fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Björn Levi efast um að Snæbjörn hafi sagt við Ernu: „Erna, ég hata þig, mig langar að berja þig“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 11. febrúar 2019 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erna Ýr Öldudóttir, blaðamaður á Viljanum, fer yfir atvikið á föstudagsnótt sem varð til þess að Snæbjörn Brynjarsson sagði af sér þingmennsku í morgun, í pistli sem hún birti á Facebook-síðu sinni í morgun. Snæbjörn veittist að henni á skemmtistað um og staðhæfir Erna að hann hafi hótað henni ofbeldi og taldi hún sér vera ógnað. Snæbjörn var varaþingmaður Pírata þar til hann sagði af sér þingmennsku í morgun vegna þessa atviks, en fyrst var greint frá því í Fréttblaðinu. Í umræðum undir Facebook-pistli Ernu stígur fram þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, og dregur fullyrðingar Ernu í efa.

Erna skrifar segir Snæbjörn hafi hótað sér ofbeldi og hvatt hana til að mæta sér fyrir utan staðinn. Orðrétt skrifar hún:

„Ég læt nú ekki margt setja mig úr skorðum, en ég varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu aðfaranótt laugardagsins 9. febrúar sl. á Kaffibarnum, að Snæbjörn Brynjarsson, sem gegndi varaþingmennsku fyrir Pírata á Alþingi síðast í desember 2018, veittist að mér með ógnunum. Það skal tekið fram að ég þekki hann ekkert og hef aldrei talað við hann í eigin persónu.

Ég stóð á útisvæði staðarins og átti þar ánægjulegt spjall við tvo menn, þegar Snæbjörn birtist fyrir aftan þá og æpti að mér: „Erna, ég hata þig, mig langar að berja þig,” og skoraði á mig að mæta sér fyrir utan staðinn.

Ég svaraði honum engu en hinir ágætu menn, sem stóðu og spjölluðu við mig, sneru sér við, slógu um mig skjaldborg og vísuðu honum á brott, og megi þeir eiga góðar þakkir fyrir. Þeir voru alveg jafn furðu lostnir og ég, því að Snæbjörn væri nú vinur þeirra.

Ég er nokkuð skelkuð eftir þessa reynslu, en eftir að hafa jafnað mig aðeins og hugsað málið í samhengi við þá umræðu sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu á undanförnum misserum, þykir mér þetta óþægilega atvik eiga erindi við almenning, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem Snæbjörn hefur gegnt á Alþingi.

Valkvætt minni hans um ógnandi framkomu sína og orð í minn garð, ásamt kjánalegum og ótrúverðugum skýringum sem hann gefur Fréttablaðinu, gefa tilefni til að efast um dómgreind hans og hugmyndir um hlutverk fjölmiðla í lýðræðisríki. Afsökunarbeiðni Snæbjörns, skreytt þeirri aukaskýringu að hann hafi verið „í glasi” er því ekki túkallsins virði.“

 

„Ertu alveg viss?“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, dregur í efa að Snæbjörn hafi sagt: „Erna, ég hata þig, mig langar að berja þig” og skrifar hann til Ernu:

„Gæsalappir utan um þessa tilvitnun. Ertu alveg viss? Ég spyr af því að þú hefur áður farið rangt með beina tilvitnun.“

Heldur Björn Leví því fram að Erna hafi einu sinni vitnað rangt í sig. Björn Leví er gagnrýndur nokkuð fyrir þetta framlag en hann tekur þá síðar fram að hann efist ekki um atvikið í heild, eingöngu að Snæbjörn hafi sagt þetta orðrétt. Erna segir:

„Nei Björn Leví, það hef ég ekki gert. Síðan hvenær ert þú, sem ert svo annt um fólk sem verður fyrir ruddaskap og ofbeldi, farinn að efast um þeirra frásagnir?“

Sif Traustadóttir atyrðir Björn Leví fyrir þetta:

„Björn Leví Gunnarsson. Þetta er mjög hallærisleg og óviðeigandi athugasemd. Erna lendir í árás og það fyrsta sem þér dettur í hug er að rengja hana? Hvað varð um að trúa þolendum?“

Einhverjir styðja frásögn Björns Leví um að Erna hafi einu sinni vitnað ranglega í hann, þar á meðal eiginkona hans, Heiða María Sigurðardóttir. Guðmundur Brynjólfsson, rithöfundur, segir hins vegar um framkomu Snæbjarnar:

„Það er ekki sama hvort það er Jón eða séra Jón þegar ógnað er með sóðakjafti. Og ef þetta er rétt eftir honum haft, þá mærti ætla að honum þyki í lagi að vera með leiðindi svona yfirleitt – bara ekki við fólk í glasi!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt