fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Framkvæmdastjóri Eflingar segir rangfærslur Björns alvarlegar

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 9. janúar 2019 17:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líkt og Eyjan greindi frá fyrr í dag skrifaði Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, pistil um Gunnar Smára Egilsson, stofnanda Sósíalistaflokks Íslands og meinta tengingu hans við Eflingu – Stéttarfélag, en Björn sagði meðal annars að ný deild innan Eflingar opnaði leið til að standa straum af kostnaði við flokkspólitíska starfsemi og mátti skilja á orðum hans að þar væri um Sósíalistaflokkinn að ræða.

Sjá nánarBjörn segir Eflingu hafa opnað leið til að „standa straum af kostnaði við flokkspólitíska starfsemi“ Gunnars Smára

Engin fyrirmæli um veikindaleyfi

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, hefur svarað Birni og sakar hann um alvarlegar rangfærslur. Birtir Björn bréf Þorsteins á heimasíðu sinni.

Athygli vekur að leiðréttingar Viðars snúa einungis að veikindaleyfi fjármálastjóra Eflingar, sem Björn sagði að hafi fengið fyrirmæli um að ofan vegna athugasemda hennar við reikninga eiginkonu Gunnars Smára.

Viðar víkur ekki að skrifum Björns er fjalla um fjármögnun Eflingar á Sósíalistaflokki Íslands.

Viðar segir:

„Það er rangt að fjármálastjóri eða nokkur starfsmaður Eflingar hafi „fengið fyrirmæli um að fara í veikindaleyfi.“ Leyfi vegna veikinda, fæðingarorlofs o.s.frv. eru samnings- og lögbundin réttindi sem starfsmenn Eflingar nýta sér að eigin frumkvæði að uppfylltum skilyrðum þegar tilefni er til. Stjórnendur Eflingar reyna að sjálfsögðu ekki að hafa áhrif á það hvenær eða hvernig starfsmenn félagsins nýta sér þau réttindi. Fullyrðingar um slíkt eru rógburður.“

Þá segir Viðar að sér sé að fullu kunnugt um störf eiginkonu Gunnars Smára, en hafnar „gróusögum“ sem hann segir Agnesi Bragadóttur hafa dreift á síðum Morgunblaðsins:

„Mér er að fullu kunnugt um störf Öldu Lóu Leifsdóttur blaðamanns fyrir Eflingu og hef gert grein fyrir þeim opinberlega. Alda Lóa hefur annast hið glæsilega kynningarverkefni „Fólkið í Eflingu“ sem kynnt var og samþykkt á vettvangi stjórnar Eflingar á síðasta ári. Hvergi hefur komið fram athugasemd frá fjármálastjóra vegna reikninga frá Öldu Lóu, enda með öllu óskiljanlegt á hvaða forsendum fjármálastjóri hefði sett getað fram slíka athugasemd. Enginn starfsmaður Eflingar staðfesti Gróusögur sem blaðamaður, Agnes Bragadóttir, dreifði á síðum Morgunblaðsins þann 6. október 2018 um afgreiðslu reikninga. Gerð hefur verið grein fyrir þessu í yfirlýsingu minni og formanns Eflingar dags. 6.10.18 og áréttingu 12.10.18. Fullyrðingar þínar um þetta atriði eru dylgjur og ósannindi.“

Villtur í eigin órum

Gunnar Smári Egilsson tjáir sig um málið í athugasemdarkerfi Viðars á Facebook. Þar hrekur hann eina af fullyrðingum Björns um samkomu í Háskólabíói, en Björn sagði:

„Gunnar Smári er sérfræðingur í alls kyns sviðsetningum. Hann lét t.d. eins og allir helstu skemmtikraftar þjóðarinnar kæmu fram á fjáröflunarhátíð í Háskólabíói sem aldrei var haldin til að bjarga Fréttatímanum. Blaðið yfirgaf hann síðan án samúðar með launþegum á blaðinu.“

Gunnar segir Björn lifa í „valkvæðum“ veruleika:

„Ekki nenni ég að elta ólar við Björn. Hann skrifar þarna t.d: „Hann [þ.e. ég, gse] lét t.d. eins og allir helstu skemmtikraftar þjóðarinnar kæmu fram á fjáröflunarhátíð í Háskólabíói sem aldrei var haldin til að bjarga Fréttatímanum.“ Björn er þarna að halda fram að glæsileg samkoma til stuðnings Fréttatímanum (undir slagorðinu: Frjáls fjölmiðlun) hafi ekki farið fram. Maðurinn lifir algjörlega í valkvæðum veruleika, er villtur í eigin órum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum
Fallinn strompur

Mest lesið

Ekki missa af