fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Mesti núskrifandi rithöfundur Norðurlandanna?

Egill Helgason
Mánudaginn 7. janúar 2019 23:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Því má halda fram að Kim Leine sé mesti rithöfundur Norðurlandanna um þessar mundir. Hann gaf ekki út bók fyrr en hann var 45 ára. Hún kom út 2007. Bókin er sjálfsævisöguleg, rekur uppvöxt Leines í söfnuði Votta Jehóva í norsku dreifbýli, strok til Kaupmannahafnar, samband við föður sem þar bjó og var samkynhneigður, kynferðislega misnotkun, för til Grænlands þar sem hann starfaði sem hjúkrunarfræðingur, fallið þar sem fólst meðal annars í því að hann varð háður fíkniefnum – loks hrekst hann burt frá Grænlandi.

Leine hefur að sönnu lifað undarlega ævi og þessi viðmótsþýði Dani (hann er reyndar líka af norsku bergi brotinn) er boðinn og búinn að segja frá henni eins og ég komst að þegar ég tók við hann viðtal síðastliðinn föstudag.

Kalak kom á íslensku í fyrra, en mestrar hylli hefur Leine notið fyrir bókina Spámennirnir í Botnleysufirði sem kom út 2012. Fyrir hana hlaut hann bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Bókin kom svo út á íslensku í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar.

Þetta var fyrsta bókin í þríleik sem fjallar um áreksturinn sem verður þegar hvítir Evrópumenn koma til Grænlands, stofna nýlendu, reyna að kristna innfædda og lifa af í þessu kalda og erfiða umhverfi. Má segja að þessir fundir spilli bæði aðkomufólkinu og íbúunum sem fyrir eru – líkt og títt er um nýlendur.

Nú er komin út önnur bókin í þríleiknum, hún gerist á undan Spámönnunum í Botnleysufirði, og nefnist Svartur maður – Rauður maður. Svarti maðurinn er Hans Egede, trúboðinn sem boðaði kristna trú á Grænlandi og hefur verið kallaður postuli Grænlands. En líkt og Leine dregur fram er sagan miklu flóknari. Til dæmis bárust hræðilegir sjúkdómar með Evrópumönnunum til Grænlands og hinir innfæddu drápust unnvörpum. Og undarlegur flötur á sögunni er sá að danskir tukthúslimir voru sendir til Grænlands til að koma á fót nýlendunni og í för voru líka konur sem höfðu stundað vændi. Allt það fólk stráféll vegna vosbúðar.

Þriðju bókina hefur Leine í burðarliðnum um Grænland og eftir því sem mér skilst byggir hún meðal annars á leit sjóliðsforingjans Wilhelms Augusts Graah að byggðum norrænna manna á Grænlandi en hann leitaði langt yfir skammt, fór upp með austurströnd Grænlands á bátum innfæddra.

Svartur maður – Rauður maður er nýkomin út hjá bókaforlaginu Sæmundi í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar. Viðtalið við Leine verður sýnt í Kiljunni í byrjun febrúar. Við ræðum ýmislegt fleira en bókmenntir, til dæmis möguleika Grænlendinga á að njóta sjálfstæðis sem þjóð. Leine telur að það sé á sinn hátt nauðsynlegt en um leið miklum annmörkum háð.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum
Fallinn strompur

Mest lesið

Ekki missa af