fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Logi fyrirgefur Ágústi Ólafi en forðast svör um traust til þingmannsins: „Þetta er í höndunum á honum“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 18. janúar 2019 10:45

Logi og Ágúst Ólafur á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum í sumar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, er í ítarlegu viðtali í Mannlífi þar sem hann fjallar um feril sinn í stjórnmálum og hitamálin sem upp hafa komið. Samfylkingin hefur ekki sloppið við hneykslismál í tíð Loga og hæst ber að nefna mál Ágúst Ólafar Ágústssonar, sem tók sér launalaust frí frá þingstörfum eftir að hann var áminntur af trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar fyrir kynferðislega áreitni gegn blaðamanni Kjarnans.

Logi segist búast við því að Ágúst snúi aftur til starfa í febrúar, en vill ekki svara því hvort hann njóti trausts. Hann virðist þó vera tilbúinn að fyrirgefa:

„Ég get ekki talað fyrir hvern einasta félagsmann í Samfylkingunni en ég að minnsta kosti trúi því að fólk, þó að því verði jafnalvarlega á og geti hrasað sem er nú einu sinni saga mannsins frá örófi alda, eigi að geta fengið fyrirgefningu ef það raunverulega iðrast og leitar leiða til að bæta ráð sitt. Það hefur hann verið að gera þannig að þetta er í höndunum á honum.“

Peningunum ekki öllum illa varið í braggann

Logi talar einnig um braggamálið, sem reynst hefur Degi B. Eggertssyni borgarstjóra erfitt um vik. Loga þykir braggamálið komið út fyrir það sem eðlilegt geti talist og telur peningunum, alls 425 milljónunum, hreint ekki svo illa varið:

„Það koma upp vísbendingar um mikla framúrkeyrslu og ekki ætla ég að afsaka það. Í kjölfarið á því kemur út skýrsla innri endurskoðunar, þar finnst mér ábyrgðarkeðjan liggja nokkuð ljós fyrir. Það er sjálfsagt mál að fjalla um þetta mál og það er ekki léttvægt þegar farið er illa með almannafé. Mér finnst þetta hins vegar vera komið töluvert langt út fyrir það sem eðlilegt er. Þar með er ég ekki að segja að öllum þessum peningum hafi verið illa varið því þetta er að mörgu leyti merkilegt hús og hluti af okkar byggingasögu.“

Draumaríkisstjórn

Logi telur að Samfylkingin geti aftur orðið mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn, líkt og markmiðið var með stofnun flokksins. Hann gefur lítið fyrir tveggja turna tal, líkt og orðræðan var á árunum fyrir kosningarnar 2016, þegar fylgið nánast þurrkaðist út:

„Ég held að Samfylkingin sé í dag mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn, við erum enginn turn enda geta hús verið tilkomumikil og falleg þótt þau séu lágreistari. Samfylkingin er í hægum vexti og ég held að það sé betra að þetta gerist hægt og rólega. Ég er sannfærður um að við eigum meira inni. Ég held að Samfylkingin verði komin á þann stað sem hún á að vera þegar hún er komin í góða ríkisstjórn sem byggir á málefnaáherslum jafnaðarmanna. Ég er viss um að við komumst þangað en hvenær veit ég ekki.“

Þá nefnir Logi sína draumaríkisstjórn, sem verður að teljast nokkuð óvenjulegt hjá formanni stjórnmálaflokks í stjórnarandstöðu:

„Ég held að við gætum náð mjög mörgum skemmtilegum og góðum málum á dagskrá ef við myndum mynda ríkisstjórn frá miðju til vinstri þar sem Samfylkingin væri kjölfestuflokkur og við hefðum svo Viðreisn og Pírata öðrum megin við okkur og Vinstri græn hinum megin við okkur.“

Logi nefnir þó á öðrum stað í viðtalinu að kannski sé lengra á milli Samfylkingarinnar og VG en hann hefði haldið og nefnir þau hitamál sem dregið hefur í sundur með flokkunum, eins og kjaramálin, skattkerfið, útgerðina, landbúnaðinn og upptöku nýs gjaldmiðils:

„Kannski skilur meira á milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna en ég í einfeldni minni hélt. Kannski eru þessir flokkar eðlisólíkir.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum
Fallinn strompur

Mest lesið

Ekki missa af