fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Hörður kallar eftir leiðréttingu: „Hér hefur orðið meiriháttar dómgreindarbrestur“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 15. febrúar 2019 08:50

Hörður Ægisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðarins, skrifar um launahækkun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, Landsbankastjóra, í leiðara Fréttablaðsins í dag. Hann ýjar að því að Bankasýsla ríkisins muni refsa bankaráði Landsbankans fyrir þá taktlausa ákvörðun sína um að hækka laun Lilju í tvígang á innan við ári, um 82 prósent og virða þannig áherslustefnur yfirvalda um að gæta hófsemi í launamálum, að vettugi:

„Hér hefur orðið meiriháttar dómgreindarbrestur sem hefur veikt stöðu bankaráðsins. Bankasýslan, sem skipar bankaráðið, hefur réttilega brugðist hart við. Öllum má vera ljóst af lestri bréfs stofnunarinnar til bankaráðs að hún gefur lítið fyrir þær skýringar sem gefnar hafa verið og kallar eftir ítarlegri röksemdum. Sjái bankaráðið ekki að sér þá er einsýnt hver niðurstaðan verður. Bankasýslan hefur áður sýnt það, hvar Borgunarmálið er nærtækast, að hún er reiðubúin að láta sverfa til stáls. Aðalfundur bankans fer fram eftir mánuð og hafi bankaráðið ekki tekið ákvörðun sína til endurskoðunar þá hlýtur Bankasýslan að hafa það í huga við skipan sína í ráðið.“

Reynsluleysi kallar á leiðréttingu

Hörður segir að reynsluleysi bankaráðsins hafi komið í ljós í ákvörðun sinni og það sæti furðu að ekki hafi verið tekið tillit til stöðunnar á vinnumarkaði. Kallar hann eftir leiðréttingu á „mistökunum“:

„Þolinmæði almennings gagnvart því sem það upplifir sem óhóf innan fjármálageirans er engin. Þeir sem stýra fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins, eignarhald sem er ekki æskilegt en engu að síður veruleikinn, ættu að vera meðvitaðir um þá staðreynd. Ákvörðun bankaráðs, sem er skipað mestanpart reynslulitlu fólki eins og hefur nú opinberast, var því taktlaus og tímasetningin ótrúleg. Afleiðingin er sú að orðspor og traust í garð bankans hefur dvínað. Hlutverk bankaráðs getur ekki aðeins verið að ákvarða laun út frá þröngum skilningi starfskjarastefnunnar heldur einnig að meta áhrifin í víðara samhengi. Launahækkunin hefur aukið líkur á að til átaka komi á vinnumarkaði með neikvæðum áhrifum á efnahagslífið – sem um leið skaðar hagsmuni bankans. Þessi mistök þarf að leiðrétta.“

Lítið traust þrátt fyrir strangar reglur

Hörður segir að fjármálakerfið í dag eigi lítið sem ekkert skylt við það kerfi sem féll árið 2008 í hruninu:

„Reglur um bónusgreiðslur eru þær ströngustu í Evrópu, eigin- og lausafjárkröfur hafa verið hertar stórkostlega og innstæðuvernd aukin til muna. Allt regluverk um fjármálastarfsemi hefur tekið stakkaskiptum. Þrátt fyrir þessar breytingar hefur lítið áunnist í því að endurheimta traust almennings til bankakerfisins. Í þessu andrúmslofti tortryggni, sem er sumpart skiljanlegt, eru stjórnendur banka því iðulega dæmdir af mistökum sínum – réttilega eða ranglega.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt