fbpx
Föstudagur 26.apríl 2019
Eyjan

And-samfélagslegir samfélagsmiðlar – og nei, skoðanafrelsi hefur ekki minnkað

Egill Helgason
Laugardaginn 24. nóvember 2018 14:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er einkennilega tilhæfulaust að halda því fram að skoðanafrelsi hafi minnkað. Þvert á móti – fólk er miklu frjálsara til að hafa skoðanir en áður og láta þær í ljós án þess að gæta nokkurs hófs í orðavali. Eitt sinn urðu menn að skrifa greinar í Morgunblaðið til að koma skoðunum sínum á framfæri eða halda erindi um Daginn og veginn í útvarp. Þar var passað upp á að orðfærið væri vandað og hófstillt.

Á stærstu miðlum samtímans eru ekki gerðar neinar slíkar kröfur. Eitt einkenni þeirra tíma sem við lifum á er reyndar að heimurinn er að verða hólfaskiptur. Í sumum hólfum er ekki vel séð að talað sé með niðrandi hætti um konur eða samkyhneigt fólk. Fyrir mörg okkar er lítill söknuður að því. En svo eru önnur hólf þar sem maður þarf helst að úthúða „góða fólkinu“ og öllum „rétttrúnaði“ þess til að vera gjaldgengur.

Á samskiptamiðlum hafa allir sína rödd. Allir geta verið sinn eigin fjölmiðill. Þar er sama og engin ritskoðun, nema kannski ef birtist nakinn líkami. Þetta hefur leitt til þess er sú að þeir sem eru frekastir, hafa hæst, eru öfgafyllstir í málflutningi, tröllríða umræðunni. Það eru þeir sem fanga athygli fólks. Víða hafa fjölmiðlarnir dregist með – stíllinn á sumum þeirra verður sífellt móðursýkislegri. Þeir berjast líka við minni notkun – eitt ráðið er að reyna að fylgja því sem hefur þrifist á jöðrum internetsins en færist stöðugt inn að miðju.

Raddir hófsemdar og íhugunar heyrast mjög illa fyrir hávaðanum. Staðreyndir og sannleikurinn verða að aukaatriði og þar með er stór hluti af umræðunni í raun algjörlega merkingarlaus. Mun aldrei skila neinu nema þeirri tilfinningu að við lifum í algjörri upplausn. Bergmálshólfin þrengja sífellt meira að; það sem við sjáum á netinu miðar sífellt meira við það sem við viljum sjá. Algoriþminn sér til þess.

Miðillinn, Facebook, vill helst gera sem minnst til að bregðast við þessu þrátt fyrir að kröfurnar um það verði háværari. Þetta er bandarískt auðfyrirtæki sem þrífst á því að fólk ánetjist söluvörunni og noti hana meira og minna allan sólarhringinn. Ef menn hegða sér eins og fífl og fábjánar, spúa út ónotum og hatri, er það í raun góð söluvara og Facebook dettur ekki í hug að skrúfa fyrir. Það er andstætt eðli sjálfs miðilsins. Þannig eru samfélagsmiðlarnir í raun and-samfélagslegir. Það er með ólíkindum hvernig hún hefur magnast upp sú tilfinning að við lifum á óreiðukenndum tímum þar sem allt stefnir í upplausn.

Á netinu eru fólk að básúna hluti sem hefði verið óhugsandi að segja opinberlega fyrir ekki nema tíu árum – hluti sem þrifust einungis í skúmaskotum. Það er algjörlega er fráleitt að halda því fram að skoðanafrelsi hafi minnkað. Við þurfum hins vegar að reyna að venja okkur af samskiptamáta gerir okkur ónæm fyrir rökum og yfirvegaðri umræðu, kallar sífellt á meiri og meiri öfgar og gerir okkur ókleift að hlusta á þá sem eru á öðru máli en við. Þetta er alvöru viðfangsefni – og hugsanlega er það ekki gerlegt. Við eigum eftir að bíta úr nálinni með það.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Björn um tækifærismennsku Þorsteins og Frosta: „Nær væri að nota orðið „tvöfeldni“

Björn um tækifærismennsku Þorsteins og Frosta: „Nær væri að nota orðið „tvöfeldni“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Síðasta bókin um Bernie Gunther – á upplausnartíma Weimarlýðveldisins

Síðasta bókin um Bernie Gunther – á upplausnartíma Weimarlýðveldisins