fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Egill segir bílasölu hafa hrunið – Ásgeir skammar verkalýðshreyfinguna

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 18. október 2018 06:58

Ásgeir Jónsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Svona gengisbreytingar hafa strax áhrif á verð nýrra bíla,“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, í Morgunblaðinu í dag. Mikill samdráttur hefur orðið í sölu nýrra bíla hér á landi að undanförnu, eða síðan krónan fór að gefa eftir undir lok sumars.

Egill áætlar að sala nýrra fólksbíla hafi dregist saman um 30 prósent síðustu þrjár til fjórar vikur. Inni í þessari tölu er sala til bílaleiga en hlutur hennar hefur farið minnkandi. Til marks um gengislækkun krónunnar er bent á að miðgengi evru sé nú 137 krónur en var 123 krónur í byrjun ágúst.

Bent er á eitt einfalt dæmi af bíl sem kostar tuttugu þúsund evrur í innkaupum. Hefur verðið á honum hækkað um 280 þúsund krónur og munar um minna.

„Allir bílar eru keyptir inn í erlendri mynt. Það hefur því bein áhrif á verð bíla að gengi krínu veikist. Innkaupsverð er enda mjög hátt hlutfall af útsöluverðinu,“ segir Egill sem bætir við að Brimborg hafi þegar hækkað verð á hluta nýrra bíla. Verð notaðra bíla muni einnig hækka.

Ekki séð svona sverar kröfugerðir

Í Markaðnum í Fréttablaðinu í dag er bent á að krónan hafi ekki verið veikari í tvö ár.

Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, rekur gengislækkun krónunnar að undanförnu til ótta um að komandi kjarasamningar kunni að fara úr böndunum.

„Við höfum ekki séð svona sverar kröfugerðir frá verkalýðsfélögunum lengi,“ segir Ásgeir. Blaðið ræðir einnig við Stefán Brodda Guðjónsson, forstöðumann greiningardeildar Arion banka, sem segir það hafa komið sér á óvart hvað krónan hélst sterk í langan tíma.

„Ég hef því verið þeirrar skoðunar að krónan hafi verið fullsterk og í raun kom mér á óvart að hún skuli hafa haldist þetta sterk svona lengi. Veikingin nú í haust er hins vegar mjög snörp sem hefur nú iðulega verið raunin með krónuna,“ segir hann og bætir að framan hafi telji hann veikinguna hafa stafað að horfum um minni vöxt eða samdrátt í flugframboði til Íslands. „Síðustu dagana hugsa ég að tíðindi af vinnumarkaði vegi þungt,“ segir hann.

Ný kynslóð verkalýðsleiðtoga

Ásgeir segir að tvennt skýri veikingu krónunnar að undanförnu. Nefnir hann afgang á vöru- og þjónustuviðskiptum sem hafi dregist saman að undanförnu. Hægst hafi á vexti ferðaþjónustu og það að einherju leyti grafið undan gengi krónunnar.

„Hins vegar eru blikur á lofti víða og farið að bera á svartsýni. Væntingar stjórnenda fyrirtækja til næstu sex mánaða – mælt af Gallup – hafa til dæmis fallið að undanförnu og eru nú lægri en eftir hrunið,“ segir Ásgeir sem bætir við að margir óttist að ferðaþjónustan sé brothætt. Þá hafi kröfugerðar verkalýðsfélaga vakið ugg.

„Þar er beðið um miklar launahækkanir – mun meiri hækkanir en atvinnulífið getur staðið undir án þess að verulegar verðhækkanir komi til. Sagan kennir okkur að í hvert sinn sem laun eru snarhækkuð um tugi prósenta fellur gengið og verðbólgan fer úr böndunum. Eldri kynslóðir í verkalýðshreyfingunni voru farnar að átta sig á þessu samhengi en nú virðist vera komin fram ný kynslóð verkalýðsleiðtoga sem virðist ekki gera sér grein fyrir þessu,“ segir Ásgeir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt