn á við en ekki alltaf ný og ný úthverfi. Þetta gerir það að verkum að þjónustan verður betri og hagkvæmari. Í dreifðri byggð er til dæmis ómögulegt að halda uppi almennilegu samgöngukerfi þar sem þéttleikinn er svo lítill. Strætisvagnar þurfa að keyra langt og það þarf að malbika allar göturnar. Við þéttingu byggðar er auðveldara að halda öllum innviðum í lagi. Það er ennþá margt eftir óunnið og það þarf að þétta byggðina enn frekar í úthverfunum. Til dæmis í Grafarvogi sem hefur ekki verið að endurnýja sig. Þar þurfti til dæmis að loka unglingadeildinni í Hamraskóla og færa krakkana yfir í Foldaskóla af því að þeir voru svo fáir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“