fbpx
Föstudagur 26.apríl 2019
Eyjan

Nicolas Roeg, hrollvekjan Don’t Look Now og sýrumyndin Performance

Egill Helgason
Sunnudaginn 25. nóvember 2018 00:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Don´t Look Now hræddi líftóruna úr minni kynslóð þegar hún var sýnd í Háskólabíói. Það var 1974, myndin var bönnuð innan 16 ára, ég var þá bara 14. Komst inn í bíóið sem var ekki sjálfgefið. Stelpan sem drukknaði í vatninu í rauðu kápunni, vera í rauðri kápu sem söguhetjan sá hvarvetna og grandaði honum loks, hin langa ástarsena milli Julie Christie og Donalds Sutherland sem þótti afar djörf og nútimaleg – allt er þetta frekar ógleymanlegt þeim sem sáu á breiðtjaldinu í Háskólabíói. Ég held ég hafi aldrei hrokkið jafn illilega í kút og í lokasenunni þar sem eltingaleikur um stræti Feneyja endar með skelfingu.

Þetta var listræn mynd, vissulega, og samsett úr bútum sem virkuðu draumkenndir og dulúðugir, en hún náði feikilegum vinsældum og er talin með bestu hrollvekjum allra tíma. Nicolas Roeg, sem andaðist nú í vikunni, níræður að aldri, þótti annars nokkuð mistækur sem kvikmyndaleikstjóri. En það má líka nefna Walkabout, um börn sem villast í áströlsku eyðimörkinni, og The Man Who Fell to Earth, en í henni lék David Bowie aðalhlutverkið.

 

 

Nokkrum árum eftir þetta  var kvikmyndin Performance eftir hann sýnd í kvikmyndaklúbbnum Fjalakettinum. Það var spenna fyrir myndinni og fullt hús, enda fór miklum sögum af henni. Hún var frægt vandræðabarn þessi mynd, gerð hennar byrjaði 1968 en hún fékkst ekki sýnd í bíó fyrr en 1970. Þá var hún stranglega bönnuð börnum vegna þess hvað hún stuðaði, aðallega vegna kynlífsatriða og fíknefnaneyslu. Jú, á köflum virkar Performance eins og allsherjar sýrutripp. Aðalleikararnir voru Mick Jagger, sem þarna lék í sinni fyrstu mynd, Anita Pallenberg, sem síðar giftist Keith Richards, og hinn prúðmannlegi og hæversklegi Englendingur James Fox.

Fox var svo skekinn eftir Performance að hann lét sig hverfa um langt skeið, hætti að leika og birtist ekki fyrr en mörgum árum síðar og var þá orðinn vel miðaldra. Performance þótti illskiljanleg en náði þó ákveðinni stöðu sem kúltmynd.

Í Performance var flutt lagið Memo from Turner. Þetta er eiginlega týndur ópus úr sögu The Rolling Stones. En raunar er lagið sólóverk Micks Jagger. Upptökustjórinn var hinn bandaríski Jack Nitzsche, það er Ry Cooder sem leikur á slide gítar,en Gene Parsons úr The Byrds spilar á trommur. Brot úr laginu heyrist reyndar í annarri og miklu frægari kvikmynd, Goodfellas eftir Martin Scorsese. Þarna heyrist vel hvað Jagger er einstakur söngvari, það er ekki vegna sérstakra raddgæða heldur vegna þess hvernig hann fer með texta, syngur orðin þannig að maður skynjar í þeim einhverja hættu. Á svipuðum tíma flutti hann Sympathy for the Devil. Það var glæstasta skeið Rollinganna.

Þetta eru brot úr Performance en lagið sjálft byrjar á u.þ.b. 1.40.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Björn um tækifærismennsku Þorsteins og Frosta: „Nær væri að nota orðið „tvöfeldni“

Björn um tækifærismennsku Þorsteins og Frosta: „Nær væri að nota orðið „tvöfeldni“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Síðasta bókin um Bernie Gunther – á upplausnartíma Weimarlýðveldisins

Síðasta bókin um Bernie Gunther – á upplausnartíma Weimarlýðveldisins