fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Þegar þingmenn unnu alvöru starf

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 2. desember 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hugtakið stjórnmálastétt er ekki gripið úr lausu lofti. Oft finnst okkur sem alþingismenn sitji í fílabeinsturni, aftengdir við þjóðfélagið og tuði um hluti sem skipti raunverulegt fólk litlu máli. Á meðan sitji stærri og alvarlegri mál á hakanum. Það verður hins vegar að hafa það í huga að þingmenn eru fólk af holdi og blóði. Með baksögu eins og við öll. DV skoðaði fyrri störf fulltrúanna okkar.

Vörubílstjórinn

Sumir halda að Steingrímur J. Sigfússon þingforseti hafi fæðst á Alþingi. Hið rétta er að hann hefur verið þar síðan árið 1983. Þar áður starfaði hann meðal annars sem vörubílstjóri á Langanesi.

 

Knattspyrnustjórinn

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sat um áratuga skeið í flugturninum á Akureyri og stýrði umferð. Hann var þó með knattspyrnustjóradraum í maganum og sýndi getu sína í draumaliðsleik DV sumarið 1995 sem hann vann örugglega.

 

Vallarstjórinn

Logi Már Einarsson starfaði lengi sem arkitekt áður en hann settist á þing og fékk formannssætið hjá Samfylkingunni óvart upp í hendurnar. Í heimabæ hans, Akureyri, er hann þó fyrst og fremst þekktur sem vallarstjórinn á Þórsaravellinum.

 

Uppboðshaldarinn

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er þekktur fyrir að svara hratt fyrir sig. Það hefur hann sjálfsagt lært þegar hann var uppboðshaldari.

 

Stjarna í Kóreu

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra er af mörgum talin framtíðarleiðtogi Framsóknarflokksins. Hún hefur gerst svo fræg að leika í sjónvarpsþætti í Suður-Kóreu árið 1994. Sagðist hún hafa orðið nokkuð þekkt á götum Seúl eftir þetta en þó ákveðið að láta staðar numið í leiklistinni.

 

Kúluvarparinn

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, á að baki langan feril í stjórnmálum og viðskiptalífinu. Á árum áður var hann hins vegar fyrst og fremst þekktur sem einn af fremstu kúluvörpurum landsins.

 

Jafningjafræðarinn

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, komst fyrst í kastljósið þegar hún ræddi um humar og hvítvín. Þar áður aðstoðaði hún unglinga með jafningjafræðslu í Hinu húsinu.

 

Organistinn

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ísfirðingur og þingmaður Samfylkingarinnar, er músíkölsk fram í fingurgóma. Hún hefur lokið áttunda stigi á píanó og í sex ár starfaði hún sem organisti víðs vegar í kirkjum Vestfjarða.

 

Leikskólakennarinn

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, var nýlega sakaður um að stunda einelti í þinginu. Því verður vart trúað upp á hann enda starfaði hann á leikskólunum Staðarborg og Jörfa árin 1996 til 1999 og má því kannski til sanns vegar færa að hann sé nú á heimavelli.

 

Framleiddi tómar spólur

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, bjó lengi á Ólafsfirði. Árin 1994 til 1999 rak hún þar fyrirtæki sem framleiddi tómar spólur ásamt eiginmanni sínum, Helga Jóhannssyni. Hét það Íslensk tónbönd.

 

Barnabókarmógúllinn

Mosfellingurinn Bryndís Haraldsdóttir hefur setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðan 2016. Áður stofnaði og rak hún útgáfufyrirtækið Góðan dag sem gaf meðal annars út barnabækur.

 

Tryggingasölumaðurinn

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra gegndi áður starfi heilbrigðisráðherra, sem hefur oft verið talið vanþakklátt. Hann hlýtur þó að hafa haft þykkan skráp í ljósi þess að hann starfaði sem tryggingasölumaður í samtals fimm ár.

 

Passaði steinull

Líklega hafa fáir þorað að brjótast inn í Steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki árin 1989 til 1991. Þá hefðu þeir mætt vökulum augum Gunnars Braga Sveinssonar, síðar utanríkisráðherra og þingmanns Miðflokksins.

 

Karate-Karl

Karl Gauti Hjaltason hjá Flokki fólksins var lengi sýslumaður og kom landanum fyrir sjónir við upplestur kosningatalna. Karl er líka mikill íþróttagarpur og stofnaði til dæmis Karatefélagið Þórshamar árið 1979.

 

Bókmenntarýnir DV

Fáum líkar illa við Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og þingmann Vinstri grænna til margra ára. Hún var áður stigavörður í Gettu betur og dúx í skóla. Hennar mesta vegsemd var þó að skrifa bókmenntarýni fyrir DV árið 2002.

 

Skemmtikrafturinn

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er öryrki vegna blindu. Áður en hún skaust upp á stjörnuhimin stjórnmálanna var hún Íslandsmeistari í karókí og tróð upp í veislum í kjölfar sigursins. Sigurlagið var The Greatest Love of All með Whitney Houston.

 

Ljóðanörd

Allir vita að Píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson er tölvunörd enda hefur hann fengist við forritun í langan tíma. Færri vita að það eru ekki aðeins táknin 0 og 1 sem heilla hann heldur gnægtarborð íslenskrar ljóðlistar og bragfræði. Árið 2002 opnaði hann stafrænt athvarf fyrir skáld til að varðveita afurðir sínar um aldur og ævi.

 

Afruglarinn

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þykir fróður um ýmis málefni. Svo sem hvalveiðar og vegtolla. Áður fyrr var hann helsti sérfræðingur landsins í afruglurum og starfaði sem yfirmaður auglýsinga og áskriftardeildar Stöðvar 2.

 

Handboltastjarnan

Eins og allir fulltrúar Viðreisnar kom Hanna Katrín Friðriksson lóðbeint úr viðskiptalífinu. Þar áður var hún handknattleiksstjarna hjá Fram og Val. Er hún með alls 36 landsleiki á bakinu.

 

Slökkviliðsmaðurinn

Miðflokksmaðurinn Birgir Þórarinsson er sannkristinn Suðurnesjamaður. Árin 1991 til 1996 starfaði hann sem slökkviliðsmaður á Keflavíkurflugvelli.

 

Skáldið

Flestir vita að Ari Trausti Guðmundsson, hjá Vinstri grænum, er einn fremsti jarðvísindamaður landsins og hefur lengi starfað við fræðin. Færri vita að hann erfði listagáfuna frá foreldrum sínum og hefur skrifað sjö ljóðabækur.

 

Á geðdeild

Andrés Ingi Jónsson, hjá Vinstri grænum, er brosmildasti og hlýjasti þingmaðurinn. Glensið er heldur aldrei fjarri. Þessir mannkostir hafa vafalaust nýst honum vel þegar hann starfaði á geðdeild Landspítalans árin 2002 til 2004.

 

Sjóari með sítt að aftan

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra var lengi vel bæjarstjóri. Fyrst á Dalvík en síðan Akureyri. Áður en ferillinn í stjórnmálum hófst var hann stýrimaður á Dalvík og var með sítt að aftan.

 

Ritstjóri DV

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á langan feril að baki í fjölmiðlum og útgáfu. Hans mesta vegsemd á ferlinum var að sjálfsögðu þegar hann ritstýrði DV á árunum 1999 til 2003.

 

Fréttaritari Al Jazeera

Rósa Björk Brynjólfsdóttir leiðir órólegu deildina í Vinstri grænum. Enginn veit í raun hvort hún er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Hún var áður fréttaritari Al Jazeera á Íslandi.

 

Fararstjórinn

Willum Þór Þórsson var einn af þekktustu knattspyrnustjórum Íslands. Svo þekktur að færri vita að hann situr á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn. Á árum áður var hann fararstjóri hjá Samvinnuferðum-Landsýn.

 

Í slorinu

Smári McCarthy er guðfaðir Pírata og kannski stærðfræðingur. Eins og svo margir Píratar er hann forfallinn tölvunörd en þar áður vann hann í fiskvinnslu.

 

Tónlistarkennarinn

Svandís Svavarsdóttir er í dag heilbrigðisráðherra sem hlýtur að vera eitt mest stressandi starf landsins. Áður fyrr var hún tónlistarkennari í Hrísey sem hlýtur að vera eitt það rólegasta. DV hefur ekki heimildir um hvaða hljóðfæri hún kenndi á en við giskum á harmonikku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“