fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

Verðkönnun ASÍ gagnrýnd – Verkalýðsforystan hvött til að krefjast tollalækkana

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 7. febrúar 2019 11:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Félag atvinnurekenda (FA) gagnrýnir aðferðafræði verðlagseftirlits ASÍ í könnun sinni á samanburði matarkörfunnar á Íslandi við höfuðborgir annarra Norðurlanda. Helsta niðurstaðan var sú að matarkarfan á Íslandi sé allt að 67 prósentum dýrari en td í Helsinki í Finnlandi.

Sjá nánarSláandi niðurstöður:Sjáðu hvað matvælaverð er miklu hærra á Íslandi en hinum Norðurlöndunum

Hár tollkostnaður

Hinsvegar er ekki allt sem sýnist, segir FA.

„Í umfjöllun á vef Alþýðusambandsins er þess ekki getið, að langflestar vörurnar í matarkörfunni sem samanburðurinn byggist á, eru búvörur sem framleiddar eru á Íslandi og bera því gríðarháa tolla.“

Í sama streng tekur Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, sem furðaði sig á samsetningu matarkörfu verðlagseftirlits ASÍ á K100 í gær, en þrettán af átján vörum í körfunni voru íslenskar landbúnaðarvörur. Sagði hann að þó svo Bónus myndi selja þessar vörur á listanum án álagningar, yrði matarkarfan samt helmingi dýrari en í Helsinki. Því sé ekki um að kenna álagningu á Íslandi.

Dauðafæri

Félag atvinnurekenda kallar því eftir lækkun matartolla, sem væri skilvirk kjarabót og biðlar til verkalýðshreyfingarinnar að setja fram þá kröfu á hendur stjórnvöldum:

„Að mati Félags atvinnurekenda er nú dauðafæri í tengslum við kjaraviðræður á almennum vinnumarkaði að taka tollvernd matvöru til endurskoðunar, til hagsbóta fyrir almenning á Íslandi. Lækkun og/eða afnám tolla á matvörum er ein skilvirkasta aðgerðin sem hægt er að grípa til í því skyni að lækka verð á nauðsynjum og bæta þannig kjör launafólks. Það skiptir nefnilega ekki síður máli hversu margar krónur fara úr buddu almennings en hversu margar koma í hana. FA hvetur Alþýðusambandið og aðildarfélög þess til að gera þá kröfu á hendur stjórnvöldum, í þágu félagsmanna sinna, að dregið verði úr tollvernd á matvörum. Hin nýja könnun sambandsins er þarft innlegg í umræður um kjör launafólks.“

Að neðan má sjá töflu FA yfir tolla þá sem leggjast á vörur í matarkörfunni við innflutning:

 

Á vef FA segir:

„Rétt er að árétta að verðtollur er prósentutollur sem leggst á innkaupsverð innfluttrar vöru. Magntollur er hins vegar föst krónutala, sem leggst á hvert kíló af vörunni. Vegna tollasamnings Íslands og Evrópusambandsins leggjast engir almennir tollar á sumar vörur í körfunni. Tollfríðindi á öðrum, t.d. ostum og kjötvörum, eru háð innflutningskvótum sem eru lágt hlutfall innlendrar framleiðslu.

Ekki kemur fram í könnun ASÍ hvert upprunaland varanna í körfunni er. Það liggur hins vegar ljóst fyrir að þeir ofurtollar, sem íslensk stjórnvöld leggja á innfluttar búvörur, stuðla jafnt að því að halda uppi verði á innflutningi og innlendri framleiðslu. Í skilagrein starfshóps fjármálaráðherra, sem skilaði af sér tillögum um afnám annarra tolla en á matvörum árið 2015, sagði meðal annars: „Þegar tollur er lagður á innflutta vöru hækkar verðið sem innlendir neytendur þurfa að greiða fyrir vöruna sem aftur minnkar eftirspurn eftir henni. Í skjóli verðhækkunar geta innlendir framleiðendur sömu vöru hækkað vöruverð umfram heimsmarkaðsverð og það getur leitt af sér innlenda offramleiðslu. Tollar minnka þannig magn innflutnings og færa innlenda markaðinn nær því jafnvægi sem myndi vera ef engin alþjóðaviðskipti væru möguleg.“ Þetta á að sjálfsögðu við um matvörur eins og aðrar vörur, en engu að síður var ákveðið árið 2015 að viðhalda hinum gífurlega háu almennu tollum á innflutta matvöru.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega