fbpx
Sunnudagur 24.mars 2019
Eyjan

Á Reykjanesbrautinni í myrkri, roki og rigningu

Egill Helgason
Þriðjudaginn 18. desember 2018 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég ók Reykjanesbrautina  snemma í morgun í vindi og ausandi rigningu. Það var ótrúlega dimmt. Ljósin á bifreiðunum náðu varla að lýsa upp veginn. Þessir fáu ljósastaurar sem eru þarna virkuðu eins og daufar týrur. Endurskinsmerkin á staurunum meðfram veginum virka slitin og endurkasta ekki miklu ljósi.

Þrátt fyrir endurteknar viðgerðir er Keflavíkurvegurinn, eins og leiðin heitir öðru nafni, enn einu sinni slitinn í gegn. Á hægri akgreininni, þar sem maður ekur lögum samkvæmt, hefur malbikið slitnað þannig að hafa myndast hjólför. Í þau safnast vatn sem veldur því að bílarnir rása til og frá í förunum.

Þetta eru satt að segja heldur glæfralegar aðstæður til að aka bifreið – og ekkert sérlega þægilegt þegar maður er nýkominn úr löngu flugi.

En þarna er fjölfarnasti þjóðvegur landsins. Hann er notaður af fólki sem fer til og frá til vinnu, sumir vegfarendurnir eru að fara í flug, þarna eru miklir vöruflutningar – og svo eru margir erlendir túristar þarna á ferð. Þetta eru jafnvel fyrstu kynni þeirra af íslenskum vegum.

Ekki einu sinni þessum vegi tekst okkur að halda í skikkanlegu ástandi. Á hluta Reykjanesbrautarinnar er svo aðeins ein akgrein í hvora átt, sá vegkafli þykir stórhættulegur og þar hafa orðið mjög alvarleg slys.

Við erum fámenn þjóð í stóru landi, en notum gríðarlega mikið af bílum. Það er ekki hlaupið að því að koma upp þokkalegu vegakerfi þegar notendurnir eru svo fáir. Það er óheyrilega stórt og dýrt verkefni. Reynslan sýnir að varlegt er að treysta á skattfé í því efni – eða hversu lengi hefur verið rætt um verkefni eins og Sundabraut eða að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar án þess að neitt verði úr. Helst þarf að tvöfalda Suðurlandsveginn austur í Vík miðað við bifreiðafjöldann og slysatíðnina. Og um leið þykir okkur sjálfsagt að byggja upp vegi í strjálli byggðum – jafnvel út á ystu nes.

Það er hægt að skammast yfir því að gjöld sem eru lögð á bifreiðar og beinsín skili sér ekki öll til umferðarmála. En það er svo margt fleira sem ríkið þarf að standa straum af. Einn kostnaðurinn við bílasamfélagið sem við lifum í eru umferðarslys sem eru gríðarlega kostnaðarsöm fyrir heilbrigðis- og velferðarþjónustuna. Bílasamfélagið skapar líka velferðarsjúkdóma vegna hreyfingarleysis – eins og danski skipulagsfræðingurinn Jan Gehl ræddi um í Silfrinu um daginn. Kostnaðurinn er svo margvíslegur.

Miðað við reynsluna er erfitt að ímynda sér að hægt sé að gera átak í vegamálum á Íslandi án veggjalda. Með því móti er líka hægt að láta hinn mikla fjölda ferðamanna greiða sinn skerf – um leið og vegirnir yrðu öruggari fyrir þá. Á það hefur verið bent að bílaleigur velti nú álíka miklu og landbúnaðurinn á Íslandi.  Fyrir stórnotendur þyrfti auðvitað að koma upp einhvers konar afsláttarfyrirkomulagi. Það er útfærsluatriði. Það er heldur ekki nýtt að greitt sé fyrir pláss í umferðinni –  það þykir sjálfsagt að innheimta gjöld fyrir bílastæði og svo voru framkvæmdir eins og Hvalfjarðargöngin og Keflavíkurvegurinn á sínum tíma  kostaðar með veggjöldum.

En þetta er auðvitað val. Ef fara á leið hefðbundinnar skattheimtu er ólíklegt að miklar vegaframkvæmdir verði hér á næstunni, varla mikið umfram nauðsynlegt viðhald. Ef lögð yrðu á veggjöld væri hægt að byggja talsvert upp til framtíðar. Í Noregi eru til dæmis 190 stöðvar þar sem eru rukkuð veggjöld. Þar hafa veggjöldin verið notuð til að hraða uppbyggingu góðs vegakerfis, en það er líka hægt að nota þau að einhverju leyti til að hafa stjórn á umferð og hvetja til notkunar almenningssamgangna.

 

Tollskýlið sem var eitt sinn á Keflavíkurveginum. Það stóð nærri Straumsvík. Þarna var rukkað frá 1965 til 1972.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Allir tapa – ákvörðun sem hlýtur að verða endurskoðuð

Allir tapa – ákvörðun sem hlýtur að verða endurskoðuð
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur er blindur og var hætt kominn vegna skiltis á Laugavegi – Reykjavíkurborg bauð honum að senda tölvupóst

Vilhjálmur er blindur og var hætt kominn vegna skiltis á Laugavegi – Reykjavíkurborg bauð honum að senda tölvupóst
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sjáðu stærð Íslands í hlutfalli við önnur lönd og eyjar – Sannleikurinn gæti komið á óvart

Sjáðu stærð Íslands í hlutfalli við önnur lönd og eyjar – Sannleikurinn gæti komið á óvart
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“