fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Enn eitt hneykslið: Ef Facebook yrði lokað á morgun…?

Egill Helgason
Fimmtudaginn 20. desember 2018 20:53

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í raun hefur Facebook gengið svo langt að ekkert annað ætti að bíða fyrirtækisins en að missa starfsleyfið eða að vera brotið upp í frumeindir. Það hefur síendurtekið logið að yfirvöldum og notendum sínum, misnotað upplýsingarnar sem það aflar í svo miklum mæli og dreift þeim á aðila sem eiga ekki að hafa neitt með þær að gera.

Allur kúltúr fyrirtækisins virðist einkennast af rótgrónum óheiðarleika – það er rotið í gegn.

En líklega verður ekki mikið gert. Þetta ræðst náttúrlega í Bandaríkjunum og þar eru stjórnmálamenn ýmist hræddir við Facebook ellegar skilja þeir ekki eðli starfseminnar. Þetta hefur birst í þingyfirheyrslum yfir sjálfum Zuckerberg og öðrum starfsmönnum fyrirtækisins.

Nýjasta hneykslið, sem upplýst var um í New York Times, felur í sér að Facebook lét upplýsingar um viðskiptavini sína, meðal annars upplýsingar úr skilaboðum á Messenger, til stórfyrirtækja í tæknigeiranum eins og Netflix, Microsoft, Spotify, Amazon og Apple.

Þetta er í raun slíkur trúnaðarbrestur að réttast væri að loka sjoppunni tafarlaust.

En hvernig myndi okkur reiða af án Facebook? Það eru orðin tíu ár sem þessi miðill hefur verið í aðalhlutverki í samskiptum milli fólks. Inni á Facebook eru gríðarlegar upplýsingar um okkur sjálf, minningar, myndir, sambönd við vini – fyrir utan alla pólitíkina, rövlið og þvæluna sem við látum þar inn. Líklega myndum við flest vilja hafa einhvern aðgang að þessu áfram – þó það gæti reyndar verið hálfgerður léttir að vera laus undan öllu klabbinu í einu vetfangi.

Við myndum láta huggast – og kannski hugsa að við höfum eytt of stórum hluta síðustu tíu ára í þetta fyrirbæri.

Aðrir samskiptamiðlar myndu svo taka við. En þess yrði að gæta að þeir yrðu aldrei svona stórir, voldugir og alltumlykjandi.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt