fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Ragnar Þór um lúxushótel Icelandair á Landssímareitnum: „Er það hlutverk lífeyrissjóða að koma að svona áhættufjárfestingum?“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 8. janúar 2019 13:41

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, telur fjárfestingu lífeyrissjóðanna í Lindarvatni ehf., sem stendur að byggingu hótels Icelandair á Landssímareitnum, gríðarlega áhættusama og spyr hvort það sé hlutverk lífeyrissjóða að standa í slíkum áhættufjárfestingum, en félagið gerði í gær samning við ÞG verktaka um uppbyggingu á Landssímareitnum:

„Um er að ræða gríðarlega áhættusama framkvæmd og ekki fæst séð að félagið sé full fjármagnað fyrir þeim flóknu og miklu framkvæmdum sem eftir eru. Þeir einu sem sitja eftir með alla áhættuna af þessu áhættusama verkefni eru því lífeyrissjóðirnir,“

segir Ragnar og spyr í hvað iðgjöld almennings séu að fara:

„Hvert fara peningar lífeyrissjóðanna, iðgjöldin okkar, og á hvaða kjörum? Þetta verkefni er fjármagnað af nokkrum íslenskum lífeyrissjóðum. Árið 2016, 2.mars, gáfu Íslensk verðbréf út skuldabréfaútgáfuna IS0000026797 fyrir Lindarvatn ehf. Fyrir allt að 6,26 milljarða króna, til 30 ára á 3,77% vöxtum, verðtryggt. 3,1 milljarður var fyrsti hluti útgáfunnar og var greiddur til Lindarvatns ehf. sem þurfti ekki að greiða fyrstu afborgun fyrr en í apríl 2018. Heildarstaða útgáfunnar stendur nú í tæpum 3,9 milljörðum af 6,26 milljarða heimild.“

Ragnar nefnir einnig að til hafi staðið að reisa lúxushótel sem Icelandair hafi gert leigusamning um, sem opna átti sumarið 2017. Opnuninni hafi hinsvegar verið frestað til vorsins 2019 en ekki væri ennþá byrjað að steypa upp eða moka grunn. Þá nefnir Ragnar Þór að skuldir félagsins séu rúmir 4,1 milljarður samkvæmt ársreikningi og að eina fjármagnið til framkvæmdanna sé frá lífeyrissjóðunum. Nefnir Ragnar einnig að Icelandair hotels sé nú í söluferli.

Lindarvatn er eigandi nokkurra fasteigna á Landsímareitnum og er í jafnri eigu Dalsnes ehf. og Icelandair Group. Eigandi Dalsnes er Ólafur Björnsson.  Lindarvatn samdi í gær við ÞG verktaka um byggingu hótelsins, veitingastaða og verslana  á Landssímareitnum og eru verklok áætluð í mars 2020. Verður hótelið starfrækt undir nafninu Curio by Hilton.

Lífeyrissjóðirnir bera áhættuna

Segir Ragnar að ekki fáist séð að full fjármögnun hafi náðst fyrir þeim framkvæmdum sem eftir eru, sem séu gríðarlega áhættusamar og spyr hvort slíkar áhættufjárfestingar séu boðlegar fyrir lífeyrissjóði:

„Þeir einu sem sitja eftir með alla áhættuna af þessu áhættusama verkefni eru því lífeyrissjóðirnir. Þá spyr ég. Er það hlutverk lífeyrissjóða að koma að svona áhættufjárfestingum? Hvernig í ósköpunum má það vera að sjóðirnir koma að svona fjárfestingu, á kjörum sem almenningur eða önnur félög hefðu aldrei aðgang að. Þar sem aðeins er gerð krafa um 15% eiginfjárhlutfall að framkvæmdum loknum en eiginfjárhlutfall félagsins er ekki nema 11% í dag og framkvæmdir við hótelið eru ekki hafnar.

Ekki virðist séð hvernig þetta dæmi á að geta gengið upp. Er virkilega boðlegt að sjóðirnir okkar stundi slíkar áhættufjárfestingar eins og raunin virðist vera með Lindarvatn ehf? Væri ekki nær að sjóðirnir kæmu að uppbyggingu á húsnæðismarkaði, hagkvæmum leiguíbúðum, sem hingað til hafa reynst vera öruggustu fjárfestingarnar og væru samfélaginu til góða í leiðinni?“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum
Fallinn strompur

Mest lesið

Ekki missa af