fbpx
Laugardagur 23.mars 2019
Eyjan

Staðfest að tölvupóstum var eytt í braggamálinu – „Þú skuldar mér afsökunarbeiðni“ segir Eyþór

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 17. janúar 2019 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Komið er í ljós í eitt skipti fyrir öll, að tölvupóstum var eytt í braggamálinu, hafi einhver efast um það hingð til. Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, segir frá því á Facebooksíðu sinni í gær að samkvæmt nýjum upplýsingum frá innri endurskoðanda sem henni hafi borist, komi í ljós að tölvupóstum hafi verið eytt í braggamálinu. Dóra Björt hefur margoft haldið hinu gagnstæða fram, að tölvupóstum hafi ekki verið eytt og vísar jafnan til braggaskýrslu innri endurskoðunar, sem er máske óþarflega varlega orðuð þegar kemur að þessum þætti málsins, en þó nokkuð afdráttarlaus flestum þeim sem hana les.

Dóra segir:

„Undanfarna daga höfum við í borgarstjórnarflokki Pírata verið að afla upplýsinga frá Innri endurskoðun um hvernig tölvupóstamálum hefur verið háttað í kringum braggamálið. Við vildum fá frekari upplýsingar um hvort mögulega væri búið að eyða tölvupóstum tengdum málinu, þó það komi ekki skýrt fram í skýrslunni, og hvort við gætum gert eitthvað til að endurheimta þá ef svo væri. Í dag barst tölvupóstur frá Innri endurskoðanda þess efnis að í úthólf fyrrverandi skrifstofustjóra og úthólf og innhólf verkefnastjórans hafi vantað tölvupósta frá fyrri hluta verktímabilsins. Það gæti hafa verið hluti af eðlilegri tiltekt vegna takmarkaðrar stærðar pósthólfanna, en óháð því vil ég í ljósi nýrra upplýsinga gera það sem ég get til þess að þessir tölvupóstar verði endurheimtir sé það mögulegt. Af þessu tilefni sendu oddvitar meirihlutans sameiginlegan tölvupóst til Innri endurskoðanda og báðu hann um að halda utan um endurheimtingu tölvupóstanna. Innri endurskoðandi hefur hafist handa við vinnu við að skoða möguleikana og mun skila niðurstöðu eins fljótt og hægt er.“

Tiltekt og skortur á gögnum = Eyðing ?

Dóra Björt þrætti um málið við Eyþór Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í Silfrinu á RÚV á sunnudag, þar sem hún hélt því fram að tölvupóstum hefði ekki verið eytt. Í skýrslunni kemur skýrt fram að í tölvupósthólfum þeirra sem um ræðir, hafi farið fram „tiltekt“:

„Þar sem farið hefur fram tiltekt í þeim á tímabilinu janúar 2014 til september 2018 getur Innri endurskoðun ekki sannreynt hvort verkefnastjóri SEA og fyrrverandi skrifstofustjóri SEA hafi fært tölvupósta sem varða framkvæmdir við Nauthólsveg 100 í skjalakerfi borgarinnar eins og þeim bar.“

Þá er einnig sagt frá því í skýrslunni að upplýsingagjöf hafi verið ábótavant, þvert á reglur og engar skriflegar heimildir liggi fyrir, þar með talið tölvupóstar. Í skýrslunni segir orðrétt:

„Í tölvupósthólfum skrifstofustjóra og verkefnastjóra finnast engin samskipti þeirra á milli varðandi framkvæmdirnar að Nauthólsvegi 100 og vekur það raunar nokkra furðu því þar voru tölvupóstar varðandi fjölda annarra verkefna. Örfáir tölvupóstar varðandi Nauthólsveg 100 fundust en þá hafði Innri endurskoðun þegar fengið í hendur og voru þeir allir úr samskiptum við aðra aðila.“

Þarna má nokkuð augljóslega lesa milli línanna, að grunur leikur á að tölvupóstum um Nauthólsveg 100 hafi verið eytt, eða með öðrum orðum, framin „tiltekt.“

Krefst afsökunarbeiðni

Eyþór Arnalds skrifar athugasemd við færslu Dóru í gær, hvar hann mærir hana fyrir að „gangast við sannleikanum,“ en…:

„Takk fyrir að gangast við sannleikanum Dóra. Það er gott. En þú skuldar mér afsökunarbeiðni vegna ummæla í Silfrinu, greinar í Fréttablaðinu og ræðu í borgarstjórn í gær þar sem þú sakaðir mig – kollega þinn í borgarstjórn – um rangfærslur í þessu máli. Það sem ég sagði hefur nú verið endanlega staðfest af innri endurskoðanda.“

Dóra segist á móti aðeins hafa tjáð sig útfrá þeim upplýsingum sem lágu til grundvallar á hverjum tíma og vísar í braggaskýrsluna og svona karpa þau í dágóða stund, um orðhengilshátt og orðalag í skýrslunni, meðan aðrir benda Dóru Björt á að skýrslan hafi verið nokkuð skýr varðandi það að tölvupóstum hafi verið eytt, allir hafi skilið hana þannig, nema Dóra Björt.

Af því tilefni tekur Vigdís Hauksdóttir til orðs, oddviti Miðflokksins í Reykjavík og hefur eftirfarandi til málanna að leggja:

„Þú hlýtur að vera að djóka í okkur Dóra Björt Guðjónsdóttir eins og krakkarnir segja !!!“

Þingmaður skerst í leikinn

Víkur þá sögunni að Smára McCarthy, þingmanni Pírata, sem ávítar Eyþór fyrir sína framgöng og kallar Eyþór „hrokagikk“:

„Til hamingju með að vera nægilega mikill hrokagikkur til að finnast þú eiga rétt á afsökunarbeiðni fyrir að hafa talað út frá þekktum staðreyndum á hverjum tíma. Vandinn við þetta mál allt er tvennt. Annars vegar er það að mikill misbrestur varð í stjórn borgarinnar á stigi langt fyrir neðan pólitíska hluta stjórnkerfisins, þar sem er að koma betur og betur í ljós að einhverjar vafasamar ákvarðanir voru teknar á óásættanlegan hátt. Hins vegar er að þú og þitt fólk virðast hafa miklu meiri áhuga á því að mala pólitískt gull úr málinu en að komast til botns í því. Þótt ég viti vissulega hvort er glæpsamlegra, þá á ég sífellt erfiðara með að meta hvort sé aumkunarverðara.“

Rangar upplýsingar Reykjavíkurborgar

Dóra Björt vísar einnig til fréttar DV máli sínu til stuðnings, þar sem fram kom að einhverjur tölvupóstum Hrólfs Jónssonar, sem er talinn potturinn og pannan í braggamálinu, hafi verið eytt af Reykjavíkurborg. Segir hún þá frétt hafa verið ranga og þannig hafi misskilningurinn farið af stað, þar sem hún taldi Eyþór hafa verið að vitna í þá frétt sem staðreynd.

Blaðamaður DV bendir Dóru Björt á í athugasemdarkerfinu að þessar upplýsingar hafi verið staðfestar af upplýsingastjóra Reykjavíkurborgar og fréttin byggð á þeim upplýsingum:

„Það getur vel verið en þetta hefur verið margleiðrétt en samt héldu sumir fulltrúar minnihlutans áfram að vitna í þetta,“

svarar Dóra. Nú er loksins komið endanlega í ljós, að þetta reyndist rangt hjá Dóru, en frétt DV reyndist rétt.

Tölvupóstar borgarstjóra

Þá er vert að geta þess, að þegar borgarstjóri var spurður af DV hvort hans tölvupóstar hefðu verið skoðaðir af innri endurskoðanda, svaraði hann því játandi. Hinsvegar staðfesti innri endurskoðun það við Eyjuna, að það væri ekki rétt, aðeins hefðu tölvupóstar Hrólfs og verkefnisstjóra skrifstofu eigna og atvinnuþróunar (SEA), verið skoðaðir.

Sjá nánarBraggamálið:Svör borgarstjóra á skjön við skýrslu Innra eftirlits Reykjavíkurborgar

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Eyjan
Fyrir 13 klukkutímum
Fallinn strompur

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 18 klukkutímum

Silja Bára nýr formaður Jafnréttisráðs

Silja Bára nýr formaður Jafnréttisráðs
Eyjan
Fyrir 20 klukkutímum

Viðræður hafnar á nýjan leik á milli WOW air og Icelandair – Öll sund að lokast hjá WOW air

Viðræður hafnar á nýjan leik á milli WOW air og Icelandair – Öll sund að lokast hjá WOW air
Eyjan
Í gær

Bændur forviða á sýklalyfjaónæmi í íslensku sauðfé:  „Eitthvað sem maður gerði ekki ráð fyrir“

Bændur forviða á sýklalyfjaónæmi í íslensku sauðfé:  „Eitthvað sem maður gerði ekki ráð fyrir“
Eyjan
Í gær

Vill að hæstu laun verði aldrei hærri en þreföld lágmarkslaun

Vill að hæstu laun verði aldrei hærri en þreföld lágmarkslaun
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Hin fallvalta gæfa í verslunarrekstri á Laugaveginum – tilraun til að sjá deiluna um umferðarmálin frá báðum hliðum

Hin fallvalta gæfa í verslunarrekstri á Laugaveginum – tilraun til að sjá deiluna um umferðarmálin frá báðum hliðum
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Prentmet kaupir prentsmiðjuna Odda

Prentmet kaupir prentsmiðjuna Odda