fbpx
Laugardagur 23.mars 2019
Eyjan

„Þjóðhyggjan“ og hin alltumlykjandi alþjóðamenning

Egill Helgason
Þriðjudaginn 13. nóvember 2018 01:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið “þjóðhyggja” er athyglisvert, ég las þetta á vefnum í gær:

“Fólk finnur sig heima í samfélagi sameiginlegs tungumáls, siða, sögu og menningu. Það er þjóðhyggja. Og hún er eina raunhæfa hugmyndafræðin. Allt hitt eru framandi ismar.”   

Nú veit maður ekki alveg hvað “þjóðhyggja” þýðir. Mörg þessi “hyggju”-orð sem hafa verið búin til í íslensku eru reyndar algjör skrípi. Sum kunna að vera þýðingar á erlendum hugtökum sem eru býsna nákvæm – en svo er ekki í þessu tilviki.

Þessum er hygg ég stefnt gegn Evrópusambandinu – sem andstæðunni við “þjóðhyggjuna”. Í því felst viss misskilningur, því ESB gerir ekki út á menningarlega einsleitni. Hefur í raun ekkert slíkt að bjóða. Þvert á móti styður sambandið frekar við staðbundna menningu og líka minni tungumál – eins og til dæmis katalónsku og basknesku.

En það má spyrja hvað sé um “þjóðhyggjuna” þegar samskipti fólks fara fram á amerískum vefsíðum sem eru í eigu stórfyrirtækja sem fénýta það í auglýsingaskyni, safna um það upplýsingum og ákveða með algoriþmum hvað það fær að sjá – og heitir náttúrlega allt erlendum nöfnum: Facebook, Google, Instagram, Twitter, Snapchat?

Þegar sóknin í afþreyingarefni eykst stöðugt neyslan er í síauknum mæli í gegnum alþjóðlegar efnisveitur sem sýna amerískt efni fyrst og fremst – Netflix, iTunes, Hulu, YouTube og fleiri sem eru að bætast við? En tónlistina sækir maður á Spotify.

Þegar helsta afþreyingarefni barna eru tölvuleikir sem eru svo alþjóðlegir að börn hinum megin á hnettinum eru í nákvæmlega sömu leikjunum á nákvæmlega sama tíma?

Þegar fólk heldur ekki lengur með íþróttafélögunum sem eru í bænum hjá því eða hverfinu heldur skilgreinir sjálft sig eftir knattspyrnufélögum á Bretlandi og bíður í ofvæni eftir úrslitum þaðan um hverja helgi?

Þegar fólk borðar mestanpart mat sem er upprunninn á Ítalíu (pasta og pitsur), í Asíu (núðlur) og í Bandaríkjunum (hamborgarar)?

Þegar fólk alls staðar í veröldinni er í svipuðum fötum, framleiddum af sömu alþjóðlegu keðjunum – saumuðum í Bangla Desh eða Indónesíu?

Þegar sala á bókum hefur dregist saman um þriðjung á fáum árum og bókabúðirnar fyllast af lundum og öðrum minjavarningi?

Þegar átján prósent vinnuaflsins er erlent – og við vitum að hagkerfið getur ekki komist af án þess?

Þegar helsti orlofsstaðurinn er Kanarí en fólk bíður í ofvæni eftir því að komast á eftirlaun svo það geti flutt búferlum í nýlendur eftirlaunaþega á Suður-Spáni?

Það er satt að segja ekki mikil “þjóðhyggja” í þessu. Það má fremur segja að einsleit alþjóðleg menning hafi sigrað og ríki nánast alls staðar í veröldinni – og það eru engar líkur á öðru en að henni vaxi ásmegin eftir því sem þessari öld vindur fram. 

Einhverjar mótbárur er að finna gegn þessu í nafni þjóðernis eða trúarbragða. En þar rekst hvað á annars horn. Þar er í rauninni stærst uppreisn íslamista með sitt jihad, en ekki einu sinni þeir fara alla leið. Þeir nota internetið og aka um á Toyota. Og það er líka ljóst að þeim mistekst ætlunarverk sitt gjörsamlega. Barátta þeirra er í eðli sínu svipaðrar ættar og fjöldagöngur pólskra þjóðernissinna þótt vissulega gangi þeir lengra.

Donald Trump segist vera þjóðernissinni (þjóðhyggjumaður?). Það er í rauninni frekar ankanalegt þegar heiminum er að miklu leyti stjórnað af bandarískum auðfyrirtækjum, neyslumynstrið sem Zuckerberg græðir hvað mest á er alltumlykjandi,  en bandarískur her hefur stöðvar út um alla veröld til að passa upp á dæmið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Eyjan
Fyrir 13 klukkutímum
Fallinn strompur

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 19 klukkutímum

Silja Bára nýr formaður Jafnréttisráðs

Silja Bára nýr formaður Jafnréttisráðs
Eyjan
Fyrir 20 klukkutímum

Viðræður hafnar á nýjan leik á milli WOW air og Icelandair – Öll sund að lokast hjá WOW air

Viðræður hafnar á nýjan leik á milli WOW air og Icelandair – Öll sund að lokast hjá WOW air
Eyjan
Í gær

Bændur forviða á sýklalyfjaónæmi í íslensku sauðfé:  „Eitthvað sem maður gerði ekki ráð fyrir“

Bændur forviða á sýklalyfjaónæmi í íslensku sauðfé:  „Eitthvað sem maður gerði ekki ráð fyrir“
Eyjan
Í gær

Vill að hæstu laun verði aldrei hærri en þreföld lágmarkslaun

Vill að hæstu laun verði aldrei hærri en þreföld lágmarkslaun
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Hin fallvalta gæfa í verslunarrekstri á Laugaveginum – tilraun til að sjá deiluna um umferðarmálin frá báðum hliðum

Hin fallvalta gæfa í verslunarrekstri á Laugaveginum – tilraun til að sjá deiluna um umferðarmálin frá báðum hliðum
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Prentmet kaupir prentsmiðjuna Odda

Prentmet kaupir prentsmiðjuna Odda