fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Drífa Snædal: „Á Íslandi þrífst þrælahald“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 8. febrúar 2019 12:00

Drífa Snædal Mynd/ DV-Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir þrælahald þrífast á Íslandi. Vitnar hún í frétt Stöðvar 2 um aðbúnað rúmenskra verkamanna, sem fá „ömurleg“ kjör, eiga ekki fyrir nauðsynjarvörum og búa sex saman í herbergi.

Drífa amast við því að lítið hafi verið gert í þessum málum og skortur sé á eftirliti:

„Þetta er ekki einsdæmi og því miður berast örugglega ekki öll svona mál til okkar því margir fara til síns heima aftur eftir að hafa verið beittir atvinnuofbeldi. Barátta verkalýðshreyfingarinnar til margra ára gegn félagslegum undirboðum og glæpastarfsemi á vinnumarkaði er ekki úr lausu lofti gripin og það er hreint hörmulegt að ekki sé enn komin aðgerðaráætlun í mansalsmálum og skipulagt samræmt eftirlit með öflugri eftirfylgni sem hefur að markmiði að uppræta þessa brotastarfsemi með öllum tiltækum ráðum.“

Hún segir nauðsynlegt að hafa skýrt skipulag um slíka hluti, þar sem glæpamenn séu jafnan skrefi á undan:

„Þegar svona mál koma til stéttarfélaganna bráðvantar að geta haft samband við einhvern ábyrgan aðila sem samræmir aðgerðir og mætir þörfum þolenda. Það þarf að tryggja öryggi fólks, redda húsnæði, mat og stundum heilbrigðisþjónustu auk þess að skipuleggja aðgerðir yfirvalda gegn fyrirtækjum. Allt þetta þarf að gerast fljótt, örugglega og fumlaust. Í dag höfum við ekki þetta skipulag og glæpamenn sem eru svo fégráðugir að þeim er sama um grundvallar mannréttindi geta þannig vaðið uppi nánast óáreittir.“

Drífa segir það mælikvarða á siðmenntað samfélag hvernig tekið sé á slíkum málum:

„Þessi glæpafyrirtæki geta svo boðið lágt verð í framkvæmdir, jafnvel á vegum ríkis og sveitarfélaga því það er sannanlega ódýrara að fá þræla til verksins en fólk sem krefst launa. Stöðvum þetta núna! Fjármögnum aðgerðaráætlun gegn mansali, komum á keðjuábyrgð, stöðvum kennitöluflakk, styrkjum útboðsskilyrði og þéttum og samræmum eftirlit og aðgerðir gegn brotafyrirtækjum! Ef við grípum ekki til aðgerða getum við allt eins gefið út yfirlýsingu um að okkur sé sama um að hér þrífist þrælahald. Allt þetta og meira til er að finna í tillögum í tengslum við kjarasamninga gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði. En það á ekki að þurfa þrýsting sem lausir kjarasamningar bjóða uppá til að taka á grundvallar mannréttindum. Það er mælikvarði á siðmenntað samfélag hvernig við komum fram við þau sem eru í viðkvæmustu stöðunni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt