fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

Deila um sölu bankanna: „Það fyrsta sem fullt af fólki hugsar: „Jæja, hvernig græðir Engeyjarættin á þessu?“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 15. janúar 2019 13:00

Brynjar Níelsson og Smári McCarthy. Samsett mynd/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Að selja eða selja ekki bankanna, það er spurningin sem brennur á margra vörum þessa daganna. Hvítbók ríkisstjórnarinnar um framtíðarsýn fjármálakerfisins hvetur til sölu og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, vonast til að söluferli geti hafist á þessu kjörtímabili. Smára McCarthy, þingmanni Pírata, finnst ótímabært að íhuga einkavæðingu bankanna á meðan Brynjar Níelsson telur mikilvægt fyrir ríkið að losna undan áhættunni sem eignarhaldið leiði af sér. Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði og sérfræðingur í vinnumarkaðs- og lífskjararannsóknum hjá Eflingu , segir hagsmuni þjóðarinnar eiga að vera í fyrirrúmi en langt sé í land í þroska- og siðferðisstigi íslenskra stjórmála áður en bankarnir verði einkavæddir.

Íslandsbanki er alfarið og Landsbankinn ríflega 98 prósent eru í eigu ríkisins. Hvítbók ríkisstjórnarinnar um framtíðarsýn fjármálakerfisins, hvetur stjórnvöld til að kanna möguleika á sölu Íslandsbanka, að fullu, og Landsbankans, að hluta.

„Til lengri tíma litið hef ég ávallt verið þeirrar skoðunar að ríkið verði að draga sig úr þessu umfangsmikla eignarhaldi á fjármálafyrirtækjum, þó ekki væri nema vegna þeirrar áhættu sem í því fellst,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á RÚV síðastliðinn sunnudag. Bjarni segir varhugavert að treysta á áframhaldandi arðbærni bankanna en ef það væri hægt myndi það endurspeglast í söluandvirði þeirra.  Sagðist hann jafnframt vonast til að hægt verði að hefja söluferlið, með markvissum skrefum, á yfirstandandi kjörtímabili.

Verður að fara mjög varlega

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins var ásamt Smára McCarthy, þingmanni Pírata, í Kastljósi gærdagsins þar sem þeir ræddu um mögulega sölu á bönkum ríkisins, en báðir eiga þeir sæti í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Smári segir Pírata ekki leggjast alfarið gegn sölu bankanna, hins vegar verði að fara mjög varlega og afgreiða málið yfir lengri tíma fremur en skemmri og að skilyrðum uppfylltum. „Bankasýslan er með fjögur skilyrði sem þeir setja fyrir því að fara einu sinni að hugsa um að selja einhvern hluta bankanna og þessi fjögur skilyrði hafa ekki verið uppfyllt.“ Skilyrðin lúta meðal annars að stöðugleika, fjárfestum og verði. „Ég myndi segja að ef við erum að fara að tala um að selja bankanna, sérstaklega tíu árum eftir hrun, þá viljum við auðvitað að verðmatið verði, í það minnsta, jafngott og það sem við lögðum í bankana til að endurreisa þá eftir hrunið.“

Skoða verði möguleika á sölu

Brynjar telur aftur á móti skynsamlegt að ráðast í sölu bankanna. „Það er auðvitað áhætta að eiga þetta. Þetta er ansi stór hluti af eignasafni ríkisins, kannski nálægt 16 prósentum. Þetta er áhætturekstur og ég held að í framtíðinni verði ekki áfram slíkur hagnaður  eins og hefur verið undanfarið, við þær sérstöku aðstæður.“

Brynjar telur að skoða verði möguleika á sölu, til að tryggja heilbrigt eignarhald bankanna til framtíðar. Hann bendir á að hérlendis fyrir aldamótin hafi bankarnir einnig verið í ríkiseigu og það tímabil hafi einkennst af stöðnun, spillingu og fyrirgreiðslu. Finnst honum jafnframt athugavert að ríkið bæði eigi, og hafi eftirlit, með tveimur stærstu fjármálafyrirtækjum landsins og telur það aðeins tímaspursmál hvenær pólitík fari að hafa óeðlileg áhrif á bankastarfsemi. „Eins og gerðist í bankakerfinu hér áður, það var algjör stöðnun. Það gerðist ekki neitt, það var bara pólitík. Pólitíkin hafði óeðlileg áhrif á banka í ríkiseigu á sínum tíma og það gerist auðvitað með tíð og tíma ef við ætlum að eiga þetta áfram að fullu.“

Segja má að Brynjar og Smári séu nokkurn veginn sammála um að kanna möguleika á sölu bankanna, en Smári telur þó slíkar hugmyndir vera ótímabærar. Mikilvægt sé að byggja upp traust almennings gagnvart bönkunum áður en farið verði í einkavæðingu. Í nýlegri könnun Gallup kom fram að meirihluti landsmanna vantreystir bönkunum og 62 prósent landsmanna eru hlynntir ríkiseign bankanna:

„Ef við ætlum að reyna að búa til umhverfi þar sem fólk getur treyst bönkunum, þá þarf í fyrsta lagi að bankarnir sjálfir séu búnir að sýna fram á traust. Þeir geta það ekki ef við hlaupum í annað einkavæðingarferli vegna þess að það er bara staðreynd að í hvert skipti sem að Bjarni Benediktsson, sér í lagi, kemur fram og segir: „Hey, við skulum einkavæða eitthvað,“ þá er það fyrsta sem fullt af fólki, heima í stofu, hugsar: „Jæja, hvernig græðir Engeyjarættin á þessu?“,“ segir Smári.

Banka þarf að hemja

Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði og sérfræðingur í vinnumarkaðs- og lífskjararannsóknum hjá Eflingu, segir átakanlegt að hlusta á Brynjar í Kastljósinu.  Segir hann í færslu á Eyjunni að rök Brynjars um áhætturekstur á bönkunum vera hlægileg þar sem ríkið hefði átt Landsbankann í 117 ár sem hafi gengið ljómandi vel og Íslendingar orðið ein af ríkustu þjóðum heims. Ekki nóg með það heldur hefðu þeir einkaaðilar sem tóku við bankanum frá ríkinu rekið hann í þrot á aðeins fimm árum.

„Bankar eru slæmir og þá þarf að hemja með reglum og virku aðhaldi svo þeir þjóni samfélaginu almennilega. Mikið vantar enn uppá að. Það eina góða við Landsbankann og Íslandsbanka er að þeir eru í ríkiseigu – arðurinn fer til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar. Að fenginni reynslu á ekki að koma til greina að einkavæða bankana að neinu leyti fyrr en stjórnmálalífið er komið á miklu hærra þroska- og siðferðisstig en nú er. Langan tíma mun taka að komast á það stig.  Hagsmunir þjóðarinnar eiga að vera í fyrirrúmi – ekki hagsmunir fámennrar yfirstéttar sem vill fá að blóðmjólka þjóðina og auðlindir hennar í eigin þágu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“

Trúnaði aflétt af leynilegu minnisblaði um meint spillingarmál – „Hlýtur að teljast vafasamt“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Notum tímann núna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Notum tímann núna