fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2019
Eyjan

Hryggðarmyndin Venesúela

Egill Helgason
Sunnudaginn 27. janúar 2019 15:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hið algjöra hrun samfélagsins í Venesúela er áfall fyrir vinstri sósíalista – sem þeim gengur mörgum illa að horfast í augu við. Maður sér því haldið fram á vefsíðum þeirra að í gangi sé plott heimsvaldasinna til að fella hina ágætu sósíalistastjórn í Venesúela. En afhroðið er algjört, stjórnin í Venesúela er gjaldþrota bæði efnahagslega og hugmyndalega. Útkoman er verri en nokkuð sem var fyrir þjóðfélagsbyltinguna.

Hugo Chavez reis á sínum tíma eins og frelsari upp úr spilltu samfélagi sem þó var eitt hið ríkasta í Suður-Ameríku. Það var engin goðgá að stugga við valdastéttinni sem þá ríkti í landinu. Hún var makráð og gerspillt og mikill ójöfnuður í landinu. Chavez varð mjög vinsæll – var um tíma nánast átrúnaðargoð vinstri sósíalista í heiminum. Jeremy Corbyn var í hópi helstu áhangenda hans og virðist reyndar enn vera veikur fyrir stjórn eftirmanna hans. Venesúela býr yfir gríðarlegum olíuauði og fleiri verðmætum náttúruauðlindum. Á fyrstu árunum virtist Chavez verða talsvert ágengt í að gera Venezúela að samfélagi þar sem auðnum væri jafnar skipt.

En því miður einkenndist stjórnarfarið fremur af popúlisma en skipulagi eða fyrirhyggju. Ekkert var gert til að þróa atvinnuvegi landsins, stjórnmálahreyfing chavista lagðist fljótt í spillingu, klíkuskap og vinahygli. Til að mæta auknum útgjöldum var seilst dýpra í olíuauðinn. Þegar olíuverð fór lækkandi í heiminum var voðinn vís Þannig er Venesúela í raun frumstæðasta útgáfan af olíuríki, því sem kallast petrostate.

Chavez tók svo á því að deyja, þá voru persónutöfrar hans horfnir frá stjórnartaumunum. Útvalinn arftaki hans, Nicolas Maduro, ríkir nú yfir landi þar sem verðbólgan er meiri en maður getur ímyndað sér (meira en milljón prósent). Peningar eru verðlausir og raunar er ekki til fé til að prenta fleiri seðla. Þeim er hvort sem er bara hent.

Landið er á barmi hungursneyðar, lyf fást ekki lengur, sjúkdómar sem búið var að gera útlæga láta aftur á sér kræla. Þrjár milljónir íbúa Venesúela hafa flúið land og búist er við að fleiri milljónir fylgi í kjölfarið ef ástandið batnar ekki. Þjóðin kýs með fótunum.

Stjórnarfarið er gjörsamlega hrunið og í raun ekkert annað fyrir Maduro að gera en að hverfa frá völdum. Hann hefur hins vegar enn sem komið er stuðning hersins sem hann hefur gætt þess að fóðra vel og hæstaréttar sem er skipaður handvöldum klíkubræðrum. Þegar stjórnarandstaðan sigraði í þingkosningum í fyrra gerði Maduro sér lítið fyrir og lýsti þingið valdalaust, setti svo upp annað þing, stjórnlagaþing svokallað, því til höfuðs. En meðan herinn styður Maduro getur hann hangið á völdunum.

 

 

Leikritið hélt áfram þegar hann efndi hann til forsetakosninga sem voru algjörlega með eindæmum. Ekki einungis var kosningasvindl regla fremur en undantekning, heldur var fulltrúum stjórnarandstöðu meinað að bjóða sig fram. Maduro sigraði vissulega, en eitt var þó ekki hægt að falsa; það var algjört hrun í kosningaþátttöku, enda hunsuðu andstæðingar hans kosningarnar upp til hópa.

Staðan er ekki einföld nú þegar ungur maður, Juan Guaido, lýsir sig forseta landsins til bráðabirgða. Tilkall Guaidos er fólgið í því að hann er forseti þingsins sem var að sönnu lýðræðislega kosið en Maduro gerði valdalaust. Guaido segist ætla að boða til kosninga – það er líka krafa til dæmis Evrópusambandsríkja sem lýstu því yfir í gær að Maduro hefði átta daga til að verða við því.

En Maduro hefur her og öryggissveitir á bak við sig, enn sem komið er. Hann hefur áður sýnt að hann skirrist ekki við að beita ofbeldi gegn mótmælendum og stjórnarandstæðingum. Fjöldi manns hefur fallið í mótmælaaðgerðum í Venezúela síðustu misserin. Landið er eitt hið háskalegasta í veröldinni hvað varðar líf og limi óbreyttra borgara. En Maduro hefur stuðning frá Rússlandi og Kína – undir því flaggi að í raun standi hann í baráttu við heimsvaldasinnuð öfl undir forystu Bandaríkjanna.

 

 

Það er þægilegur málstaður til að skýla sér bak við og hentar ágætlega þeim vinstri mönnum sem vilja enn trúa því að Venezúela hafi upp á eitthvað að bjóða í líkingu við sósíalisma. Bandaríkin verða þannig skálkaskjól Maduros – það verður að segjast eins og er að stórkarlalegar og heimskulegar yfirlýsingar Trumps forseta og hans manna spila í raun upp í hendurnar á einræðisherranum. Washingtonstjórninni er varla treystandi fyrir nokkrum hlut eins og sakir standa, en það er algjör nauðsyn að Bandaríkin sýni stillingu. Skelfing er að heyra af órum Trumps um að gera innrás í Venesúela.

Staðreyndin er sú að flestar ríkisstjórnir Rómönsku-Ameríku vilja Maduro frá völdum. Ástandið í Venesúela er ekki bara til skammar heldur veldur það óstöðugleika í álfunni. Lýðræðisríki Evrópu eru á sama máli og sérstaka athygli vekur orðsendingin frá Pedro Sanchez, sósíalistanum sem nú er forsætisráðherra Spánar. Krafan er frjálsar kosningar, svo einfalt er það:

„Ríkisstjórn Spánar gefur Nicolas Maduro átta daga til að boða til frjálsra, opinna og lýðræðislegra kosninga. Gerist það ekki mun Spánn viðurkenna að Juan Guiado sé forseti sem hafi umboð til að efna til þessara kosninga.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

OR var með ólöglega álagningu

OR var með ólöglega álagningu
Eyjan
Í gær

Mynd dagsins: Cyti hall is closed – Sérð þú allar villurnar ? Þær eru fleiri en þú heldur…

Mynd dagsins: Cyti hall is closed – Sérð þú allar villurnar ? Þær eru fleiri en þú heldur…
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir almenning taka sökina fyrir mengun stóriðju: „Hér starfa erlend fyrirtæki sem brenna yfir 1000 tonnum af kolum á dag“

Segir almenning taka sökina fyrir mengun stóriðju: „Hér starfa erlend fyrirtæki sem brenna yfir 1000 tonnum af kolum á dag“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Össur um orkupakkann: Sigmundur, Miðflokksmenn og Frosti ruddu brautina

Össur um orkupakkann: Sigmundur, Miðflokksmenn og Frosti ruddu brautina