fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Gleðileg jól – þrjár jólamyndir úr Austurstræti

Egill Helgason
Mánudaginn 24. desember 2018 01:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Með þessum þremur  ljósmyndum óska ég lesendum síðunnar gleðilegra jóla

Þær eiga eitt og annað sameiginlegt, jú, þær eru teknar næstum á sama stað, með um það bil  tuttugu ára millibili. Sýna vel hvernig tíminn líður og hvernig við eldumst í honum og hverfum svo. Minningar okkar sem tengjast jólum eru oft mjög sterkar.

Fyrir eldri lesendur er myndin að neðan sennilega nokkuð kunnugleg. Hún er tekin á áttunda áratugnum. Þarna er Austurstrætið nýorðið göngugata. Það er krap og slabb eins og svo oft var á þessum árum, kuldaskeiði sem þá var. Maður var oftar blautur í fæturna þá. En það er samt jólaandi og hátíðarbragur yfir myndinni.

Það vekur líka athygli að á tveimur myndanna eru eldri konur að leiða barn, með fjörutíu ára millibili. Manni finnst líklegt að í báðum tilvikum séu þetta ömmur. Á yngri myndinni eru konan og barnið neðst til vinstri, konan heldur  á stórum innkaupapoka, barnið er rækilega dúðað.

 

 

Eldri myndin, hér efst, er í miklu uppáhaldi hjá mér. Þetta er Austurstræti upp úr 1930. Það er ys og þys. Við sjáum að það er mistur yfir bænum, þetta er kolareykurinn sem lá yfir – þokan sem gerði vart við sig í Reykjavík fyrir fáum dögum er af öðrum toga en stafar líka af mengun.

Það er farið að skreyta verslanirnar fyrir jól, við sjáum þarna skartgripaverslun Árna Björnssonar, en ekki göturnar enn, það byrjaði ekki fyrr en síðar. Í vagni hjá Útvegsbankahúsinu eru auglýstar heitar pylsur. Strætisvagn kemur akandi að Lækjartorgi. Einn karlanna á myndinni er með harðkúluhatt. Það er talsverður borgarbragur yfir þessu.

Og þarna er kona í íslenskum búningi, með pakka undir hendi, sem leiðir barn.

 

 

Þriðja myndin mun vera frá 1953 eða um það bil. Götumyndin í Austurstræti hefur ekki tekið ýkja miklum breytingum, á næstu árum á eftir var henni gjörsamlega umbylt. Þarna eru komnar skreytingar á göturnar. Sá sem stóð fyrir því var landslagsarkitektinn Jón H. Björnsson sem síðar var kenndur við gróðrarstöðina Alaska. Hann var mikill merkismaður, frumkvöðull í ræktun og fegrun borgarinnar.

Alaska var fastur viðkomustaður borgarbúa fyrir jólin, enda var þar fagurlega skreytt og mikill jólaandi. Auglýsingarnar frá Alaska sem birtust í sjónvarpi þekktu líka allir, þær hljómuðu svona:

„Hvar fáum við jólaskraut og jólatré?“

„Í Alaska!“

„En blóm og gjafavöru?“

„Í Alaska, gróðrarstöðinni við Miklatorg!“ 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt