fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Öll veröldin er til reiðu fyrir hugarflug þitt

Egill Helgason
Föstudaginn 18. janúar 2019 21:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í kvæðum Mary Oliver er stilling og ró og tenging við heiminn og náttúruna sem okkur vantar svo sárlega á þessum einkennilega órólegu tímum þegar fólk á svo margt, getur leyft sér svo margt, en finnur enga miðju, er eins og í sífelldu flökti og sífelldum samanburði á samskiptamiðlum, alltaf að koma sér upp skoðunum og dómum samstundis, og velta fyrir sér hvernig það birtist öðrum um leið og það finnur ekki sátt innanbrjósts.

Á þessum tíma segja kvæði Mary Oliver okkur eitthvað sem við finnum að við þurfum á að halda en sleppur undan okkur, líkt og skáldlegar núvitundaræfingar.

Mary Oliver var eitt höfuðskáld Bandaríkjanna. Hún fæddist 1935 og andaðist í gær. Hún var margverðlaunuð og bækur hennar seldust í stærri upplögum en títt er um ljóðabækur. Hér eru tvö kvæði eftir hana sem ég tek upp af netinu í kvöld þar sem lesendur eru að minnast hennar. Hið fyrra birti Soffía Auður Birgisdóttir, þetta er þýðing eftir hana sjálfa, hið síðara birti Ragnar Helgi Ólafsson, ég held hann hafi þýtt kvæðið.

 

VILLIGÆSIR

Þú þarft ekki að haga þér vel.
Þú þarft ekki að skríða á hnjánum
hundrað mílur yfir eyðimörkina í iðrun.
Þú þarft aðeins að leyfa hina mjúka dýri líkama þíns
að njóta þess sem það nýtur.
Segðu mér frá örvæntingu þinni, og ég skal segja þér frá minni.
Á meðan veltist veröldin.
Á meðan líður sólin og regndroparnir tæru
yfir landslagið,
yfir slétturnar og djúprætt trén,
fjöllin og fljótin.
Á meðan fara villigæsir, hátt um heiðbláan himin,
á heimleið.
Það skiptir ekki máli hver þú ert, eða hversu einmana,
öll veröldin er til reiðu fyrir hugarflug þitt,
kallar á þig líkt og villigæsirnar, hrjúf og spennandi
aftur og aftur og markar þér stað
í heildinni.

 

VIÐ SVARTVATNASKÓG

Sjáðu, trén 
þau breyta
búk sínum
í súlur

úr ljósi,
þau gefa frá sér ilm
sem minnir á kanil
og sátt,

þessir löngu endar
á rófum kattanna
ryðjast og fljóta burt
yfir bláar axlir

tjarnanna,
og allar tjarnir
hvert sem nafn 
þeirra er, eru nú

nafnlausar.
Hvert ár
allt 
sem ég hef lært

á lífsgöngu minni
leiðir mig aftur hingað: þessir eldar 
og þetta svarta fljót missisins
hinn bakki árinnar

er bjargræði,
merking þess 
verður okkur öllum hulin. 
Til að lifa í þessum heimi

þarft þú að 
kunna þrennt:
elska það sem er dauðlegt;
halda því

þétt upp að beinum þínum 
í þeirri vissu að þitt eigið líf veltur þar á;
og, svo þegar tími kemur til að sleppa,
að sleppa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt