fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Björn sendir Sigmundi tóninn vegna orkupakkans

Egill Helgason
Miðvikudaginn 14. nóvember 2018 21:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Deilur magnast nú vegna hins svokallaða 3. orkupakka Evrópusambandsins. Reyndar virðist talsvert af málflutningnum vera heldur haldlítill. Það var til dæmis sýnt í sjónvarpi frá fundi Framsóknarmanna í Reykjavík þar sem þeir mótmæltu orkupakkanum. Af fréttinni sýndist manni að mætti ráða að formaður þessa framsóknarfélags vissi mest lítið hverju hann væri á móti.

En eins og málið er að þróast gæti þetta orðið erfitt fyrir ríkisstjórnina. Hún virðist vera samtaka um að það sé engin ástæða til að samþykkja ekki orkupakkann, en innan allra ríkisstjórnarflokkanna er að finna andstöðu. Hún upphófst innan Sjálfstæðisflokksis, ekki langt frá Davíð Oddssyni – þá annars vegar sem farvegur fyrir andstæðinga EES samningsins og hins vegar sem tilraun til að skapa pólitíska vígstöðu.

Það vekur hins vegar athygli að Björn Bjarnason, hinn gamli samherji Davíðs Oddssonar, gefur lítið fyrir þessa andstöðu. Björn beinir spjótum sínum að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Gunnari Braga Sveinssyni og segir að allar ákvarðanir sem lutu að því að pakkinn var tekinn inn í EES-samninginn hafi verið teknar þegar þeir voru forsætis- og utanríkisráðherra. Hann segir að þeir hafi haft rækilegan tíma til að skoða orkupakkann:

„SDG og GBS höfðu 3. orkupakkann í höndunum frá maí 2013 fram í apríl 2016, í tæplega 3 ár. Þetta var á því stigi málsins sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra höfðu tök á að vega og meta hvort ástæða væri til þess að taka við pakkanum og vinna að því að hann yrði „tekinn upp í EES-samninginn“ eins og það er orðað í opinberum skjölum. Niðurstaða þeirra félaga var að höfðu samráði við sérfræðinga og nefndir alþingis að það skyldi gert án fyrirvara.“

Björn bætir um betur og birtir mynd af Sigmundi Davíð, sem þá var forsætisráðherra, og David Cameron, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, á tröppum Alþingishússins í mars 2016. Þeir ræddu sæstreng til Bretlands og voru báðir nokkuð bjartir – nokkuð sem nú þykir ganga næst landráðum í tali þeirra sem eru á móti orkupakkanum. Björn segir:

„Fréttin undir myndinni hófst á þessum orðum: „Það styttist í að vinnuhópur skipaður af Sigmundi Davíði Gunnlaugssyni og David Cameron skili niðurstöðu varðandi hugsanlegt verð og magn á orku sem myndi vera flutt í gegnum sæstreng frá Íslandi til Bretlands.“ Skömmu síðar hrökklaðist Sigmundur Davíð frá völdum.“

Annars ber þessi umræða mikil einkenni skotgrafahernaðar. Hér er frétt úr Viðskiptablaðinu frá því ári fyrr, þegar vinnuhópurinn um sæstrenginn var skipaður. Það virðist ljóst að ef sæstrengurinn yrði lagður væri hægt að selja íslenska orku á miklu hærra verði en nú er gert til stóriðju. Það þykir almennt ekki góð nýting á orku að selja hana til stóriðju, svo það gæti líka vel orðið raunin að stóriðjuver hérlendis lokuðu óforvarendis. Hagkvæmni þessa virðist ótvíræð og eilítið hærra raforkuverð til notenda ekki mikill fórnarkostnaður í því sambandi. Norðmenn hafa hagnast vel á raforkusölu um sæstreng.

Hins vegar er stofnkostnaðurinn gríðarlegur, bæði við lagningu sæstrengsins og uppbyggingu flutningskerfa vegna hans og þetta yrði ekki mögulegt nema ríkisvaldið í Bretlandi kæmi til skjalanna. Það þyrfti líka að virkja meira á Íslandi til að afla rafmagns til að selja um strenginn, því myndi fylgja mikið rask. Fyrir því er lítill hljómgrunnur. Aukin notkun vindorku í Bretlandi gæti líka þýtt minna notagildi sæstrengs. Það er semsagt ólíklegt að af þessu verði – sæstrengurinn er varla nema hugarleikfimi á þessu stigi.

Bretland er hins vegar á leiðinni út úr ESB. Og um leið er orkustefnan í uppnámi og sömuleiðis tengsl Bretlands við evrópska raforkumarkaðinn.

Þess má svo geta að Björn Bjarnason leiðir nú starf nefndar á vegum Alþingis sem á að gera úttekt á stöðu EES-samningsins.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt