fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Nei, það er ekki ólíft í Miðbænum – en við þurfum að skilja hvernig hann breytist

Egill Helgason
Fimmtudaginn 10. janúar 2019 12:41

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru gríðarlega heitar tilfinningar sem brjótast út þegar rætt er um Miðbæinn í Reykjavík. Jú, þetta er auðvitað eina raunverulega miðborgarumhverfið á Íslandi. Við höfum flest einhverjar skoðanir á því. Svo tengist þetta auðvitað heitasta málinu á Íslandi síðustu árin – hinum gríðarlega vexti ferðamennskunnar.

Grein þar sem lífinu við Laugaveg er fundið allt til foráttu hefur farið víða. Þar er meðal annars fárast yfir bílastæðum og utangarðsfólki – og verður að segja eins og er að ekki er það sérstaklega málefnalegt. Sum vandamálin sem þarna eru nefnd eru vissulega til staðar, en skýringarnar eru býsna margþættar.

Í fyrsta lagi er það fásinna að skortur sé á bílastæðum í Miðbænum. Sem íbúi þar veit ég að nær alltaf er hægt að finna stæði og oftast er það býsna auðvelt. Hvergi í alvöru miðborgum getur maður búist við að hægt sé að leggja bifreiðum beint framan við verslanir. Og það er ekki einu sinni hægt í Kringlunni eða Smáralind. Yfirleitt er hægt að finna bílastæði í mjög þokkalegri göngufjarlægð frá verslunum eða veitingahúsum. Í bílastæðahúsum er sjaldnast skortur á stæðum – þeim hefur reyndar fjölgað ört.

Í greininni er kvartað undan utangarðsfólki. Jú, utangarðsfólk setur hvarvetna svip sinn á borgir. Sums staðar finnst manni keyra um þverbak í þessu efni, eins og til dæmis í Bandaríkjunum. Vandamálið er vissulega til staðar í Reykjavík, en maður verður ekki var við að það hafi versnað.

Raunar er það svo að svæði í Miðbænum sem voru hálfgerð slömm til skamms tíma hafa fengið mikla andlitslyftingu. Hlemmurinn er gerbreyttur og Hverfisgatan er í miklu ummyndunarferli. Það er gaman að fylgjast með uppbyggingunni þar sem áður var frekar eymdarlegt ástand, hvarvetna sprettur upp ný starfsemi. Má jafnvel segja að þarna sé að verða sú endurnýjun sem á ensku er kölluð gentrification – íslenskt orð vantar.

En við skulum heldur ekki gleyma því að utangarðsfólk hefur rétt á að lifa í borgum – alveg eins og við hin sem eigum borgaralegri tilveru.

Verslun sem er ætluð fyrir innlent fólk, íbúa landsins, á vissulega erfitt uppdráttar í Miðbænum. Á því eru ýmsar skýringar – skortur á bílastæðum og utangarðsfólk eru einna sístar. Miðbærinn hefur óhjákvæmilega orðið mjög innstilltur á ferðamennsku, ágangur ferðaþjónustunnar er hvergi meiri. Öðruvísi gat það ekki farið í hinni miklu túristasprengingu sem hefur orðið á fáum árum – ferðamenn safnast í miðborgir, við vitum það sjálf af ferðalögum okkar. Innlend verslun og ferðamannaverslun þrífast ekki sérlega vel saman. Íslendingar eru ekki að fara að kaupa lunda á Laugaveginum, túristarnir tæplega flíkur aðrar en útivistarfatnað. Sums staðar hafa veitingahús svo alveg tekið völdin – í Lækjargötu er samfella af veitingahúsum nær alla götuna.

Á móti kemur að miðborgarsvæðið hefur stækkað mikið. Við erum ekki lengur að tala bara um Laugaveg, Austurstræti og Aðalstræti, heldur svæðið alveg upp í Borgartún og vestur með höfninni, út á Granda. Það er mikil breyting.

Netverslun hefur sitt að segja. Maður les endalausar frásagnir um uppdráttarsýki í verslun í Bandaríkjunum og Bretlandi. Stórverslanir fara á hausinn, verslunarkringlur standa auðar, samsetning aðalgatna breytist – verslun á aðalgötum (High Street) í Bretlandi hefur að jafnaði minnkað um 3 prósent á ári um nokkurt árabil. Við Íslendingar erum náttúrlega dálítið á eftir, höfum stundað mikið af okkar verslun á ferðalögum erlendis, það er ekki fyrr en nýlega að hræódýrar fatabúðir eins og H&M og Lindex opnuðu hérlendis.

Miðbærinn er vissulega í viðkvæmri stöðu. Innlenda verslunin er þar eins og út úr kú og það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að selja ferðamönnum marga lunda eða flíspeysur. Hafnartorg opnar brátt með miklu verslunarrými og gríðarlegum fjölda bílastæða. Það er sumpart tímaskekkja, en hægt verður að ganga bent úr bílastæðunum upp í þessa opnu verslunarkringlu. Hermt er að einhverjar verslunareigendur hyggi á flutning af Laugaveginum niður á Hafnartorg.

Leiguverðið spilar auðvitað þarna inn í. Eftir því sem maður hefur heyrt er það alltof hátt á Laugaveginum og þar í kring. Athygli vekur að fjöldi verslunarrýma er auður á svæði þar sem maður skyldi ætla að væri barist um þau – á mótum Laugavegs og Skólavörðstígs. Þarna neðst á þessum tveimur gamalgrónu verslunargötum er áberandi eyðilegt.

Það vantar ekki fólk í Miðbæinn, hann er býsna líflegur, en breytingin er sú að stór hluti eru útlendingar. Það er ekkert ofmælt að Íslendingar eigi takmarkað erindi í bæinn – fólk fer allavega ekki mikið þangað eftir lífsnauðsynjum og dags daglegri þjónustu. Samt er að verða til þar gríðarlega mikið af nýju verslunarrými. Hugsanlega væri ráð að borgarstjórnin færi sér hægt í að gera stórbreytingar eins og að loka fyrir bílaumferð allt árið á Laugavegi og Skólavörðustíg. Kannski er betra að bíða aðeins og sjá til dæmis hvernig reynslan verður af Hafnartorgi þegar það opnar í öllu sínu veldi síðar á þessu ári.

 

 

 

.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt