fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Sorgarfréttir úr kvikmyndaheiminum – besta efnisveitan leggur upp laupana

Egill Helgason
Föstudaginn 26. október 2018 23:39

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég verð fyrir nokkru áfalli núna um mánaðarmótin. Tilkynnt hefur verið að þá verði lokað á streymisveituna Filmstruck. Hún er i eigu Warner Brothers sem fyrir nokkru runnu inn í síma- og netrisann AT&T. Það þykir ekki hagkvæmt að halda starfseminni áfram.

Ég varð áskrifandi að Filmstruck þegar ég var úti í Bandaríkjunum í fyrrasumar og tókst með einhverjum ráðum að halda áfram að horfa hér heima. Filmstruck hefur einbeitt sér að klassískum og listrænum kvikmyndum, bætt upp sára vöntun á slíku efni á til dæmis Netflix.

Þarna hefur maður getað séð sígildar Hollywoodmyndir,  mikið úrval japanskra mynda frá ýmsum skeiðum, þöglar kvikmyndir  myndir risa eins og Bergmans, Welles, Fellinis og Tarkovskís. Það var verið að bæta inn sérstakri dagskrá með myndum eftir kvenleikstjóra eins og Wertmüller, Varda og Campion, ekki alls fyrir löngu kom safn af myndum með Paul Newman, og svo með úrvali mynda eftir til dæmis Rosselini, Cuckor, David Lean og Derek Jarman.

Inni í Filmstruck er svo hið mikla Criterion-safn sem kom út á myndböndum og geisladiskum áður en það form varð úrelt. Þar hef ég undanfarið skemmt mér við að horfa á afskaplega forvitnilegar heimildarmyndir um Ólympíuleika. Kom auga á íslenskt glímulið á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi 1912, spjótkastarann Kristján Vattnes á Berlínarleikunum 1936 og Vilhjálm Einarsson vinna silfrið á leikunum í Melborne 1956. Allt í uppgerðum og flottum myndgæðum.

Svona má lengi telja. Fyrir mig sem gamlan kvikmyndaunnanda og bíóskríbent er mikill missir að Filmstruck. Því miður er úrvalið á efnisveitum eins og Netflix mjög takmarkað. Einskorðast mikið við sjónvarpsseríur og auðmelt afþeyingarefni. Stundum veltir maður því jafnvel fyrir sér hvort það sé ekki tilræði við alvöru kvikmyndamenningu. Við gætum jafnvel staðið frammi fyrir því að búa í heimi þar sem er erfitt að nálgast klassískar og listrænar kvikmyndir.

Um tíma var gríðarlega mikið gefið út af þeim á geisladiskum. Það var unun að koma í búðir eins og HMV í Oxfordstræti í London og skoða úrvalið. En nú er varla að fólk eigi geislaspilara lengur, þetta er úrelt form – útgáfa geisladiska er mestanpart hætt og sala á þeim hefur lagst af.

Kvikmyndagerðarmaðurinn og bíórýnirinn Ásgrímur Sverrisson skrifar um endalok Filmstruck:

Þetta eru ótíðindi – og það daginn fyrir alþjóðlegan dag kvikmyndavarðveislu. Einhvernveginn hélt maður að hin stafræna öld myndi gera aðgengi að kvikmyndasögunni auðveldara, að til yrðu kvikmyndasöfn – líkt og bókasöfn – aðgengileg almenningi. Vissulega er hægt að kaupa diska á Amazon, hjá Criterion og víðar, en diskar eru víkjandi format. Hvar er hið stafræna kvikmyndasafn? Og hvar, ó hvar – er hið stafræna íslenska kvikmyndasafn?

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins