fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Guðlaugur Þór hitti Pompeo: „Ísland verður áfram traust og trúverðugt bandalagsríki – líkt og undanfarin sjötíu ár“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 15. febrúar 2019 19:00

Michael Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á fréttamannafundi í Hörpu. Mynd Utanríkisáðuneytið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Viðskipti, málefni norðurslóða og öryggis- og varnarmál voru meðal umræðuefna á hádegisverðarfundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Michael Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem haldinn var í Hörpu í dag, en Pompeo var staddur hér á landi í vinnuheimsókn í boði Guðlaugs Þórs. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók einnig á móti Pompeo í Ráðherrabústaðnum í kurteisisheimsókn þar sem ráðherrarnir ræddu meðal annars loftslagsbreytingar, kjarnorkuafvopnun og Norðurskautsmál, auk þess sem þau ræddu tvíhliða samskipti landanna. Frá þessu er greint í tilkynningu.

Á fundi utanríkisráðherranna var ákveðið að setja á fót árlegt viðskiptasamráð á milli Íslands og Bandaríkjanna, með þátttöku opinberra aðila og einkageirans, í því augnamiði að auka frekar tvíhliða viðskipti og fjárfestingar á milli landanna.

„Þetta er mjög ánægjulegur áfangi og í samræmi við þá stefnu Íslands að opna á frekari viðskiptatengsl við Bandaríkin. Þau eru okkar stærsti og mikilvægasti einstaki markaður enda nema árleg heildarviðskipti ríkjanna hátt í hundrað milljörðum króna. Ég vænti þess að hið árlega samráð skili okkur markverðum árangri fram á við og þátttaka aðila einkageirans verður mikilvægur liður í því,“ segir Guðlaugur Þór.

Ráðherrarnir ræddu auk þess mannréttindamál og málefni norðurslóða, en Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu í maí. Þá ræddu þeir ennfremur öryggismál samhliða þeim breytingum sem verða norðurslóðum vegna áhrifa loftslagsbreytinga.

„Ísland og Bandaríkin eru samherjar í Norðurskautsráðinu og eru sammála um að vinna áfram að sjálfbærri þróun og stöðugleika á norðurslóð. Hafið sameinar okkur og verður meðal áherslumála Íslands í okkar formennskutíð og við væntum góðs af samstarfi við Bandaríkin og önnur ríki Norðurskautsráðsins. Við stöndum einnig frammi fyrir ýmsum áskorunum, líkt og á sviði leitar og björgunar, sem mikilvægt er að ríki vinni saman að enda hafsvæðin stór og innviðir á norðurslóðum takmarkaðir,“ segir Guðlaugur Þór.

Atlantshafsbandalagsið fagnar sjötíu ára afmæli sínu í Washington í apríl og ræddu utanríkisráðherrarnir samvinnu Íslands og Bandaríkjanna innan bandalagsins, sem og tvíhliða samstarf ríkjanna á sviðum öryggis- og varnarmála, sem hefur farið vaxandi á umliðnum árum og tekið mið af breytingum og horfum í öryggisumhverfi Evrópu og á Norður Atlantshafi.

„Samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum á sér langa og farsæla sögu, grundvallast á samningum og tekur mið af aðstæðum hverju sinni. Framlag Íslands, sem hefur farið vaxandi og er ávallt borgaralegt í eðli sínu, er mikils metið innan Atlantshafsbandalagsins og í Washington. Ísland verður áfram traust og trúverðugt bandalagsríki – líkt og undanfarin sjötíu ár,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

Að loknum vinnuhádegisverði tók Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, á móti utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Á fundi sínum ræddu þau um áhrif loftslagsbreytinga og ákvörðun Bandaríkjanna um að segja sig frá Parísarsamkomulaginu, sem forsætisráðherra sagði hafa verið mikil vonbrigði. Hvatti hún bandarísk stjórnvöld til þess  að taka virkan þátt í alþjóðlegri baráttu gegn þeim alvarlegu afleiðingum loftslagsbreytinga sem heimurinn stendur frammi fyrir.

„Til að árangur náist í baráttunni gegn loftslagsbreytingum þarf þátttöku allra þjóða og nú erum við komin að þeim tímapunkti að aðgerða er þörf. Ég hvatti utanríkisráðherra Bandaríkjanna til dáða í þeim efnum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Þróun á sviði kjarnorkuafvopnunarmála var einnig rædd og meðal annars sú staða sem komin er upp í tengslum við uppsögn Bandaríkjanna á samningnum við Rússa um meðaldræg kjarnavopn. Lýsti forsætisráðherra yfir áhyggjum sínum á þróun mála og lagði áherslu á mikilvægi þess að komið yrði í veg fyrir nýtt vopnakapphlaup í heiminum. Þar minnti hún utanríkisráðherra Bandaríkjanna á að í þjóðaröryggisstefnu Íslands er kveðið á um að Ísland verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga.

Í lok heimsóknar sinnar kynnti Pompeo sér varnartengda starfsemi Landhelgisgæslu Íslands á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir

Bæjarstjóri gagnrýnir Útlendingastofnun og búsetukost hælisleitenda að Ásbrú – Myndir
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“

Héraðsdómari um „lítilsvirðandi“ niðurstöðu MDE: „Ný teg­und óskapnaðar“