fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Ólafur skýtur niður umbótahugmyndir Lífar: „Þetta hefur ekkert með hraðann að gera“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Fimmtudaginn 10. janúar 2019 13:23

Ólafur Guðmundsson og Líf Magneudóttir. Samsett mynd/DV/FÍB

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sérfræðingur í bílaumferð segir það muni bara auka vandann að lækka hámarkshraða á Hringbraut. Ólafur Guðmundsson, sem starfaði lengi sem tæknistjóri EuroRAP og hefur verið einn ötulasti baráttumaður fyrir bættu umferðaröryggi, mætti í Bítið á Bylgjunni í morgun þar sem hann ræddi um umferðaröryggi við Hringbraut. Miklar umræður hafa skapast um öryggi gangandi vegfarenda þar í kjölfar þess að ekið var á stúlku í gær. Boðað var til mótmæla og íbúafundar en þar var brugðist hratt við og í morgun var gangbrautavörður mættur til starfa.

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG, sagði í gær að það þurfi að draga úr umferðarhraða.

„Í mínum huga á að draga úr umferðarhraða á Hringbraut, að minnsta kosti hluta hennar. Á meðan unnið er að úrbótum við hana þá verðum við að gera allt til að tryggja að ekki verði fleiri slys á börnum sem fara yfir á ljósum á leið í skólann. Eitt slys er einu slysi of mikið,“ sagði Líf á Facebook í gær.

Sjá einnig: Líf boðar róttækar umbætur: „Í mínum huga á að draga úr umferðarhraða á Hringbraut“

Líf ítrekaði í dag að hún telji Hringbrautinni best borgið með lækkuðum umferðarhraða.„Raunveruleikinn við þungar umferðargötur og stofnbrautir er sá að fólk keyrir of hratt og flýtir sér um of yfir ljósin,“ sagði Líf en minnist ekki á lausnir á borð við göngubrýr eða undirgöng.

Ólafur er á öndverðum meiði. Með því að draga úr umferðarhraða á Hringbraut væri aðeins opnað fyrir önnur vandamál.  Skoða þurfi heildarmyndina og hugsa í langtímalausnum, en ekki til bráðabirgða:

„Vandamálið er ekki hraðinn, frekar umferðarmagnið og svo er það bara ljósastýringin. Ljósastýringar eru með þann galla að ef það klikkar eitthvað í þeim þá verða óhöpp. Þetta hefur ekkert með hraðann að gera.“

Ráðast þurfi á rót vandans:

„Við eigum bara að ráðast að rót vandans sem er það að við eigum að setja brýr eða undirgöng þarna og leysa þetta,“

segir Ólafur og bætir við að með því að lækka hámarkshraða Hringbrautar úr 50 í 40 þá yrðu vandamálin aðeins fleiri. „Við gleymum því kannski að Hringbrautin er ekki venjuleg gata heldur þjóðbraut, þjóðvegurinn til Seltjarnarness. Ef við þrengjum meira að Hringbrautinni eða lækkum hraðann á henni þá fáum við bara önnur vandamál í staðinn sem varða teppun, meiri mengun og að umferðin fari að leita út í íbúðarhverfin í staðinn.“

Hann reiknar með því að við lækkun umferðarhraða muni mengun aukast um 900 tonn af CO2 á ári, að lágmarki. Ólafur segir:

„Síðan eigum við ekki yfir höfuð að vera með gönguþveranir, það er að segja á ljósum eða sebrabrautum eða öðru slíku, yfir tvöfaldar umferðarmiklar götur. Þetta er einn af þeim stöðum sem við eigum að laga. Við gerðum þetta á Miklubrautinni á sínum tíma. Þar voru settar göngubrýr og svona slys hurfu þó að hraðinn ryki upp úr öllu valdi, hann er núna 80. Líka í Ártúnsbrekkunni, aldrei er keyrt á gangandi mann þar vegna þess að við erum búnir að leysa þetta verkfræðilega með því að hafa annað hvort brýr eða undirgöng. Þetta er það sem er gert erlendis og við þurfum að koma okkur í þennan fasa.“

Ólafur segir að tillaga um göngubrú yfir Hringbraut hafi margoft verið lögð fram á fundum borgarstjórnar tillagan alltaf felld. „Kjartan Magnússon borgarfulltrúi er margbúinn að koma með tillögur um þetta og þetta er fellt jafnharðan.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Eyjan
Fyrir 6 klukkutímum
Fallinn strompur

Mest lesið

Ekki missa af