fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Um gamla, nýja, umdeilda og horfna kirkjugarða – og grafreiti sem færast lengra og lengra frá borgunum eftir því sem pássið minnkar

Egill Helgason
Sunnudaginn 18. nóvember 2018 19:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú er það svo að ég er frekar gagnrýninn á stórhýsi sem er verið að byggja víða um Miðbæinn og eru algjörlega út úr kú við byggðina sem fyrir er.  Þetta hef ég skrifað um í fjölda greina  – ég er viss um að sumum finnst þær vera orðnar alltof margar.

Ég hef hins vegar stillt mig um að gagnrýna það sem er kallað hótelvæðing Miðborgarinnar. Ég sé í raun ekkert slæmt við að byggja hótel – þegar maður kemur í borgir vill maður að hótelið sem maður gistir á sé miðsvæðis. Víða í borgum eru hótelin líka einhver fallegustu húsin sem maður finnur. Ég geld miklu meiri varhug við hótelíbúða- og airbnb-væðingu – því þannig flæmast venjulegir íbúar burt.

Þetta er formáli að litlum pistli sem ég ætla að skrifa um byggingarnar á Landsímareitnum, við Fógetagarð eins og hann hefur verið kallaður í mínu minni – nú eru sumir komnir langt aftur fyrir það og farnir að tala um Víkurkirkjugarð.

Mér sýnast húsin sem þarna eiga að rísa ekki vera sérlega fögur og þau eru tæplega í góðu samræmi við byggðina í kring. Það skortir bæði tillitssemi og smekk. Ég hef hins vegar ekkert á móti því að þarna sé hótel – þetta virkar eins og prýðilegur staður fyrir slíka starfsemi, kallast á við Hótel Borg sem er hinum megin við Austurvöll.

En varðar kirkjugarðinn. Ég fór fyrst að fara þarna um svæðið í kringum 1965, ég var býsna ungur þegar ég byrjaði að leggja leið mína í Miðbæinn upp á eigin spýtur. Þetta er orðið meira en hálf öld. Snemma fór ég að þekkja umhverfið nokkuð vel, en aldrei fékk ég neina tilfinningu fyrir því að þarna væri kirkjugarður. Hann var ekki í vitund borgarbúa. Þetta var skrúðgarður innan um timburhús. Myndin hér að ofan er ennþá eldri, hún er frá því um aldamótin 1900 þegar Schierbeck landlæknir ræktaði matjurtir, tré og blóm ofan á kirkjugarðinum. Svo brunnu timburhúsin eða voru rifin og það voru reist önnur hús, miklu ljótari, viðbygging Landsímans, hinn undarlega klunnalegi Miðbæjarmarkaður sem ekki skánaði þegar voru byggðar margar hæðir ofan á hann.

Svo var garðinum breytt, það komu upphækkuð, steypt blómabeð og allt var hellulagt. Hann batnaði ekki við það, heldur varð hann undarlega óvistlegur. Þarna var aldrei fólk á ferli, nema rónar höfðu athvarf í einu horninu og þegar maður gekk í gegnum sundið sem lá að garðinum gaus upp stæk hlandlykt. En nú er verið að byggja þar sem uppspretta lyktarinnar var.

Kirkjugarðinum sem þarna var til 1830 var rótað upp fyrir löngu. Þetta er náttúrlega í samræmi við þróun borga. Hvað ætli sé mikið af kirkjugörðum og líkamsleifum undir borgum heimsins? Sagt er að 108 milljarðar einstaklinga af okkar tegund hafi verið til síðan í árdaga. Það eru 15 dauðir fyrir hvern einstakling sem nú er á lífi.

Þegar borgir stækkuðu fór að verða mikið vandamál hvað ætti að gera við allt dána fólkið. Í París gripu þeir til þess ráðs undir lok 18. aldar að safna saman beinum og hrúga þeim inn í svokallaðar katakombur. Þar voru þau í belg og biðuog  engin leið að vita hver var hver – það var nú öll grafarróin. Í katakombunum eru líkamsleifar milljóna manna. En með þessu losnaði pláss í borginni. Svæðið í grennd við þar sem er Les Halles var til dæmis kirkjugarður fram undir lok 18. aldar.

Í dag var haldin samkoma þar sem voru lesin upp nöfn fólks sem var grafið í Víkurkirkjugarði. Grafirnar eru auðvitað ekki þar ennþá, en einhvern tíma hefur þetta fólk legið þarna – þar sem síðar var malbikað og steypt og byggð hús. Það er reyndar deilt um það að hve miklu leyti framkvæmdirnar fari inn á svæði hins löngu horfna kirkjugarðs umfram það sem þegar hefur verið gert. Tímalengdin í þessu er dálítið athyglisverð. Síðustu líkin eru sett þarna ofan í jörðina um 1830. Fyrir næstum 200 árum. Á þeim tíma eru uppi 8 til 9 ættliðir. Almennt þekkir fólk ekki nema 3 ættliði aftur í tíðina í mesta lagi , foreldra, afa og ömmur, langafa og langömmur. Fæstir þá sem á undan komu, enda verður það fljótt gríðarlegur fjöldi, í níunda ættlið á maður 512 forfeður og formæður. Fullyrt er að allir Íslendingar séu skyldir í sjöunda lið. Það er gangur lífsins, við gleymumst öll. Það sem er aftar er horfið inn í myrkur fortíðarinnar; leiðin falla í órækt– nema þá að viðkomandi séu frægt fólk.

Við höfum Hólavallakirkjugarð. Hann er einstakur, en þar hefur fólk verið grafið alla tíð síðan 1838 og það kemur fyrir að fólk er grafið þar enn – en bara þeir sem eru löngu búnir að panta. Þetta eru fínar lóðir! Garðurinn er eiginlega fyrsti staðurinn í Reykjavík þar sem uxu tré að einhverju ráði. Hann er fullur af máðum legsteinum sem margir hafa færst til í frosti, regni og vindum. Hann minnir á hina sögulegu kirkjugarða í borgum sem við þekkjum og eru miklu leyti frá 19. öld: Highgate í London, Père Lachaise í París, Assistents-kirkjugarðinn í Kaupmannahöfn (sá hefur reyndar verið sléttaður út að talsverðu leyti og legsteinar fjarlægðir). Í öllum þessum kirkjugörðum er grafið sögufrægt fólk og það er ein ástæða þess að þeir eru vinsælir og njóta svo mikillar verndar. Þótt líði ár og öld er líklegt að fólk vilji halda áfram að fara að leiði Karls Marx, Chopins, Kierkegaards eða Jóns Sigurðssonar.

Maður þarf ekki að gúgla mikið til að sjá að víða er umræða um að kirkjugarðar taki of mikið pláss. Raunar er það ekki fyrr en með aukinni einstaklingshyggju á 18. og 19. öld að kemur upp krafan um að hver einstaklingur þurfi að eiga sinn helgaða grafreit til eilífðarnóns. Á miðöldum var fólk grafið en svo voru teknar nýjar grafir ofan á, mann fram að manni, bein fjarlægð eftir því sem hentaði.

Rýmið minnkar og það er ekki hægt að fá reit í kirkjugörðum nema lengst fyrir utan borgirnar. Fólk þarf að ferðast æ lengri vegalengdir til að komast að gröfum ættingja. Það þýðir auðvitað að heimsóknunum fækkar. Hér í Reykjavík er talað um að Gufuneskirkjugarður verði fullur eftir nokkur ár. Nú er verið að skipuleggja nýjan kirkjugarð við Úlfarsfell. Ætli maður endi ekki með að hvíla þar, bak við Bauhaus, gegnt Korputorgi?

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Lýsa vantrausti á ríkisstjórnina, krefjast þingrofs og nýrra kosninga

Lýsa vantrausti á ríkisstjórnina, krefjast þingrofs og nýrra kosninga
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: ESB er miklu meira en sameiginlegur markaður og evran

Ole Anton Bieltvedt skrifar: ESB er miklu meira en sameiginlegur markaður og evran
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sögusagnir sem borgin vísaði á bug eiga sér meiri stoð í raunveruleikanum en af er látið

Sögusagnir sem borgin vísaði á bug eiga sér meiri stoð í raunveruleikanum en af er látið
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Fylgið minnkað um helming – 40 þúsund vantreysta Bjarna sem sætir afarkostum VG

Orðið á götunni: Fylgið minnkað um helming – 40 þúsund vantreysta Bjarna sem sætir afarkostum VG