fbpx
Föstudagur 26.apríl 2019
Eyjan

Heiðrún Lind svarar Björgólfi Thor: „Orðfærið veldur vonbrigðum og efnistökin koma nokkuð á óvart“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 10. október 2018 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björgólfur Thor Björgólfsson, fjárfestir, gagnrýndi „kvótagreifa“ fyrir met í arðgreiðslum og fyrir að „gefa almenningi fingurinn“ í pistli sínum um hrunið í vikunni líkt og Eyjan fjallaði um. Hann spurði einnig af hverju útgerðin, sem greiddi sem allra minnst fyrir aðgang sinni að þjóðareigninni, með hjálp þingmanna, léti arðinn ekki renna í sameiginlegan sjóð, líkt og norðmenn gerðu með olíuvinnslu sína. Þá sagði hann útgerðina einnig standa í braski, með því að „kaupa fyrirtæki og selja þau svo aftur fyrirtækjum sem skráð eru á markaði og innleysa þannig gríðarmikinn hagnað á stuttum tíma.“

Þá spurði hann einnig hvort kvótagreifar væru í persónulegum ábyrgðum fyrir skuldbindingum sínum. Ef ekki, væri „geggjunin ennþá algjör“ og vildi meina að við hefðum lítið lært af hruninu.

Sjá nánarBjörgólfur Thor:„Eru þessir kvótagreifar í persónulegum ábyrgðum fyrir skuldbindingum sínum? Ef ekki, þá er geggjunin ennþá algjör“

Ómálefnalegar alhæfingar

Heiðrún Lind  Marteinsdóttir, framkvæmdarstjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, hefur svarað pistli Björgólfs.

Hún tekur undir með Björgólfi að margt hefði betur mátt fara í aðdraganda hrunsins, en vill ekki taka undir „alhæfingar“ að íslensku bankakerfi hafi verið stýrt af glæpamönnum eða bröskurum. „Svo var alls ekki,“ segir hún.

Þá segir Heiðrún:

„Meðal annars af þessum sökum leyfi ég mér að gagnrýna ómálefnalegar alhæfingar Björgólfs um meint brask í sjávarútvegi, þar sem kvótagreifar setji nýtt met í arðgreiðslum og gefi almenningi fingurinn, á meðan leiðir séu fundnar til að tryggja að útgerðin greiði sem allra minnst fyrir aðgang að sjávarauðlindinni. Orðfærið veldur vonbrigðum og efnistökin koma nokkuð á óvart, sér í lagi þegar litið er mikillar reynslu Björgólfs af viðskiptum.“

Heiðrún fer síðan yfir nokkur atriði sem sjávarútvegsfyrirtæki glími við og nefnir að arðgreiðslur á árunum 2010-2016 hafi numið 21% af hagnaði, samanborið við 31% í viðskiptahagkerfinu öllu á sama tímabili, eða þriðjungi lægri á bestu árum í sögu sjávarútvegsins og þeim verstu þegar kemur að innlendum atvinnurekstri.

Hún nefnir einnig dýra kostnaðarliði sjávarútvegsins og hina „manngerðu áhættu“ sem hvikulir stjórnamálamenn séu:

„Svo virðist sem sumir þeirra hafi af því sérstaka ánægju að níða skóinn af sjávarútvegsfyrirtækjum og misgáfulegar hugmyndir spretta upp með reglulegu millibili. Flestar þessara hugmynda eru því marki brenndar að þær miða að því að setja atvinnugreinina í hauslás og skrúfa fyrir súrefnið sem nauðsynlegt er atvinnugreininni í hinu alþjóðlega umhverfi sem hún starfar.“

Fátæklegur rökstuðningur Björgólfs

Heiðrún undrast að Björgólfur nefni ekki hvaða upphæð útgerðin ætti að greiða í sameiginlegan auðlindasjóð:

„Þá spyr Björgólfur einnig af hverju arðurinn af auðlindinni renni ekki í sjóð landsmanna eins og arðurinn af olíuvinnslu Norðmanna. Auðlindinni, skrifar hann með ákveðnum greini, en þær eru fleiri en ein, þótt sjávarútvegurinn sé eina atvinnugreinin sem greiðir auðlindagjald. Náttúran, orkan og jafnvel fjarskiptatíðnisvið hafa verið skilgreind sem náttúrulegar auðlindir landsins, en ekkert hefur þó gjaldið verið frá fyrirtækjum sem slíkar auðlindir yrkja. Látum það liggja á milli hluta. Veiðigjald felur í sér að um þriðjungur af afkomu útgerða rennur í ríkissjóð. Það hefði verið upplýsandi fyrir málefnalega umræðu að heyra hvert þetta gjald ætti að vera að mati Björgólfs og hvernig hið hækkaða gjald kæmi við samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs á alþjóðlegum markaði. Það vekur raunar undrun að Björgólfur skuli í annars fátæklegum rökstuðningi bera saman olíuna og fiskinn í sjónum, enda er þar um að ræða samanburð á eplum og appelsínum. Rétt hefði verið að bera saman þann arð sem sjávarútvegur í Noregi greiðir, við þann sem sá íslenski greiðir. Eru þá bornar saman sambærilegar atvinnugreinar á milli landa, sem eiga jafnframt í harðri samkeppni sín á milli. Því er þá til að svara að sjávarútvegur í Noregi greiðir ekkert auðlindagjald. Ef Björgólfur vill að Íslendingar greiði af sjávarauðlindinni það sama og Norðmenn, þá verður niðurstaðan æði snautleg. Sem betur fer er íslenskur sjávarútvegur burðugari en svo.“

Fáir með titilinn „greifi“

 „Að lokum er rétt í ljósi ósmekklegrar orðnotkunar um kvótagreifa að halda því til haga að yfir 95% þess kvóta sem upphaflega varð úthlutað, hefur skipt um hendur í hefðbundnum viðskiptum. Fáir í sjávarútvegi geta því borið titil svokallaðra greifa, sem almennt komast í álnir fyrir ættir einar. Björgólfur hefur að líkindum sjálfur fengið ofgnótt umræðu um eigin viðskipti. Undan henni er ekki hægt að kveinka sér, en þá kröfu hlýtur hann sjálfur að gera að umræðan sé upplýsandi og málefnaleg. Í gagnrýni hans á sjávarútveg, hlýtur að mega gera sömu lágmarkskröfu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Björn um tækifærismennsku Þorsteins og Frosta: „Nær væri að nota orðið „tvöfeldni“

Björn um tækifærismennsku Þorsteins og Frosta: „Nær væri að nota orðið „tvöfeldni“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Síðasta bókin um Bernie Gunther – á upplausnartíma Weimarlýðveldisins

Síðasta bókin um Bernie Gunther – á upplausnartíma Weimarlýðveldisins