fbpx
Föstudagur 22.mars 2019
Eyjan

Læknir greinir frá sögunni á bak við „salernis-innlagnir“ á Landspítalanum: Segir heilbrigðiskerfið glíma við hjartabilun

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 6. desember 2018 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Okkur var sagt að þetta væri bara svona og það sé gert ráð fyrir einu plássi inni á klósetti þegar það eru ekki laus rúm annars staðar á deildinni. Þetta sé bara það sem er í boði. Þannig að það er ekki vitað hvenær hún fær rúm,“ sagði Berglind Sigurðardóttir í samtali við DV þann 22. nóvember, en 92 ára gamalli móður hennar hafði verið komið fyrir á salerni á öldrunardeild Landspítalans þar sem engin rúm voru laus annars staðar á deildinni. Þurfti hún að hringja kúabjöllu til að fá aðstoð hjúkrunarfólks.

Fréttin vakti mikla athygli og mikil reiði kviknaði í garð heilbrigðiskerfisins á samfélagsmiðlum, þar sem ekki var talin mikil reisn yfir slíku fyrirkomulagi fyrir fólkið sem byggði landið. Aðrir göntuðust með að þeir kysu nú heldur að fá slíka „einkastofu“ í stað þess að deila herbergi með öðrum, þarna væri næðið meira, þó svo það þyrfti að rúlla viðkomandi út svo að aðrir gætu gert þarfir sínar.

Sjá nánar: 92 ára konu komið fyrir á salerni á Landspítalanum – Þarf að hringja kúabjöllu til að fá aðstoð:„Ég á eftir að deyja hérna í nótt“

Þórhildur Kristinsdóttir, sérfræðingur í lyflækningum öldrunar – og líknarlækningum á Landspítala, skrifar um erfiðleika Landspítalans í grein í Læknablaðinu sem er nýkomið út. Greinin heitir „Sagan á bak við salernis-innlagnir á Landspítala“ og er greinileg tilvísun í mál móður Berglindar og eflaust annarra sem hafa mátt þola sömu meðferð.

Hjartabilun heilbrigðiskerfisins

Þórhildur líkir Landspítalanum við hjarta íslenska heilbrigðiskerfisins sökum stærðar og umfangs, sem hún segir þó eiga í vaxandi erfiðleikum og glími við hjartabilun, því erfiðlega gangi að halda í markmið um lágmarksbiðtíma eftir aðgerðum ásamt því sem glímt sé við manneklu.

Hún segir biðtímann á legudeild vera allt að þrjá sólarhringa:

„Daglega, á undanförnum mánuðum, dvelja frá 15 til 25 sjúklingar á bráðamóttöku sem bíða eftir að komast í rúm á legudeild. Sú bið getur tekið upp í þrjá sólarhringa. Vegna þessa álags á bráðamóttöku hefur spítalinn starfað eftir viðbragðsstigi 2 sem þýðir að framkvæmdastjóri ákveður að innlagnir umfram legurými verði í hámarki á hverri deild. Lyflækningasvið spítalans hefur brugðist við þessu ástandi með því að manna sérstakt hreyfiteymi lækna sem vinnur við tilbúnar vinnuaðstæður á bráðamóttöku og sinnir uppvinnslu og meðferð þessara sjúklinga. Bráðahjúkrunarfræðingar hlaupa hratt og sinna bráðveikum milli þess sem þeir sinna innlögðum sjúklingum sem ekki komast á legudeild.“

Fráflæðivandi

Þórhildur segir eina orsök vandans vera fráflæðiserfiðleika sem Landspítalinn glími við. Hún er þó ekki sátt við orðið sjálft, sem hún segir vont:

„Ein af orsökum vandans hefur verið skilgreind og nefnd fráflæði-vandi. Á síðasta ári biðu á vegum Landspítala að jafnaði um 90-100 einstaklingar, með samþykkt færni- og heilsumat, eftir varanlegri búsetu á hjúkrunarheimili. Frá því í september hefur þeim einstaklingum fjölgað í um 130. Embætti landlæknis lýsti nýlega yfir þungum áhyggjum af þessu ástandi. 362 einstaklingar biðu eftir hjúkrunarrými í byrjun árs 2018 og er það 60% fjölgun frá því í ársbyrjun 2014.

Mig langar að staldra aðeins við orðið fráflæði-vandi. Orðið vísar til þess að erfiðlega gengur að útskrifa aldraða einstaklinga sem lokið hafa bráðameðferð. Þessum einstaklingum er þannig sinnt á röngu þjónustustigi og það skapar tregðu þar sem rúm á legudeildum losna ekki með eðlilegum hætti fyrir nýja sjúklinga. Orðið fráflæði-vandi finnst mér vera vont orð þar sem það elur á aldursfordómum. Auðvitað eru það ekki færniskertir aldraðir einstaklingar sem eiga sökina á vanda Landspítala með því að hindra fráflæði. Þetta ástand er einungis birtingarmynd kerfisvanda í heilbrigðiskerfinu. Kerfið hefur ekki undirbúið sig á heildstæðan hátt fyrir öldrun þjóðarinnar. Ekki hefur orðið fjölgun á hjúkrunarrýmum í takt við aukinn fjölda aldraðra og heildstæða stefnu um heilbrigðis- og félagsþjónustu aldraðra hefur vantað.“

Um mannekluna segir Þórhildur:

„Önnur mikilvæg áskorun sem sjúkrahúsið glímir við er mönnunarvandi hjá flestum fagstéttum og þá sérstaklega skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Mér telst til að sjúkrahúsið hafi á þessu ári lokað samtals 32 legurýmum á lyf- og skurðlækningadeildum vegna manneklu.1 Það vantar hjúkrunarfræðinga til að fullmanna vaktir á Hjartagátt og nú stendur til að færa þá starfsemi yfir á bráðamóttökuna í Fossvogi.“

Illa samhæft kerfi

Þórhildur vill taka ráðleggingum Marks Britnell, stjórnarformanni KPMG Global Health Care, sem gerði úttekt á íslenska fyrirkomulaginu í fyrra:

„Britnell er reyndur stjórnandi úr breska heilbrigðiskerfinu og starfar sem ráðgjafi fyrir stjórnendur heilbrigðiskerfa. Í erindi sem hann hélt tjáði hann sig um íslenska heilbrigðiskerfið. Hann talaði um að „íslenska kerfið stæði sig ágætlega í alþjóðlegum samanburði. Þrátt fyrir að heilbrigðisútgjöld væru í lægri kantinum, eða um 8,7% af landsframleiðslu, værum við að fá mikið virði fyrir peninginn.“ Honum þótti þó íslenska kerfið illa samhæft. „Íslenska kerfið fengi gullverðlaun fyrir það hversu einangraðar heilbrigðisstofnanirnar eru”. „Afleiðingarnar af illa samhæfðu kerfi sem nýtur lítils trausts er að fólk bíður á sjúkrahúsum af röngum ástæðum, fólk bíður of lengi eftir aðgerðum og það kostar kerfið meiri tíma, peninga og álag.“ Aðspurður um hans fyrstu verk ef hann gegndi stöðu heilbrigðisráðherra á Íslandi taldi hann upp þrjú atriði: „Ég myndi búa til framsæknasta heilbrigðiskerfi í heimi þar sem sjúklingar væru mikilvægari en stofnanir. Í fyrsta lagi myndi ég kortleggja heilbrigði almennings, í öðru lagi endurskipuleggja umönnun aldraðra og í þriðja lagi brjóta niður veggi milli heilbrigðisstofnana.“

Mér þykja orð Britnells vera skynsamleg. Við verðum að forgangsraða rétt og hlúa vel að þeim sterka mannauði sem við eigum í heilbrigðiskerfinu. Kannski tekst okkur þá að skapa á Íslandi framsæknasta heilbrigðiskerfi í heimi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

Neita að skrifa undir skýrsluna: „Sorglegt að hlusta á villandi og rangan málflutning í ræðustóli Alþingis“

Neita að skrifa undir skýrsluna: „Sorglegt að hlusta á villandi og rangan málflutning í ræðustóli Alþingis“
Eyjan
Í gær

Hannes „styrkjasnillingur“ svarar „gamansögu“ Helga: Stendur uppi sem samningaglópur

Hannes „styrkjasnillingur“ svarar „gamansögu“ Helga: Stendur uppi sem samningaglópur
Eyjan
Í gær

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“

Björn Bjarnason svarar Sólveigu Önnu: „Já, þetta er „ótrúlega klikkað“
Eyjan
Í gær

Ragnar Þór tekur við af Guðbrandi sem formaður

Ragnar Þór tekur við af Guðbrandi sem formaður
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Seðlabankastjóri veit ekki hvort útreikningarnir í Samherjamálinu séu réttir eða rangir

Seðlabankastjóri veit ekki hvort útreikningarnir í Samherjamálinu séu réttir eða rangir
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Örn baunar á verkalýðshreyfinguna og Alþingismenn: „Synd að segja að hinar sveru gráður hafi aukið greind þeirra“

Örn baunar á verkalýðshreyfinguna og Alþingismenn: „Synd að segja að hinar sveru gráður hafi aukið greind þeirra“